Gott að lifa...

Þá er ég bara búin í prófum og byrjuð á nýrri önn því hérna eru þrjár annir.  Prófin gengu ágætlega en seinasta prófið var stærðfræði sem gekk betur heldur en seinast, en ég náði að klára það þrátt fyrir mikinn texta.  Ég fékk út úr landafræðiprófinu og fékk ekki nema 7 en það var ekkert vitlaust heldur líkaði kennaranum ekki skriftin mín og hvernig ég litaði kortið, ég hélt að ég væri ekki ennþá í barnaskóla og var þess vegna einungis að reyna að koma kunnáttu minni á framfæri ekki listahæfileikum.  Þetta er Frakkland ! 

Annars er ég bara búin að hafa nóg að gera, fór í afmæli hjá einni fótboltastelpunni, sá/hlustaði á Requiem Mozart sem var alveg frábært.  Og í dag tók ég herbergið mitt alveg í gegn og fór í gegnum peningamálin mín sem standa þannig að ég hef eytt rosalega miklum peningum.  Mér virðist alltaf takast að gera það. 

Það eru hreinlega bara að koma jól, bærinn er orðinn fullur af jólaljósum og búið er að setja upp jólamarkaði út um allt sem er ansi gaman að skoða og ég verð að viðurkenna að þegar ég sé þetta núna er ég bara orðin pínu spennt fyrir jólunum í útlandinu. 

Af öllu að dæma hef ég það bara gott í Frakklandinu um þessar mundir og engir erfiðleikar stíga inn um mínar dyr að svo stöddu.  Þó svo að það komi stundum smá tómarými þar sem mannig gefst tími til að leiðast smá þá er það eins og gengur og gerist. 

Ásbjörg


Mætt í kastalann !

Þessi vika var örlítið frábrugðin öðrum vikum þar sem "litlu stúdentsprófin" voru frá og með miðvikudeginum.  Ég tók frönsku, landafræði og ensku og enn er eftir stærðfræði.  Þar sem ég þurfti ekki að taka fleira var ég bara í fríi á miðvikudag, föstudag og laugardag en skellti mér í öll þrjú prófin á fimmtudeginum. 

Fyrst að enginn skóli var þá ákvað ég að dekra aðeins við mig, fór í klippingu og litun, plokkaði og litaði á mér augabrúnirnar afþví ég var orðin eitthvað hálfþreytt á mér og var slæm í húðinni sökum kólnandi veðurs.  Svo eitt kvöldið áður en ég ætlaði að lita á mér augabrúnirnar ákvað ég að þrífa á mér húðina og fann til þess einhverja prufu sem ég hafði fengið gefins frá líkamsræktarstöðinni.  Ég skrúbba á mér andlitið með þessari prufu og læt vera í svona 5 mín, en fann til mikils sviða og ákveð þá að spyrja Paulu hvort þetta sé ekki örugglega fyrir andlitið og við lesum á pakkninguna og er þetta þá ekki fyrir neðan mitti og með einhverju öðru sýrustigi og ég veit ekki hvað og hvað.  Ég þríf þetta í snarhasti af mér og fyrir vikið var ég ennþá rauðari heldur en áður og verri í húðinni.  Ég tek það fram að ég las ekki á pakkninguna áður en ég setti þetta á mig og veit hreinlega ekki afhverju ég gaf mér það að þetta væri fyrir andlitið, en svona er þetta Blush  Mér tókst hins vegar að fara vandræðalaust í klippingu og litun þó svo ég hafi ekki beint verið sátt eftir það, þar sem hárgreiðslukonan skipti í píku og blés hárið á mér svo ég var eins og gömul kelling. 

Núna er ég samt voða sátt, búin að gera hárið mitt sjálf og satt best að segja tókst mér að finna mér úlpu og skó líka. 

Afmæli mömmu Claire undirtók alla helgina en var hins vegar alveg frábært.  Í gær var öll fjölskyldan saman komin í einhverjum voða flottum kastala þar sem hann var skoðaður og þar var borðað undir kristalljósum.  Svo voru sumir heppnir og fengu að gista í kastalanum í flottum prinsessuherbergjum en þeim hópi fylgdi ég ekki en við gistum hjá mömmu Claire.  Svo var vaknað snemma til að undirbúa sig fyrir messu en haldin var sér messa bara fyrir fjsk. og vini.  Þar var sungið og spjallað og borðaður ágætis matur.  Þessum ósköpum lauk svo rétt í þessu þar sem við vorum að renna í hlaðið heima. 

Uppgefin Sick og við tekur venjuleg skólavika sem ætti annars ekki að vera svo slæmt.  Stundum er bara gott að komast aftur í hversdagsleikann Halo 

Í þetta sinn fáið þið hinsvegar að sjá myndir af herlegheitunum...

Ykkar,

Ásbjörg


Ásbjörg þarf að komast út !

Þá eru magaverkirnir yfirstaðnir svo ég get tekið gleði mína á ný.  Claire hafði margar tilgátur um ástæður magaverkjanna og m.a. orðaði hún það svo skemmtilega að Ásbjörg þyrfti hreinlega að komast út og ég held ég sé bara komin út...  En mögulega var þetta eitthvað stress í mér sem gerði það að verkum að maginn var í keng. 

Claire var eitthvað að spjalla við Paulu og sagði að þegar sá dagur rynni upp að ég syngi hérna heima þá fyrst geti hún verið viss um að mér líði vel.  Ég hafði alltaf fundið mér tíma þegar ég var alein heima til að æfa mig að syngja bæði mér til hags og einnig til þess að vera ekki að ónáða fjölskyldumeðlimi.  Jæja í byrjun vikunnar tók ég mig semsagt til og söng hástöfum í herberginu mínu til að sýna Claire að mér liði vel, vona að hún viti það núna.

Helginni er ég svo búin að eyða meira og minna í að læra efnafræði sem er gjörsamlega að gera mig brjálaða vegna þess að engin svona fræðiorð eru til í orðabókinni minni.  Mér tókst að komast í gegnum þetta á einhvern hátt sem ég skil ekki ennþá en tók mér hinsvegar tvo daga í það í stað kannski 1 klst hefði þetta verið á íslensku.  Komandi vika á eftir að verða erfið að ég held vegna þess að það eru svokölluð "petit bac" eða æfingastúdentspróf sem byrja á miðvikudaginn. 

Sökum "kuldans" þurfti ég að finna mér líkamsræktarstöð vegna þess að það fer að verða of erfitt að hlaupa úti.  Það gerði ég á eigin spýtur, hringdi út um allt og tók mér svo góðan rúnt um bæinn til að skoða þrjár sem mér leist best á og ræða um verð og þessháttar, ég var svo heppin að þær voru allar á sitthvorum enda bæjarins svo að á endanum var ég búin að taka mér rúmlega 3 tíma göngutúr.  Einnig þarf ég að fara að finna mér úlpu en í þeim málum er ég örlítið erfið, ég er búin að leita út um allt en virðist ekki ætla að finna eitthvað sem ég er ánægð með en aftur á móti er Paula ansi einföld í fatamálum, finnur strax það sem hún leitar að, enda gerir hún ekki miklar kröfur. 

Þið fáið engar myndir að sjá þessa vikuna, þar sem ég hef ekki gert neitt nógu merkilegt til að fá að festast á filmu. 

Ásbjörg sem er komin út ! Kissing 

 


Nýr mánuður með kulda og magaverkjum

Þá er nóvembermánuður genginn í garð með sinn ógnarlega kulda, jólaauglýsingar streyma í póstkassann, súpermarkaðirnir fullir af jóladóti og farið er að hengja upp jólaljós í miðbænum.  Ég verð hálfhrædd þegar ég sé allt þetta því þá uppgötva ég að ekki er of langt í jólin og mín fyrstu jól án fjölskyldunnar sem á auðvitað eftir að verða upplifun útaf fyrir sig, góð eða slæm ? ég veit ekki enn. 

Seinasta mánudag fór ég í hjólatúr með Claude og Gerhard í fjöllunum, veðrið var frábært og ekkert smá fallegt útsýni.  Svona 70% af leiðinni var upp í mótið og hjóluðum við í 2 og 1/2 tíma.  Ég var eins og sannur hjólagarpur í hjólabuxunum hennar Claire og á rosa fínu hjóli.  Það var alveg að koma nóvember og við á stuttbuxum og stuttermabol, þó ég sé í Frakklandi þá er það ekki alveg eðlilegt fyrir þennan tíma árs.  Enda læddist veturinn inn tveimur dögum síðar en þá var hitastigið um 20° minna og Paula upplifði sínar 0°C í fyrsta skipti á ævinni. 

Líkaminn minn virðist ekki alveg vera að höndla þessar breytingar og er hann búinn að sýna það með mörgu móti.  Allt haustfríið mitt er ég búin að vera með magaverk eftir hverja máltíð og á hverjum degi hugsaði ég, æ þetta hlýtur að lagast en svona gekk þetta í 10 daga og þá var komið nóg.  Claire pantaði tíma hjá lækni og læknirinn sagði að ég væri með "irritation intestinical" sem ég held að þýði þarmabólgur og fékk ég einhver lyf við þessu og vona svo sannarlega að þau virki.  Skrýtið að líkaminn minn bregðist svona við breytingum vegna þess að það er ekki miklar breytingar fyrir mig, það er enn meiri fyrir Paulu en enn hefur ekkert hrjáð hana fyrir utan aukakíló sökum súkkulaðiáts. 

Ég náði nú samt að gera fullt af hlutum í fríinu mínu þrátt fyrir þetta, ég fór út á hverju einasta kvöldi og leyfði mér að versla smá í H&M.  Annars er ég að fara að endurtaka hjólatúrinn aftur á eftir og svo þarf ég að læra eitthvað fyrir morgundaginn.  Svo mæti ég hress í skólann í fyrramálið, endurnærð eftir gott og langt frí.

Ásbjörg


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband