Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 1. desember 2008
Hvað leynist á huldu hliðum teningsins ?
Stundum finnst mér heppnin, gleðin og hamingjan elta mig á röndum og þá sérstaklega þegar mér finnst ég ekkert endilega eiga það skilið. Stundum skil ég ekki hvað ég hef gert til að verðskulda allt sem mér er fært. Ég viðurkenni meira að segja að ég skammast mín stundum fyrir það að hafa það svona gott. Þegar svona stendur á þá bíð ég nánast eftir því að sjá þær hliðar teningsins sem eru mér huldar. Ég bíð jafnvel eftir því að renna á rassgatið og hugsa - það hlaut að koma að því, þetta gat ekki verið svona gott. Ég hugsa oft með mér að ég geti ekki tekið við öllum þessum "gjöfum" þar sem ég hef ekkert að gefa og hef ekkert gefið. Því sælla er víst að gefa en þiggja. Kannski gef ég eitthvað af mér ómeðvitað og er þar með að fá "borgað" til baka. Því maður uppsker víst því sem maður sáði. Við hljótum að hafa eitthvað með gleði okkar að gera - það getur ekki bara verið "ugla sat á kvisti..." hverjir fá útdeilt gleði heimsins. Upp að vissu marki eru aðstæður okkar það góðar að leiðin að gleðinni er ef til vill styttri og léttari fyrir okkur en aðra. Á móti hljóta svo að koma þau spil sem við leggjum til borðs - það sem við leggjum á okkur. Ég rakst á þessa tilvitnun um daginn og fannst hún ansi greinagóð.
"Allur aldur ber sína ávexti, það þarf bara að kunna að tína þá." - [Raymond Radiguet]
Við þetta vil ég bæta að eins og allur aldur ber sína ávexti þá ber hver maður sína ávexti. Það sem reynist okkur það erfiðasta er að finna leiðir til að tína þá, það er ekki mikið mál að segja það en málin flækjast í framkvæmd. Það er ekki öllum fært að finna góð vinnubrögð, sumir velja alltaf súru ávextina og læra aldrei hvernig eigi að þekkja þá góðu. Þeir renna á rassgatið hvað eftir annað og standa upp sífellt veikari.
"Það er til nokkuð sem er sjaldgæfara en hæfileikar. Það er hæfileikinn til að koma auga á hæfileika." - [Robert Half]
Ég bið ykkur því vinir mínir ungir sem aldnir að halda áfram að tína ávexti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 20. nóvember 2008
Hjartað þitt kom við hjartað mitt og ég varð fangi ástar og vináttu
"Tengsl okkar við aðra manneskju eiga ekki einungis að byggjast á augnsambani og líkamstengslum heldur líka dýpri tengslum þar sem hjarta mætir hjarta." - Pierre Teilhard de Chardin
Að falla í gryfju ástarinnar byggist að mestu leyti á sömu grundvallaratriðum og að falla í gryfju vináttunnar. Fallið í gryfju ástar kallast víst í daglegu tali að verða ástfanginn, eða jafnvel ást við fyrstu sýn. Getum við þá á sama hátt kallað það að verða vináttufanginn eða vinátta við fyrstu sýn ? Það er alla vega ekki eitthvað sem maður heyrir á hverjum degi - það er samt ekki svo vitlaus pæling. Ástfanginn - hvað felst í þessu orði ? Maður er fangaður af ást og ætti þá undir öllum kringumstæðum einnig að geta verið fangaður af vináttu. Ást og vinátta eru frekar óljós fyrirbæri og eru alls ekki auðskýranleg. Hver og einn túlkar þau á sinn hátt. Þrátt fyrir þennan óljósa hluta þessara fyrirbæra þá getum við eflaust talið upp nokkur atriði sem setja grunninn í báðum tilvikum. Sökkullinn er byggður úr sterku efni - nokkrum mikilvægum athöfnum. Það er að elska, treysta, trúa fyrir, sýna skilning, gefa af sér og þiggja það sem hinn gefur. Þetta eru athafnir sem svona svart á hvítu virðast mjög einfaldar - en þegar á hólminn er komið, vill annað koma í ljós.
Ást við fyrstu sín, falla fyrir einhverjum, verða ástfanginn - þetta eru allt athafnir sem eiga sér dularfull orsök. Það er eitthvað sem veldur því að maður dregst að, laðast að persónunni - án þess að vita hvað það er. Það sem er svona dularfullt við þetta er að maður getur laðast að einhverjum án þess að vita eitthvað um manneskjuna. Það er eins og hjarta hennar kalli á þitt og við í huganum höfum ekkert með þetta að gera - algjörlega óháð okkar meðvitund. Þetta þarf ekki endilega að eiga við um ást - heldur getur þetta jafnvel gerst á sviði vináttunnar. Maður getur aftur á móti auðveldlega látið gabba sig í þessum efnum. Ef við vitum eitt lítið atriði um manneskjuna - þá getur þetta litla atriði heillað okkur upp úr skónum. Í þessu tilviki kemur meðvitund okkar við sögu og platar litla hjartað okkar - það fær ekki að vinna í friði. Þetta litla atriði sem laðaði okkur að sér og hafði eitthvað við sig sem heillaði okkur lætur okkur fá væntingar um fleiri atriði með sama aðdráttarafl. Við vonumst hreinlega til þess að manneskjan sé byggð úr fullt af svipuðum atriðum sem heilla okkur öll. Við berum væntingar til þess að manneskjan sé á einn eða annan hátt og verðum því fyrir vonbrigðum þegar annað kemur á daginn. Það sem er því athyglisvert við þessa aðlöðun sem til verður án okkar meðvitundar er það að við berum engar væntingar. Við búumst ekki við neinu af henni - því við finnum bara að "sálin" eða "hjarta" hennar dregur okkur að sér. Þá komum við til móts við manneskjuna laus við allar væntingar - tilbúin að framkvæma allar þær athafnir sem vinátta eða ást byggist á. Við tökum manneskjunni eins og hún er - við elskum hana þrátt fyrir alla gallana, þeir eru heillandi á einhvern hátt líka. Það er hreint ekki auðvelt að gera greinarmun á þessu tvennu og þegar tilfinningarnar tala þá segja þær alltaf það sama - fiðrildin kitla okkur í maganum. Það þarf því að kafa mjög djúpt inn í sálina til að komast að uppruna fiðrildanna. Uppruninn er sjaldan merktur stórum stöfum...Þegar komið er yfir þennan fyrsta þröskuld þá er langt ferðalag framundan sem felst í því að læra að elska, viðhalda ástinni, vináttunni, svo hún brenni ekki út. Í það ferðalag tel ég mig ekki fær um að vísa ykkur veginn svo ég læt skilið við ykkur hérna. Eitt er ég alla vega sannfærð um og það er að maður getur jafn vel orðið vináttufanginn eins og ástfanginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 14. nóvember 2008
Næsta stoppustöð - Paradísarvegur

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 6. nóvember 2008
Eins og lítið blóm sem lítur til himins

Bjarki Snær flutti mér þær fréttir að hann hefði verið valinn í handboltalandsliðið undir 15 ára. Hann var að sjálfsögðu mjög stoltur en á sama tíma mjög hissa - hann er ekki einn af þeim sem veit af hæfileikum sínum og montar sig því ekki af þeim. Fyrsta æfingin hjá honum var mjög erfið - hann var eflaust stressaður og var að reyna að gera meira en hann gat. Hann áttaði sig fljótt á því og sagði mér að næst þá ætlaði hann bara að vera hann sjálfur! Það gekk vonandi betur - það er nefnilega svo erfitt að reyna að vera einhver annar en maður er og gera meira en maður er fær um. Það var því litli bróðir minn sem veitti mér innblástur til skrifa þessa. Það var líka hann sem sagði mér fyrir nokkrum árum að í raun og veru þá er lífið bara yndislegt. Ég endurtek þessi orð stolt, ánægð og hendi í leiðinni þungu fargi af sjálfri mér. Lífið er yndislegt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 30. október 2008
Óskasteinar
"Fann ég á fjalli fallega steina.
Faldi þá alla, vildi þeim leyna.
Huldi þar í hellisskúta
heillasteina,
Alla mína unaðslegu óskasteina."
Einhverra hluta vegna kom þetta lag upp í hendurnar á mér síðustu daga. Ég man að ég söng þetta þegar ég var lítil og var þetta eitt af mínum uppáhalds lögum. Ég fékk svo staðfestingu á því og mamma sagði: "Já þegar þú varst ekki nema þriggja ára þá söngstu þetta lag daginn út og daginn inn". Kannski langaði mig til að vera sá sem týndi þessa steina, sá draumur rættist! Ég gerðist steinasafnari - það var starfsheiti mitt á mínum yngri árum. Þessa vikuna hefur eitthvað atvik, umræðuefni og/eða minning komið upp á hverjum degi sem tengist steinum á einn eða annan hátt. Fyrir manneskju sem ekki trúir á tilviljanir er þetta aðalumhugsunarefni, jafnvel áhyggjuefni. Hvað er verið að reyna að segja mér, benda mér á ? Ég pæli fram og til baka, hvað getur steinn táknað ? Ég reyni svo að svara sjálfri mér með því að segja að það þýði ekkert að leita of mikið því þá finnur maður ekki neitt. Ég verð bara að halda áfram að ganga og það hlýtur einn eða annan daginn að verða á vegi mínum, það getur verið eftir 10 ár en ef heppnin er með mér þá rekst ég á það á morgun. Ég er að sjálfsögðu búin að túlka þetta á ýmsa vegu en ég vil meina að þar sé ímyndunaraflið að ráða ferðinni. Ein túlkunin var á þennan veginn: Ég er víst stödd hérna meðal annars til að komast að því sem ég ætla að gera í framhaldinu. Ég er ekki búin að taka ákvörðun um það ennþá og veit ekki hvort ég verði búin að því þegar ég kem heim. Þá finnst mér eins og þessi steinasaga sé að minna mig á að ég er bara hérna til að safna að mér steinum. Þegar heim verður komið get ég svo valið þann besta úr. Með öðrum orðum er ég að sanka að mér upplýsingum og kemst eflaust að einhverjum hlutum, loka jafnvel fyrir einhverjar leiðir en ég vel ekki og vinn ekki úr þessum upplýsingum fyrr en ég kem heim. Tíminn leiðir víst allt í ljós.
Þessa vikuna og þá næstu er frí í tónlistarskólanum og Claire er líka í fríi. Stundaskráin mín hefur því verið örlítið frábrugðin því sem vanalegt er. Ég er m.a. búin að gera sultu með Claire, kaupa gleraugu þar sem hún týndi sínum í íslenskri jökulá og svo skelltum við okkur til Þýskalands yfir helgina. Ég var ofboðslega heppin og fékk hvorki meira né minna en lyklana af tónlistarskólanum mínum meðan á vetrarfríinu stendur. Ég get því farið og spilað þar á rosalega góð píanó hvenær sem er, þvílíkt lúxuslíf! Mér finnst nefnilega voðalega gott að skipta um umhverfi svona af og til, því ef ég er heima allan daginn, hvað þá í sama herberginu þá finnst mér eins og ég hafi ekki gert neitt yfir daginn. Dagarnir mínir líða því á ógnarhraða með píanótónum, ljúfum söngtónum, lestri, púli og svefni. Hér er komin mandarínutíð og jólabæklingaflóð svo ég get ekki komist hjá því að fara að hlakka til heimkomu og jólanna.
Lítil saga til að deila með ykkur svona undir lokin. Ég komst að því í gær að ég er orðinn algjör frakki í mér. Ég var að hjóla heim úr tónlistarskólanum og ákvað þegar ég stoppaði á ljósum að snýta mér í staðinn fyrir að sjúga upp í nefið. Mér fannst þetta svolítið skondið atvik því ég er alveg viss um að heima hefði ég ekki hugsað mig tvisvar um áður en ég einfaldlega sýg upp í nefið. Núna hugsa ég mig tvisvar um og ákveð að snýta mér frekar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 21. október 2008
Nóg af spurningum en eitthvað minna af svörum
Ýmis atvik hafa sett spurningamerki upp í huga mínum ? Það olli eftirfarandi hugleiðingum: Þegar maður var lítill lærði maður heilmikið á því að herma eftir þeim sem eldri voru og maður sóttist alltaf eftir því að gleðja eða þóknast öðrum. Síðast en ekki síst sóttist maður eftir því að vera viðurkenndur, fá hrós fyrir það sem maður gerði vel. Svo líður tíminn, við hættum að herma og sækjumst eftir að vera við sjálf en ekki spegilmynd einhvers sem við lítum upp til. Ég velti því fyrir mér hvort við séum samt ekki öll áfram í því fari að vilja fá hrós fyrir það sem við gerum, við sækjumst eftir því að vera viðurkennd, finna að við skiptum máli. Þó svo ég fari mínar eigin leiðir, geri það sem mig langar til og pæli oftast ekki mikið í því hvað öðrum finnst um það þá hef ég samt tilhneigingu til að gera ýmsa hluti einungis til að þóknast einhverjum, gleðja einhvern, stundum líka bara til að tekið sé eftir mér og til þess að fá hrós. Ég myndi ekki ákveða að verða verkfræðingur til að þóknast pabba mínum eða félagsráðgjafi til að gleðja mömmu mína. Síður en svo, ég ætla að gera það sem mig langar til að gera og ég veit líka að það mun gleðja þau bæði mest. Ég er samt sem áður alveg vís til þess að fara í spinning og gjörsamlega fara út fyrir öll takmörk, fara yfir línuna bara til þess að kennarinn hrósi mér. Þetta á annars við margt sem ég geri og getur orðið ansi flókið því til að halda áfram að fá hrós þá þarf ég að gera betur heldur en síðast. Til viðbótar kemur að ég á erfitt með að taka gangrýni og forðast því eins og heitan eldinn að gera mistök eða gera ekki vel. Ég á erfitt með að átta mig á því hvort þetta sé vegna þess að svona er minn persónuleiki og mun alltaf verða eða hvort þetta séu "leifar" barnslegrar hegðunar, það er að þóknast einhverjum eða fá viðurkenningu. Enn og aftur koma upp spurningar: Á maður að taka þátt í keppni til að vinna hana eða bara til að vera með ? Á maður ekki alltaf að gera að minnsta kosti sitt besta ? Kannski er þetta bara hluti af mér sem enn er óþroskaður þrátt fyrir að maður telji sig vera orðinn fullorðinn og búinn að þroskast á öllum sviðum. Það er líka nokkuð ljóst að það er ekkert grín að þroskast og stækka, maður þjáist á báðum leiðum af "vaxtaverkjum". Vaxtaverkir þess að þroskast í huga og hjarta eru faldir í togstreitu þess gamla og nýja, við viljum ekkert verða "stór", við viljum bara halda áfram að vera barn. Þetta er eins og að missa tönn, barnatönnin þarf að fara til að fullorðinstönnin hafi pláss. Barnatönnin dettur, það er ekkert voðalega þægilegt, stundum þarf að juðast í henni þar til hún loksins er tilbúin að fara. Þá setjum við hana undir koddann og tannálfurinn kemur okkur á óvart, við setjum barnslegu hegðunina reyndar ekki undir koddann en hún fer allavega burt, þá er pláss fyrir fullorðinshegðunina. Stundum gerist það svo að fullorðinstönnin kemur áður en barnatönnin er farin og þá berjast þær um plássið og það er líklegast ekkert svo þægilegt heldur. Þá er fyrirlestri mínum um persónuleika minn (tanngarðinn) lokið og ég vona þið hafið notið vel. Takk fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 20. október 2008
"Ég sé lífsins tré...og ég hugsa með mér, þetta er yndislegt líf."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 14. október 2008
Þoka framundan en sól í hjarta í þessum óbærilega léttleika tilverunnar
Allt þetta brask, þessi ólgandi sjór, þessi áföll, þessar hörmungar sem eiga sér stað um þessar mundir í landinu okkar bæta bara rigningu og leiðinda veðri við þokuna framundan. Alls ekki síst á tímum sem þessum þarf maður innilega á að halda að hafa sól í hjarta, bros á vör (þó það reynist þungt að skella upp á andlitið), gott fólk í kringum sig, ást og umhyggju, frelsi til að tala og tjá tilfinningar sínar og gott eyra sem hlustar. Nú er um að gera að láta allt hið jákvæða sem á sér stað verða mun umfangsmeira heldur en hið slæma og nýta sér það til þess að komast áfram, þó svo allt virðist standa í stað. Þrátt fyrir þennan ólgusjó í tilfinningum sem og umhverfi mínu/okkar breytir það því ekki að nú eru um 60 km hjólaðir, nokkur hundruð skref tekin, einhver tár runnin niður kinnarnar, 50 bls lesnar, einhverjir peningar foknir, nokkrar máltíðir borðaðar, einhverjum kaloríum brennt, nokkur fiðrildi flogin um magann, hitt og þetta flogið gegnum hugann, margar samræður hafa átt sér stað, margt fólk hitt fyrir, blóðið í æðum mínum hefur farið allmarga hringi, góðar og slæmar tilfinningar hafa farið um líkama minn og ég held áfram að reyna að finna leiðir til að njóta lífsins. Ef ég tek allt þetta saman og velti fyrir mér aðstæðum get ég verið viss um það að ég hlýt að vera komin vel á veg þó svo ég sjái ekki nákvæmlega hvar ég er stödd í þessum óbærilega léttleika tilverunnar. Ef allt þetta hefur gerst síðan ég bloggaði síðast þá get ég verið sannfærð um það að ég silast áfram og mun eflaust halda áfram að gera það sama hvar í tilfinningarússíbananum ég er stödd. Nú er bara spurning um að nýta þennan tíma vel sem hefur sinn vanagang og líður og líður, ekki leyfa honum bara að líða án þess að nota hann. Hann hlýtur að vera okkur gefinn til að nota hann og því ætla ég að gera það eftir bestu getu.
Nú sit ég á litlu krúttlegu kaffihúsi eins og ég var búin að gera ykkur vart við að myndi koma til. Ég held eg hafi fengið einn besta expressobollann minn í þessu ferðalagi, nema ég sé nú svo uppfull af jákvæðu viðhorfi eftir þetta skrifaða blogg að allt virðist gott, jafnvel vondur expresso hver veit ? Ekki spillir það fyrir að ég held ég sé búin að fá svona 10 bros síðan ég settist hérna niður, ég brosi að sjálfsögðu á móti og nú held ég það fari bara alveg að límast á andlitið mitt og dugi þar til ég sofna í kvöld. Ég hlýt svo að finna ástæðu eða innri gleði til að skella upp nýju í fyrramálið. Annars er dagurinn á morgun alveg troðfullur og nóg um að vera sem gæfi mér ástæðu til að halda áfram að brosa framan í heiminn. Meðal annars er ég að fara að kenna tveimur krökkum ensku og hef þar með efni á hinum yndislega kaffibolla sem var að renna ofan í maga.
Mér finnst orðið aðeins léttara yfir, ég sé nú þegar fram á annað kvöld... það er að segja ég er þegar með plan þangað til þá. Ég byrja allavega á því að stíga léttum skrefum út af kaffihúsinu sem voru mun þyngri er ég steig inn, ég verð einni og hálfri evru fátækari, einum kaffibolla ríkari, 2 klst fátækari og síðast en ekki síst einu stóru brosi ríkari!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 6. október 2008
"En stóll er steig ég stóð tæpt svo hann valt."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 29. september 2008
Ferðalagið heldur áfram
Annars svona til að fræða ykkur um umhverfið hérna og hluti sem tengjast ekki huga mínum á einhvern hátt. Um helgina fékk ég heimsókn frá nokkrum sýklum og er því ekkert allt of hress líkamlega og sef ekki vel á nóttinni, fyrir þá sem þekkja mig þá ættu þeir að vita að það þarf heldur mikið til þess að ég sofi illa. Ég ræðst á þessa sýkla eins og hverja aðra neikvæða hlið í lífinu, með ýmsum ráðum að vopni, te, hálstöflur, hómópata pillur undir tunguna, verkjatöflur o.s.frv. Þeir ættu því brátt að víkja og láta líkama minn eins og sál vera hressan.
Hér er ekta haustveður, kalt á morgnana, sól á daginn en einnig kalt, laufin eru farin að roðna og falla hvert af öðru til jarðar. Við sleppum hins vegar alveg við rigningu og rok svo ég kvarta ekki. Helgin var heldur betur eftirminnileg, ég fór í 3 klst mótorhjólatúr með bróður mínum, dansaði svo með trjánum eins og þeir kalla það hérna, það er að segja ég fór í svona ævintýragarð þar sem maður klifrar í trjánum með svona belti og keðju eins og þegar maður klifrar. Einnig átti ég mjög góða máltíð, ekta franska á veitingastaðnum sem ég vann á, sú máltíð entist heilt kvöld yfir ljúfum tónum kúbverska söngkennarans sem spilaði life tónlist þetta kvöld. Ég held nú af stað inn í nýja og ferska viku með fullt af farangri, það er að segja fullbókaða en rólega samt sem áður. Þetta er yndislegt líf!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)