Ítalía

Mér bauðst það svona upp úr þurru að fara með fótboltanum til Ítalíu.  Ég gerði allar ráðstafanir sem til þurfti og skellti mér til Ítalíu á föstudaginn og kom aftur heim í nótt.  Við gerðum svo ótrúlega mikið að mér finnst eins og ég hafi verið í a.m.k viku.  Ferðin byrjaði ansi skemmtilega en við lentum semsagt í því að minirútan sem við fórum með bilaði þegar eftir voru eins og hálfs klst akstur.  Við eyddum semsagt einum degi á bílaverkstæði í Sviss !  Komið var á áfangastað um 7 leytið á laugardagskvöldinu.  Á sunnudeginum var farið til Feneyja og það var alveg magnað að sjá sjóinn þarna inn á milli húsanna og fólkið ferðast á gandólum á milli.  Þar fannst mér hinsvegar aðeins of mikið af fólki (túristum) og ég gæti engan veginn ímyndað mér að búa þar.  Næsta og síðasta daginn fórum við til Mílanó og var það svona túristaheimsókn, þar sem þeir sem á því höfðu áhuga fóru að versla en aðrir skoðuðu dómkirkjuna og sátu á kaffihúsi og drukku góðan ítalskan expresso.  Veðrið lék nú ekki við okkur allan tímann, við fengum nokkra sólargeisla en rigningin var ansi frek.  Þegar keyrt er í 12 tíma er hinsvegar ekki slæmt að sólin sýni sig ekki neitt of mikið.  Við áttum að koma heim kl 11 í gær en vorum svo heppin að lenda í smá umferðarteppu að ég steig út úr bílnum kl 3 í nótt.   Að ítölskum sið voru máltíðirnar byggðar upp á pizzum og pasta en því miður rann enginn ís niður í magann, sökum sólarleysis og kulda.  Ég átti mjög góða helgi en nú tekur alvaran við í eina og hálfa viku. 

Ég tók eftir einu ansi skemmtilegu.  Í Feneyjum sá ég fullt af fólki frá Brasilíu og það gat maður séð vegna þess að þau voru í peysum merktar Brasilíu eða með fánann vafinn utan um sig.  Hver veit nema að ég hafi séð jafn marga Íslendinga, Dani, Englendinga o.s.frv.  Þeir eru alveg ótrúlegir þessir brassar og alveg ótrúlega stoltir af að vera brassar.  

Annars þá er ég búin að setja inn myndir frá Ítalíuferðinni, njótið.   

 


Tónleikar...

Mér barst sú fyrirspurn hvort ég vildi ekki halda tónleika fyrir fósturpabba minn vegna þess að hann var svo svekktur yfir að hafa ekki geta komist að horfa á mig syngja á tónleikunum.  Ég svaraði játandi án þess að hugsa mig tvisvar um.  Bjóst við því að einn daginn myndi hann biðja mig að syngja fyrir sig, en dæmið var nú aðeins stærra.  Þetta er sko alvöru hérna.  Hann bauð meira og minna allri fjölskyldunni á laugardagskvöldið á tónleika Ásbjargar.  Ég þurfti að sjálfsögðu að gera eitthvað almennilegt.  Ég fékk þá bekkjarbróðir minn til að spila með mér og tókum við 3 lög.  Allir voru ánægðir með kvöldið sem endaði að sjálfsögðu á franska vísu - BORÐA.  Það besta var að ég naut þess í botn !  Um leið og ég er ánægð held ég að það sé mun auðveldara að láta aðra vera ánægða.  

Mig langaði bara að segja ykkur frá þessum skemmtilega atburði þar sem ég hugsa að þetta komi ykkur jafn mikið á óvart og það kom mér á óvart.  

Annars megið þið alveg vorkenna mér smá vegna þess að ég er í prófum og ég held að flestir ef ekki allir séu búnir í prófum.  Og verra er að veðrið er rosalega gott og get ég því ekki nýtt það. 


Fiðrildin taka flug

Maímánuður er mánuður sólarinnar, fuglasöngs, blás himins, gleðinnar sjálfrar og þar með tími til að láta glitta í tennurnar og brosa hlýtt til næstu manneskju.  En hvað gera menn þegar himnarnir búa sig hægt og hljótt undir það að hrynja yfir okkur.  Skýin hrannast upp, sólin felur sig, fuglarnir þegja um stund og það versta er að brosin hverfa af andlitum fólks.  Er þá ekki einmitt tíminn til að brosa ?  Eitt er víst að þegar himnarnir ákveða skyndilega að hrynja þurfum við meira á litlu brosi að halda.  Það getur gert gæfumuninn. 
    Nú þegar líða fer að brottför er minnst á það á hverjum einasta degi.  Ég er minnt á það daglega að ég eigi bara tvo mánuði eftir og að áður en ég fer verð ég að gera hitt og gera þetta.  Dagur brottfarar birtist í myndum í huga mér og lítil fiðrildi fljúga um í maganum.  Þessa 59 daga vil ég heldur nota vængi fiðrildanna til þess að fljúga um á litlu bleiku skýi með stjörnur í augunum og að sjálfsögðu með bros á vör.
    Sama hvort þú lifir fyrir sjálfa þig eða fyrir aðra, brostu.  Þér mun líða betur og einnig hinum.  Njóttu þess að gefa og vonastu til að geta þegið. 

=  líðan mín. 



Hrædd við tómleikann

Dvöl mín í útlandinu hefur varpað ljósi á sannleikann.  Ég áttaði mig á því að ég er hrædd við tómleikann.  Heima tókst mér ekki að sjá það sökum fullbókaðra daga af hinum ýmsu áhugamálum.  Hérna hef ég betur áttað mig á því hvað ég vil gera, ég hef sleppt höndum af hinu og þessu og þar með leyft að skína í tómleikann.  Þar fann ég þörfina fyrir að fylla sjálf upp í tómleikann, hlaða dagana upp til að lenda ekki í þeirri stöðu að hafa ekkert að gera.  Ég hef tekið mikilvægar ákvarðanir sem hafa leitt mig áfram og leitt mig út á ystu brún.  Nú hef ég tekið stóra stökkið, tekið stóra skrefið.  Ég, Ásbjörg Jónsdóttir var stolt af sjálfri mér og ánægð með hlutina sem ég hef gert.  Lífið er einungis keppni við sjálfa sig en ekki hina.  Þegar mér fer fram borið saman við sjálfa mig, verður hver sigurinn sætari.  18 ár liðin, það var nú kominn tími til.  Þessi 18 ár hef ég verið að undirbúa mig undir þetta stóra skref.  Margur hefur reynt að fá mig til að taka það en ég var hrædd og ef til vill ekki tilbúin.  Ég þurfti að reka mig á þetta sjálf og hafa allan styrk og vilja til þess.  Núna er rétti tíminn.  



Sólarkveðjur alla leið til ykkar !

Ég held áfram að gylla á mér bringuna þó svo skólinn taki víst sitt pláss líka.  Núna er Paula komin til Spánar en hún fór þangað í gær með skólanum og mun dvelja eina viku.  Heimilið er tómlegt án hennar en ég geri mitt besta í að reyna að fylla upp hennar pláss, það mun hins vegar reynast erfitt þar sem hún tekur mikið pláss ! 

Þessa dagana líður mér vel og vill þá þannig til að ég nenni ekki að gera neitt, ég er löt.  Þannig er nefnilega mál með vexti að þegar mér líður vel þarf ég ekki að fylla dagana og hausinn af hlutum að hugsa um því engar vondar hugsanir komast að.  Að einhverju leyti get ég komist að því að það sé betra að mér líði ekki neitt rosalega vel.  Þá hef ég nefnilega eins og ég segi þörf fyrir því að fylla hausinn af alls konar hlutum, það gæti átt við ; læra, spila á píanóið, syngja, lesa o.s.frv... Þessir hlutir láta mér þá líða betur þó ekki jafn vel og mér líður í dag...  Hvort er eigilega betra þá ?  Á ég að vera í vondu skapi eða góðu skapi ?  Ég komst að því að ég ætla að vera í góðu skapi og pína mig til að gera þessa hluti því einu sinni þegar maður er byrjaður þá er maður kannski ekki alveg jafn latur.  En eitt er víst að maður á sína slæmu daga eins og maður á sína góðu daga, og gott jafnvægi á milli þeirra held ég sé bara best.  Þá gæti ég bara sagt :  "Mér finnst bæði betra..." Til að sjá að góðu dagarnir séu góðir þarf maður á þeim slæmu að halda og svo framvegis... 

Má ég til að trúa því að á ég er búin að vera hérna í 8 mánuði ?  2 og 1/2 og ég er komin !  Nú fer lífið að vandast, ætli mig langi nokkuð að koma heim.  Ég fæ kossa á báðar kinnar alla daga frá a.m.k. 10 manneskjum, sólin mun kitla nefið alla daga hér eftir, ég sit á kaffihúsi með kaffibolla (í sólinni), ég kem heim í hádeginu í a.m.k. 2 klst til að borða heitan mat, ég á besta söngkennara í heimi, ég á systur (það jafnast þó ekki á við tvo íslenska bræður)... Ég geri listann ekki lengri að þessu sinni.  Hvað get ég eigilega beðið um meira ?  Ykkur ! (þ.e.a.s. þið sem lesið þetta blogg og einungis ef ykkur hlakkar til að ég komi heim)  Ég get alltaf reynt mitt besta, flytja ykkur inn til Frakklands eða jafnvel flytja alla góðu hlutina til Íslands ?  

Ég sendi ykkur hlýjar sólarkveðjur með tilheyrandi kossum og knúsum !


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband