Sunnudagur, 1. október 2006
Skelltum okkur til Brasilíu !
Líðandi vika var að vana bara góð, ég er farin að venjast lífinu hérna. Ég er hætt að halda að ég sé heima í Súluhöfða þegar ég vakna á morgnana. Mér finnst skrýtið að hugsa til þess að þetta muni vera heimilið mitt næstu 10 mánuði. En þá rann það upp fyrir mér að nú þegar er ég búin að vera hér í mánuð og 9 - 10 svona í viðbót ættu ekki að skaða.
Frakkland og Ísland eru ekki svo ólíkir menningarheimar. Það er þó önnur saga að segja um Brasilíu og Ísland og sömuleiðis Frakkland og Brasilíu. Það koma dæmi um það daglega. Nefni hér nokkur dæmi bara til gamans. Paula hendir alltaf klósettpappírnum (eftir að hún hefur skeint sér) í ruslatunnuna en ekki í klósettið ; hún hefur aldrei ryksugað og ég þurfti að kenna henni það ; hún hefur aldrei séð heyrúllu ( vegna þess að það kemur ekki vetur í Brasilíu ) ; hún hefur aldrei séð snjó. Svona gæti ég endalaust haldið áfram.
Ég er byrjuð að læra söng hérna hjá stelpu sem er 25-30 ára og er frá Kúbu. Er í tónlistarskólanum hérna í Metz og er að fara að læra jazz söng. Það er ekki það sama og ég er að læra heima - en ég spurði sjálfa mig bara : er ég hérna til að gera nákvæmlega það sama og heima ? og komst að þeirri niðurstöðu að svo er ekki. Mér líst rosalega vel á þetta, er þó bara búin að fara í einn tíma enn sem komið er.
Mér hefur ekki enn tekist að komast í kaupæðið mitt eins og mér tekst svo furðuvel annars staðar. Paulu hefur hins vegar tekist mjög vel til. Ég er ekki búin að kaup eina einustu flík síðan ég kom hingað og kem ég nánast sjálfri mér á óvart. Mig er meira að segja farið að vanta ýmsa hluti vegna þess að mér tókst ekki að troða nógu mikið af fötum með mér og ég er bara með eina skó til að vera í svona dags-daglega. Fyrir manneskju eins og mig sem hef ekki tölu á pörunum sem ég á heima, þá gengur það ekki alveg upp.
Í gær fór ég með stelpunum úr fótboltanum og einnig fylgdu með makar á handboltaleik, Metz á móti einhverju liði frá Luxemborg og leitt að segja þá tapaði Metz með fjórum mörkum ; þetta var mjög spennandi leikur. Eftir leikinn fórum við heim til einnar stelpunnar að borða og það var borðað eitthvað sem kallast moul frites og komst ég að því að það er kræklingur og franskar. Þetta þótti mér ekki gott en skemmti mér að vísu mjög vel. Kom svo heim kl að verða 2 og svo var vaknað kl 7 í morgun til að keyra upp í sveit - eins og svo oft áður. Í þetta skipti var það fjsk. Claudes sem kom saman og borðaði í hádeginu. Í bænum þarna var einhver landa hátíð og skelltum við okkur þar með til Brasilíu - sem vakti mikla lukku hjá sumum.
Væntanlegar eru myndir frá liðnum atburðum.
Ásbjörg
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)