Færsluflokkur: Bloggar

Frelsi ?

Líðandi helgi velti upp ýmsum hugsunum.  Það var semsagt AFS helgi, þar sem hver og einn var tekinn og spurður spjörunum úr til að kanna hvort allt gangi ekki vel.  Orðið beindist að því að hafa frelsi eða ekki...  Ég og Paula teljum okkur til dæmis hafa frekar mikið frelsi og er það þá dæmt í því hvort við megum fara út á kvöldin og þess háttar.  Svo voru sumir sem fá jafnvel aldrei að fara neitt út og þar af leiðandi ekki með þetta svokallaða frelsi.  Þá í allt öðru samhengi var ég svona að velta fyrir mér hvað frelsi væri í raun og veru.  Er frelsið þegar þú hefur um endalausa möguleika að velja eða þegar þú hefur valið einn möguleikanna ?  Flestir myndu svara því að það væri þegar þú hefur alla möguleikana en er ekki meira frelsi í því að þurfa ekki að vera í þeirri stöðu að vita ekki hvað eigi að velja heldur vera viss um hvað þú vilt  ? þetta er spurning ?  

Skellum okkur þá í aðra og skemmtilegri sálma.  Hún Paula hefur þann skemmtilega eiginleika að vera alveg einstaklega óheppin.  Henni tekst að skemma alla mögulega hluti heimilisins, týna öllu og svoleiðis mætti áfram halda.  Henni tókst meira að segja næstum því að kveikja í húsinu.  Þegar ég kom heim úr ræktinni einn daginn ákváðum við í flýti að fara að sjá einhverja danssýningu það sama kvöld.  Ég hendi mér þar af leiðandi í sturtu og hún tekur að sér að elda matinn á meðan.  Ég er þarna í rólegheitum mínum í sturtunni þegar rafmagnið fer skyndilega af og heyri ég ekki Paulu öskra og æpa á Claude og hlaupa um allt.  Ég skil náttúrulega ekkert í þessum kjána, hvað hún er að kippa sér upp við það að rafmagnið fari af í smá stund og Claude greinilega hugsaði það sama þar sem hann brást varla við öskrum hennar og æpum.  Það næsta sem ég sé út um gluggann er bara eldur... þegar ég svo kem úr sturtunni fæ ég skýringar á öllum látunum.  Þá hafði hún semsagt kveikt í djúpsteikingarpottinum sem var ofan á eldavélinni og svo óheppilega vildi til að hún hafði kveikt á vitlausri hellu og þar af leiðandi kviknaði í...  Claude reddaði svo málunum með því að henda vélinni út um gluggann.  

Svo bara minna ykkur á að það skiptir öllu máli að vera jákvæður, það breytir öllu.  Maður getur engu tapað á því að vera jákvæður en með neikvæðni þá tapar maður öllu.  Finnst ekki öllum best að vinna og verst að tapa.  Einfalt þetta líf !  Spurning um bjartsýni og jákvæðni, velja það góða eða vonda.   


Gamlar hliðar skjótast upp

Allt er svo eymdarlegt án þín hér, án þín ei sólin lengur skín hér... og ÞÚ eruð þið sem saknið mín.  Og satt er það að sólin ei lengur skín hér heldur ákvað einhver þarna uppi að henda litlum hvítum kúlum á okkur í dag.  Skrapp sólin kannski í heimsókn til ykkar í dag ?  Vilduð þið kannski vera svo væn að skila henni aftur á morgun. 

Um helgina sýndi ég víst á mér hliðar sem hefðu betur mátt sleppa að sjást.  Ég kom heim uppgefin eftir frábæra afmælishelgi hjá Örnu Láru og beið mín ekki svo innilega skemmtilegur heimalærdómur í sögu.  Þráðurinn var því ansi stuttur hjá mér og bræddi fljótt upp í minni þegar ekki tókst eins vel til og hefði viljað.  Ég sýndi semsagt á mér freku, dramatísku, barnalegu, pirruðu, þrjósku hliðina sem ég hélt að ég hefði skilið eftir heima en hún var einhverstaðar þarna falin og fékk aðeins að sýna sig.  En það var ekki slæmt þar sem við gátum vel skemmt okkur eftir á og hlógum dátt af hegðun minni.  Og þar með sannaðist að það er víst oft ansi stutt á milli hláturs og gráturs, gleði og sorgar.   

Svo hef ég sett myndir frá afmælinu inn á myndasíðuna.  Myndirnar held ég að tali sínu máli. 


Sól, sól skín á mig. Ský, ský burt með þig.

Það er alveg ótrúlegt hvað veðrið getur haft mikil áhrif á skapið í manni.  Að vakna með sólskini og 10-15 stiga hita er alveg ómetanlegt.  Þetta gula fyrirbæri sem við sjáum stundum hátt á himnum á mikinn þátt í að gera lífið ennþá yndislegra en það er og ylja manni um hjartarætur.  Rigningin dregur hins vegar úr manni allan kjark og löngun til að "vera", allir fela sig undir reglhlífunum sínum sem þeir draga upp úr töskum og vösum um leið og einn dropi fellur, hlaupa um göturnar og gefa sér ekki tíma til að gefa næsta manni eitt lítið bros.  Dagurinn í dag er hins vegar dagur til að brosa. 

Í nótt dreymdi mig að ég væri á Íslandi og skemmti ég mér við það að synda í kalda sjónum þar, svo heppilega vildi til að ég var í öllum fötunum og að auki með skólatöskuna og íþróttatöskuna.  Þegar ég hafði lokið sundspretti mínum uppgötvaði ég að skóla- og íþróttataskan voru ekki lengur á sínum stað.  Ég var að sjálfsögðu ekki sátt með það en í því vaknaði ég...  Svo datt mér í hug ansi skemmtileg túlkun á draum þessum.  Kannski er þetta merki um að ég eigi aðeins að taka því rólega í rætkinni og skólanum, það er að segja vera ekki að leyfa þessum hlutum að valda mér áhyggjum.  Því eins og er, eiga þessir tveir hlutir hug minn allann.  En þó tel ég ekki skrýtið að mig hafi dreymt þetta þar sem öllum í kringum mig þykir ég fara of oft í ræktina og taki skólanum of alvarlega. 

Nú finnst mér tíminn líða of hratt og ég hef varla tíma til að stoppa og líta á kringum mig.  Ég hef það á tilfinningunni að hann hlaupi á ógnarhraða eða eins og skrattinn sé á eftir honum.  En hvorugt af þessu getur reynst rétt, heldur hlýtur bara að vera svona ofboðslega gaman hjá mér að ég hef þessa óþægilegu tilfinningu. 


Draumur eða veruleiki ?

Nýklipptar Það er eitt svo skrýtið í þessu lífi.  Ég var svona að velta lífinu fyrir mér eins og svo oft áður og var þá hugsað til dvalar minnar hérna í Frakklandi.  Þegar ég var ennþá heima á Íslandi semsagt áður en ég fór var ég oft að ímynda mér hvernig það yrði hérna o.s.frv. og þá var mér þetta nær óhugsanlegur draumur og að sjálfsögðu í huga mér alveg geðveikt.  Svo núna er ég loksins kominn á þennan stað og verð að viðurkenna að þetta er ekki eins og í draumi mínum.  Eitt get ég líka lofað ykkur að þegar þessu verður lokið þá mun þetta eflaust verða í svipuðum dúr og þessi draumur.  Þ.e.a.s. alveg frábært.  Er þetta þá ekki alveg frábært ?  En það sem þetta er í raun og veru, er eins og lífið er í dag og gær og jafvel fyrir mánuði síðan, það er raunveruleikinn.  Að sjálfsögðu á þetta ekki einungis við dvöl mína hérna heldur yfirleitt alla atburði, þeir eiga sér svona stað í huga mér.  Ætti ég ekki bara að vera ánægð að vera a.m.k. komin hingað nánast áfallalaust.  Getur veruleikinn ekki bara orðið jafn góður og draumurinn.  Ég ætla að reyna að trúa því, en stundum reynist það erfitt, einkum þegar illa gengur.  Ég held ég byrji bara að lifa í draumi, það virðist skemmtilegra.  Það er jú satt að draumaheimurinn er eitthvað sem er ekki raunverulegt en getum við ekki bara gert hann að veruleikanum og þá verður lífið yndislegt.  Þó reyndar sé lífið yndislegt nú þegar.  Og auðvitað þurfum við á slæmum hlutum og dögum að halda til að gera okkur grein fyrir því góða í lífinu, það er að segja yndisleika lífsins. 

Smá raunveruleikaupplýsingar að lokum, ég tek fram að þetta er ekki draumur :  Ég er orðin krulluhaus, var komin með ógeð af mínu rennislétta hári og vantaði breytingu.  Sumir vilja þó halda því fram að þetta hafi verið gert til að reyna að líkjast Paulu meira, það er að segja vera meira eins og "systur".  En svo skemmtilega vildi til að hún klippti hárið á sér næstum á sama tíma og það sem meira er við höfðum hvorug sagt frá því heldur birtumst bara einn daginn svona, án þess að segja nokkrum manni frá því.  Ég get nú samt sagt að við líkjumst aðeins meira en áður, þó eru þegar ýmsir hlutir í hegðun okkar sem líkist þar sem jú við erum saman alla daga, alltaf. 


Full þjóðarstolti

Ég er búin að fatta það að ég get bara verið rosalega ánægð með það að vera Íslendingur.  Þó geng ég ekki svo langt að klæða mig í peysur, boli og sokka með íslenska fánanum eins og vel þekktir Brasilíumenn.  Eru þau svona stolt af því að vera Brasilíumenn ?  Peningar hafa mikið verið ræddir þessa dagana og hversu mikilvægir þeir eru til hamgingju og svo framvegis.  Í kjölfar þess hafa laun verið rædd og þar af leiðandi skattar.  Fyrir skattana sem við borgum erum við að hafa það ansi gott, við fáum góða menntun og heilbrigðiskerfið er að mörgu leyti gott.  En ef litið er á önnur lönd eins og t.d. Brasilíu.  Þú vinnur 12 mánuði á ári og 4 af þeim fara í skatta sem gefur um 33%.  Lítum þá á hvað þú færð fyrir þessa skatta :  það eru almenningsskólar sem veita yfirleitt enga menntun og eru mjög lélegir svo að auki þarftu að borga einkaskóla fyrir barnið þitt ef það á að menntast og komast í háskóla en þá er annað vandamál.  Einkaháskólarnir eru svo lélegir en auðvelt er að komast inn í þá en aftur á móti eru almenningsskólarnir þeir bestu en um 1 af hverjum 200 kemst inn.  Annars þekki ég ekki nógu vel heilbrigðiskerfið en get ímyndað mér að um eitthvað svipað dæmi sé að ræða.  Eigum við ekki rétt á því að vera svolítið ánægð með að vera Íslendingar ?  Ég get sagt fyrir mína parta að ég er bara stolt og fyllist algjöru þjóðarstolti.  Aftur á móti ber að líta á að mun auðveldara reynist að hafa góða stjórn á 300.000 manna þjóð heldur en 188 milljóna þjóð.  En að sjálfsögðu erum við Íslendingar ansi grimm þjóð þar sem við veiðum hvali, ekki satt ? 

Annars var ég líka að velta fyrir mér hvort að stundum sé maður of mikið að flýta sér að vera í framtíðinni og nýtur þar af leiðandi ekki líðandi stundar.  Það sannast meðal annars með því að þegar maður er að láta sér hlakka til einhvers atburðar og bíður en á meðan maður bíður þá nýtur maður ekki líðandi stundar.  Það er nauðsynlegt að taka einn dag í einu og lifa honum og það sem á eftir fylgir kemur yfirleitt bara af sjálfu sér.  Ég er ekki að segja að það þurfi ekki að hugsa um framtíðina og plana heldur kannski ekki verða alveg upptekin af því.  Til dæmis núna er ég að flýta mér að koma heim og útskrifast en það er svo vitlaust.  Ég á ennþá rúmlega 4 mánuði hérna sem ég þarf að nýta. 

Vikið að öðru þá átti ég yndislega 5 daga með Birni Steinari og Írisi.  Vorum í París og nutum lífsins og náðum að gera margt, meira að segja náði ég að næla mér í nokkrar flíkur.  Við borðuðum einungis góðan mat á flottum veitingastöðum og má ætla að kortið hafi verið vel staujað og ansi þreytt.  Síðan fengu þau að kynnast lifnaðarháttum Bauer fjsk. en einnig voru þau kynnt fyrir lifnaðarháttum Íslendinga, mestmegnis Jónsfjölskylduháttum.  Fengu þau vel að kynnast rigningunni sem er þekkt veður hérna í Metz en í París kynntumst við hinsvegar Íslendingum óþekkt fyrirbæri sem heitir sól og 15 stiga hiti í febrúar.   

Ég hef átt í erfiðleikum með tölvuna mína þessa dagana og ætla að bjarga myndunum mínum og hef skellt þeim öllum inn á síðu sem er hérna í valmyndinni til hliðar og þar getið þið séð myndir frá ævintýri systkinanna í Frakklandi.  Eins og þekkt er, er víst aldrei hægt að treysta á þessi fyrirbæri; tölvuna. 


Ég er hérna...

Fyrir ykkur sem voruð farin að hafa áhyggjur af mér þar sem liðin er meira en ein vika frá síðasta bloggi, þá er ég hérna rétt handan við hornið.  Síðustu viku er ég búin að vera í fríi og er bara búin að njóta þess rosalega vel.  Ég gerði enga stórfenglega hluti, fór í hjólatúra í yndislega veðrinu sem kom hérna í nokkra daga, fór í bíó, á kaffihús, las og fór í ræktina.  Og verð ég svo að viðurkenna að það var rosalega gott að fá Paulu heim, ég hafði saknað hennar frekar mikið.  Því þegar ekkert er að gera, þá finnum við okkur alltaf eitthvað að gera og ef ekki þá truflar það okkur aldrei að spjalla klukkutímunum saman. 

Ég veit ekki hvað ykkur þykir um Valentínusardaginn en mér finnst þetta einungis vera veisla fyrir verslun.  Ég held að það sé endalaust hægt að plata fólk til að koma sér upp einhverjum hefðum þar sem það er nánast skyldað til að eyða peningum.  Og af hverju þarf einhvern ákveðin dag til að sýna þeim sem þú elskar að þú elskir hann ?  Og enn og aftur er þetta pappírseyðsla þar sem um mánuði áður byrjar að streyma inn alls konar ruslpóstur, sem eins og af nafni sínu bendir til, fer beint í ruslið, jafnvel án þess að nokkur lesi hann. 

Svo langar mig að segja ykkur að á laugardaginn var kom fólk í mat og var ég send í að gera eitthvað íslenskt til að bjóða þeim upp á.  Ég ákvað að gera hjónabandssælu og hélt ég að ég hefði gjörsamlega klúðrað henni en þegar upp var staðið þá er ég ekki frá því að þetta hafi verið ein besta sem hefur farið inn um mínar varir.  En svo er ég alltaf að vandræðast með hvað ég get eldað fyrir þau sem er ekta íslenskt, svo hingað til hef ég einungis eldað grískt, mexíkanskt, kínverskt o.s.frv.  Ef þið hafið einhverjar hugmyndir þá endilega látið mig vita Smile. 


Framtíðaráform ?

Þessa dagana vildi ég óska þess að tíminn liði hratt eins og eldflaug en hægði svo á sér þann 21. febrúar, þegar Björn Steinar kemur í heimsókn.  Það er svo fyndið og svo koma svona dagar þar sem allt gengur alveg ótrúlega vel og dagurinn er bara skemmtilegrar en allt og þá vil ég bara að tíminn stoppi og ég vil ekki fá næsta dag af hræðslu við að hann verði ekki jafngóður. 

"Við skiljum lífið með því að líta til baka, en við getum einungis lifað því með því að horfa fram á við".  (Sören Kierkegaard) 

Þá er ég komin í tveggja vikna frí og verð eigilega að viðurkenna að ég er ekkert voðalega hamingjusöm með það, ég væri meira til í að vera heima að gera ritgerð í íslensku eða eitthvað þess háttar.  Paula yfirgaf mig nefnilega í 10 daga og ég er alveg handalaus án hennar, það er svo skrýtið að hún sé ekki hérna þar sem ég er vön að vera með henni á hverjum einasta degi.  Mér gefst endalaust tóm til að hugsa og er sérstaklega búin að vera að velta því fyrir mér þessa dagana hvað ég ætla að gera í framtíðinni.  Ég er ekki viss um að ég vilji ennþá fara í verkfræði vegna þess að ég er svo hrædd um að ég sé einungis að velja það vegna þess að pabbi er verkfræðingur og þetta virðist örugg leið, maður fær auðveldlega vinnu, ekki illa borgað og svo framvegis.  Til dæmis er ég viss um að Paula ætlar einungis að verða læknir vegna þess að báðir foreldrar hennar eru læknar og leiðin er greið.  Hana langar rosalega til að verða blaðamaður eða rithöfundur en segir að það sé of erfitt í Brasilíu.  Á dögunum var svo vinkona hennar í heimsókn hérna og er hún einmitt í læknisfræði og sama sagan, bæði mamma hennar og pabbi eru læknar.  Svo er hún núna að átta sig á því að þetta er ekki fyrir hana.  Ég er ansi hrædd um að lenda í sömu sporum.  Ég hef þó enn dágóðan tíma til að hugsa mig um.  Þetta er nú ekkert stórt vandamál en ég læt þetta svolítið vefjast fyrir mér þessa dagana.  Í gærkveldi settist ég niður og var að reyna að púsla saman áföngum fyrir næstu tvær annir, það reyndist mér dálítið erfitt...  en viti menn, ég skal, ég get, ég vil ! 

Lilja Björk !  Ég ætla rétt að vona að þú hafir fengið smsið frá mér á laugardaginn var.  Ef ekki þá vil ég bara óska þér innilega til hamingju með 19 ára afmælið.  Stórt knús og margir kossar Heart


Litla prinsessan, Lou !

LouÞessa dagana gengur allt rosalega vel hjá mér og ég er ansi ánægð með allt saman, ætli ég sé ekki stödd á toppi þess umtalaða rússíbana... ég bíð bara eftir því að detta niður aftur, það verður harkalegt fall eftir langan blómlegan tíma.  Hugsanlegt að það gerist þegar ég er búin að njóta frísins sem líður óðum að og fá elskulegann bróðir minn í heimsókn.  En á sama tíma og ég er svona ofboðslega sátt við lífið er Paula greyið alveg á botninum og hún þráir ekkert annað en að fara heim.  Ég reyni mitt besta til að hjálpa henni en oft er enginn hjálp þegin og oftar en ekki er það hugurinn sem gildir.  Ég er búin að læra það að oftar en ekki getur maður stjórnað líðan sinni einkum með jákvæðu hugarfari þó oft séu utanaðkomandi áreiti en með jávæðum husunum er vel hægt að hunsa þau.  Vandamálið er þó að kunna að hafa stjórn á hugsunum sínum sem er meira en að segja það.  Það er til dæmis ótrúlega erfitt að koma heim eftir frábæran dag þar sem allt gengur á besta veg og það eru ekki allir jafn glaðir og þú og það getur einfaldlega dregið mann niður, utanaðkomandi áreiti sem er næstum ógerlegt að hunsa.  Og svo er líka alveg drepleiðinlegt að segja frá einhverju sem maður er alveg rosalega glaður með þegar ekki er glaðst með manni og viðbrögðin neikvæð eða engin. 

Á sunnudagskvöldið átti sér stað hörmulegur atburður, en ég bar augum hluti sem ég hefði betur viljað sleppa !  Í húsinu á móti áttu sér stað mikil rifrildi og enduðu þau með því að maðurinn barði konuna sína og í íbúðinni var önnur kona stödd og hún fylgdist bara með, ég hef ekki verið í þessum aðstæðum en það hlýtur að vera erfitt og ekkert hægt að gera.  Ég vissi bara ekki hvað skyldi gera, hvort ég ætti að hringja á lögregluna en ég sýndi Alain og stuttu síðar róaðist þetta svo við ákváðum að gera ekkert í þetta skiptið.  Claire sagði mér svo að hún heyri oft mikil læti þaðan en hafi hins vegar aldrei séð neitt.  Þetta hafði virkilega áhrif á mig og hefur án efa sært blygðunarkennd mína.  Ég fann til með konunni.  Heimilisofbeldi er víst mun algengara en maður heldur.  Það er alveg hrikalegt.  En að sjá þetta bendir manni virkilega á hvað maður hefur það í raun og veru gott. 

En ég velti því bara fyrir mér, hvernig er hægt að leyfa sér að misbjóða annarri manneskju svona ?  Eiga ekki allir sömu rétti til að eiga gott líf ?  Fer heimurinn versnandi ?  Mikið andskoti getur mannskepnan verið vond og heimsk !  Þetta gerir mig ekkert annað en reiða út í lífið. 


Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó....

Á föstudagskvöldið gerðust undur og stórmerki, Paula sá snjóinn í fyrsta skiptið á ævi sinni.  Daginn eftir var hann allur farinn og Paula var ansi leið að hafa ekki geta gert snjókall.  Hún fékk allavega 5 sms til að láta hana vita að það snjóaði svo það færi alveg örugglega ekki fram hjá henni.  Ég get vel viðurkennt að ég sakna snjósins alveg pínu.

Á laugardaginn gerðust einnig frábærir hlutir en ég fann lítinn Íslending bíða eftir að verða sótt á lestarstöðina.  Við skemmtum okkur ansi vel, fórum á útsölur og gerðum ansi góð kaup.  Það var algjör paradís fyrir Örnu Láru að komast að versla í Metz þar sem hún býr einhverstaðar út í "rassgati".  Það var líka algjör paradís að tala íslensku.  Það var elduð pítsa, sungið hástöfum langt fram á nótt og svo var víst samið lag. 

