Laugardagur, 30. desember 2006
Gleðilegt nýtt ár !
Ég er ekkert voðalega frumleg í fyrirsögnum þessa dagana. Jæja ég ætla bara að henda inn smá kveðju, engar fréttir eða neitt. Þið fáið að sjá myndir sem segja líklega meira en þessi 1000 orð sem ég skrifa hér. Jólin voru frábær í útlandinu, afmælisdagurinn = skrýtinn. Annars rétt í þessu var "bróðir" okkar að segja okkur að við erum að fara til Normandee - 8 klst akstur, brottför... núna. Hann hafði breytt um skoðun, áður var það Strasbourg - 2 klst akstur, brottför...einhvertíman á morgun..... Eftir dvöl í Normandee er stefnan tekin á París þar sem við munum hitta fósturforeldra okkar og eyða með þeim 4 dögum þar hjá systur Claire. Svo ég segi bara Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla - þó það vanti ef til vill 4 mánuði af því. Eigum að vísu nóg eftir - ætla ég að vona. Gangið nú hægt um gleðinnar dyr og ég lofa ykkur að það mun ég einnig gera. Mér þykir samt alltaf gaman af svona óvæntum uppákomum, svo ég er bara ansi sátt. Ég gat ekki farið án þess að blogga því ef það kæmi ekki blogg inn fyrr en í næstu viku, ég veit ekki hvað þið mynduð halda... Bless bless, Normandee HÉR KEM ÉG.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 24. desember 2006
Gleðileg jól !
Ég vil byrja á því að óska landsmönnum öllum, nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Kertasníkir virðist svo hafa gert sér sér ferð alla leið til Frakklands til að gefa mér og Paulu í skóinn, ekkert smá sátt með hann. Eftir allar áhyggjurnar sem ég var búin að hafa yfir að fá ekki í skóinn þá létti þetta á.
Þar sem ég er stödd í Frakklandi þá verða jólin að sjálfsögðu frábrugðin þeim íslensku. Ég er þegar búin að opna pakkana mína vegna þess að í kvöld þá verða 30 manns hérna í mat, öll fjölskyldan hans Claude. Kvöldið verður með sérstöku sniði, fólkið kemur um 8-9 leytið, þá er kampavín með öllu tilheyrandi og þar á eftir fara þeir sem á því hafa áhuga í kirkju. Þannig að kvöldmaturinn verður líklega borðaður svona um miðnætti og af því að dæma hversu langan tíma frakkar taka sér í að borða vanalega þá býst ég ekki við því að á jólunum sjálfum verði minni tími tekinn í það, svo þegar þið verðið komin í rúmið, fólkið gott þá verð ég líklega enn að borða kvöldmatinn.
Jólaskapið kom seint en kom þó, þar sem ég var í skólanum til hádegis í gær, þá var ekki mikill tími til að hugsa um þessi blessuðu jól. Svo halda herlegheitin áfram á morgun með afmæli og ég vona einhverju tilheyrandi. Þá mun litla jólabarnið verða 18 ára.
Að lokum sendi ég stórt jólaknús til allra !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Laugardagur, 16. desember 2006
Chaque jour il faut se coucher moins bete !
Þessi vika er búin að vera ansi skrýtin þar sem er búið að skiptast á skin og skúrir. Annaðhvort er þetta ótrúlega erfitt og leiðilegt og ég veit ekki hvað eða þvílík gleði ! Þessa dagana þarf samt alls ekki mikið til að gleðja mig. Ég gladdist t.d. mikið yfir einkunn úr skilaverkefni í eðlis-og efnafræði sem var 19/20. Ég tek það fram að í þetta verkefni var mikið lagt og á meðan á því stóð féllu nokkur tár. Þið sem þekkið mig kannist eflaust við þessi reiðistár jafnt og gleðitárin mín frægu. Þau hafa líka nokkur fallið þessa vikuna, sem betur fer.
Það er alveg ótrúlegt hvað það getur gefið mikið að hjálpa öðrum. Það er ein stelpa í bekknum okkar Paulu sem á voðalega bágt. Á miðvikudaginn fórum við Paula með henni í bæinn og áttum ótrúlega góðar stundir með henni og hún var svo þakklát og sendi okkur þakklætisskilaboð um kvöldið, þennan dag fór ég ótrúlega glöð að sofa og vaknaði með bros á vör.
Aðventan hérna er ansi frábrugðin og á Íslandi. Ég veit ekki hvað það er en mér finnst bara engan veginn eins og það séu að koma jól, ég heyri engin jólalög nema einstaka sinnum þegar ég hlusta á það sem ég á í tölvunni minni. Þetta er einhvernveginn ekki jafn hátíðlegt hérna, það bjargaði mér hinsvegar alveg að ég fékk sendar íslenskar smákökur, það gerði alveg gæfumuninn. Ég var hinsvegar aðeins að átta mig betur á komu jólanna áðan þegar við fórum með Claire að kaupa jólatréð. Keyptum rosa flott og stórt jólatré sem við erum búin að setja upp en það er í okkar höndum, mínum og Paulu að skreyta það.
Heilræði mitt hérna í fyrisögninni er ansi góð setning sem ég ætla hreinlega að fara eftir. Þetta þýðir að á hverjum degi þurfi maður að fara í rúmið minna heimskur. Þegar mér var kennd þessi setning var ég einmitt spurð hvort ég ætlaði að deyja heimsk. Þessar umræður fjölluðu um að smakka nýjan mat þar sem ég er erfið í þeim málum. Það eru bara hlutir sem mig langar bara alls ekki til að smakka, eins og ostrur, hrogn og ef til vill fleira. En þessar umræður áttu sér stað í súpermarkaðnum með Claire áðan og enduðu með því að hún keypti snigla sem ég samþykkti að smakka. Ég er nú þegar búin að smakka allan fjandann, afsakið orðbragðið.
Sniglaveisla og hananú !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Laugardagur, 9. desember 2006
Tími hvað ?
Ég var að velta fyrir mér að ég held ég hafi aldrei áður hugsað jafn mikið um tímann, hvort hann líður hratt, hægt, hvað er langt síðan ég kom og svo framvegis. Þá áttaði ég mig á því að það er ekkert nauðsynlegt að vera alltaf að pæla - jæja núna er ég búin að vera hérna í 3 og 1/2 mánuð og 7 eftir. Málið er einfaldlega bara að njóta lífsins ! Er lífið annars ekki til þess ? Á mon avis, oui Svo sá ég eina rosa góða setningu málaða á vegg niður í bæ. Prendre le temps sinon il te prend : Taktu þér tíma því ef ekki þá tekur hann þig. Þetta er alveg rétt. Önnur pæling um þetta franska líf. Mér finnst að ég eigi að venjast lífinu hérna og finnast það bara hversadagslegt og allt það en á sama tíma þá verð ég aðeins að pæla í því að þetta er ekkert sjálfsagt að fá að búa hérna í Frakklandi hjá frábærri fjsk. og hafa það bara alveg rosalega gott.
Það gengur ekki upp að rífast á frönsku, ég er þegar komin með reynslu í því. Það var gjörsamlega misheppnað.
St. Nicolas í Nancy var frábær helgi. Við sáum frekar slappa flugeldasýningu sem einnig fór eitthvað úrskeiðis þar sem sumir fengu flugeldana beint á sig. Það kryddaði hinsvegar aðeins upp á flugeldasýninguna. Hitti Örnu Láru og viti menn við Íslendingarnir notuðum einungis frönskuna og gekk það bara ljómandi vel.
Desember virðist ekki leggjast vel í Frakka. Það eru allir þreyttir og pirraðir og eftir því sem ég best kemst að er það vegna þess að allir eru orðnir æstir í að fá frí, þeim þykir langt síðan við vorum í fríi. Það er aðeins öðruvísi en á Íslandi. Það er ekki nema rúmur mánuður síðan við vorum í næstum 2 vikna fríi. Svona eru þessir Frakkar skrýtnir.
Ásbjörg
Bloggar | Breytt 10.12.2006 kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 1. desember 2006
Er einhver fullkominn ?
Fullkomnunarárátta er streituvaldur. Gerðu mistök til þess einsa að sýna fram á að ekkert slæmt eigi eftir að gerast ef þú klikkar. Brenndu matinn, draslaðu út og klúðraðu samtölum. Himnarnir hrynja ekki. Hvílíkt frelsi.
Þetta sagði stjörnuspáin mín einn daginn þegar ég kom heim og taugarnar mínar gjörsamlega að gefa sig vegna þess að ég fékk út úr stærðfræðiprófinu(æfingastúdentsprófinu) og ég fékk 8,8 var að sjálfsögðu ekkert annað en sátt með það þangað til ég kemst að því að Paula fékk 9,8 ! Ég náttúrulega verulega pirraði mig yfir þessu og skil ekki afhverju hún þarf alltaf að vera með betri einkunnir en ég í skólanum þar sem að auki þá lærir hún ekki meira en ég ef eitthvað er þá lærir hún mun minna en ég.
Þennan sama dag var það ég sem átti að elda matinn í hádeginu, ég virkilega hugsaði um að brenna matinn en ég gerði það ekki vegna þess að ég vil reyna að gera allt FULLKOMIÐ. Það er bara ekki hægt. Ég geri eins vel og ég get. Ég get ekki krafist meira af mér. Hinsvegar komst ég einnig að því að ég get notað árið í að æfa mig að verða besta dóttir í heimi þegar ég kem heim til mömmu og pabba. Það ætti ekki að vera of erfitt þar sem ég er sú eina.
Ég hugsa að ég og Paula séum hvor annarri jafn erfiðar. Hún þolir ekki að ég skuli geta eldað, farið að hjóla með Claire og Claude, sungið, æft íþróttir o.s.frv. Einnig fer það innilega í taugarnar á henni að ég skuli tala jafn vel og hún eins og staðan er í dag. Svona er að eiga "systur" - endalaus samanburður. Hann getur bæði hjálpað manni en á sama tíma verið manni ansi óhagstæður.
Kom ég ykkur ekki á óvart ? Það er ekki sunnudagur í dag ! Ég ákvað að vera ekki of fyrirsjáanleg í þessum bloggbransa. Ég var orðin leið á sunnudagsblogginu ásamt fleirum. Það bárust fyrirspurnir um að breyta aðeins til.
Annars bíð ég spennt eftir helginni þar sem við munum vera í Nancy að sjá jólasveininn ! Aldeilis flottheit á AFS. En þetta er ekki kaldhæðni - þetta er svona hefð hérna og heitir jólasveinninn St. Nicolas og ég segi satt að ég hlakka til - þar sem þetta er hluti af því að kynnast öðruvísi menningu. Hérna fæ ég sko ekkert í skóinn, engir 13 jólasveinar. Bara þessi eini sem ég held að gefi nammi.
Vous me manquez trop ! J'éspere que je vous manque aussi, et en fait je suis sure. Bisou
Aucha
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)