Síðustu daga er ég búin að reyna að læra að vera smá kærulaus stundum.  Það er víst nauðsynlegt þegar gengur ekki eins og vel og maður vildi, stundum verður manni bara að vera sama.  Ég fékk nefnilega ekki góða einkunn í stærðfræði en samt betri heldur en flestir í bekknum og ég ákvað svona bara að vera ekkert að pirra mig á því.  Það bætti það líka bara upp að ég stóð mig ansi vel í tímaritgerð í frönsku en einnig í sögu - og enskuprófi.  Átttaði mig líka bara á því að vera að pirra sig eitthvað hjálpar bara ekki neitt, maður verður bara að læra af mistökunum og gera betur næst.  Maður á það víst til að vera of strangur við sjálfan sig og stundum það mikið að manni tekst ekki að fylgja sínum eigin reglum og þegar það gerist er maður að sjálfsögðu ekki sáttur.  Lausnin er að vera minn stangur við sjálfan sig, vera kærulaus.  Whistling


Nýtt líf !

Það er komin lítil stelpa í heiminn !  Á hádegi þennan yndislega sunnudag fæddist lítil stelpa, loksins komin stelpa í fjölskylduna, eftir 3 stráka og held ég að allir séu ofboðslega sáttir með það.  En Xavier "bróðir" minn var svo heppinn að fá litla stelpu í hendurnar sem Fanny er búin að bera undir belti síðustu 9 mánuðina.  Claire og Claude eru orðin amma og afi !  Er lífið ekki yndislegt ?  Si, la vie est belle...  Það kemst ekki mikið annað fyrir í heilanum á mér þessa stundina þar sem gleðin á heimilinu fyllir öll horn og skúmaskot.  Fleiri hlutir sem gera lífið ennþá yndislegra fyrir fjölskylduna.  Týndi "bróðir" okkar kemur heim í dag.  Alain sem bjó í Kanada kemur semsagt heim alfarið en við héldum að við myndum aldrei sjá hann, en plön geta breyst. 

Í mínu einkalífi eru líka hlutir sem gera lífið frábært.  Innan við mánuður er í að ég fái að sjá BRÓÐIR minn.  Já, alvöru bróðir minn.  Hann Björn Steinar kemur að heimsækja mig eftir akkurat einn mánuð og Íris (kærastan hans) kemur líka.  Svo skrýtið að ég sé aldrei búin að sjá hana en jú lífið heldur víst áfram þó svo ég sé ekki viðstödd.  OG eftir 2 og hálfan mánuð fæ ég svo að sjá litla BRÓÐIR minn sem er víst ekki ennþá lítill og ef ég skil rétt er hann líklega búinn að ná mér.  Já, hann heldur áfram að stækka þó svo ég sé ekki viðstödd.  Og síðast en ekki síst mömmu og pabba !  Ég ætla að vona að þú séu ekki búin að breytast, kannski er mamma orðin stærri en ég og pabbi mjórri en ég, hver veit ?  Já allar sorgir og öll mín tár þau ætla að víkja frá. 

Í síðustu viku var ég með fyrirlestur um íslenskt skólakerfi.  Ég var búin að undirbúa mig alveg ofboðslega vel.  Tók upp og hlustaði margsinnis og áttaði mig á því að ég tala ekki jafn vel frönsku og ég hélt.  Ég er með alveg hrikalega sterkan íslenskan hreim sem áður hafði ég engan veginn áttað mig á, ég hélt að ég talaði alveg rosalega vel varla með hreim en nei ! Ég kvarta hins vegar ekki að hafa rekið mig á þetta, það gerir ekkert annað en að hjálpa mér að tala betur.  En ég skal svo segja ykkur eitt !  Ég stóð mig bara ansi vel, ég var rosalega sátt með þetta, var búin að undirbúa 10 min fyrirlestur en talaði í a.m.k 30 min og allir voru rosa ánægðir með litla Íslendinginn.  Þetta gleður lítið hjarta með fullkomnunaráráttu. 

Il faut que tu t'aime avant que quelqu'un peux t'aimer.  Meme chose avec ta voix.  Il faut d'abord que t'apprends a aimer ta voix avant que les autres peux l'aimer.  (Þú þarft að elska sjálfan þig áður en einhver annar getur elskað þig.  Það sama á við um röddina þína.  Fyrst þarf þú að læra að elska röddina þína áður en hinir geta elskað hana.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband