Sunnudagur, 15. október 2006
Nýt lífsins í Frakklandi !
Þess vikuna var fullt að gera og það finnst mér hreint ekki slæmt, þá gleymir maður sér og nýtur lífsins í botn. Það voru próf, fótboltaæfingar, verslað, matarboð og margt fleira.
Ég fór í stærðfræðipróf á miðvikudaginn og kom heim með þær slæmu fréttir að ég hefði gjörsamlega klúðrað því. Þetta voru bara orðadæmi svo allur tíminn fór í að reyna að skilja uppl. og síðan sp. en þegar það tókst var bara stæ eftir sem fyrir mig var ekki mikið mál. Ég náði ekki að klára prófið, kláraði svona 1/3 af því. Svo leið sá dagur að við fengum út úr prófinu og viti menn ég og Paula vorum hæstar í bekknum með prýðiseinkunn. Svo var líka sögupróf sem ég stóð mig alveg prýðilega í en á eftir að fá út úr því.
Á miðvikudaginn fór ég í bæinn að versla með stelpu úr bekknum mínum og það gerðust undarlegir hlutir, fyrsta flíkin var keypt. Ég keypti mér rosalega flottar Levi's buxur, en mig var virkilega farið að vanta buxur. Á fimmtudagskvöldið fórum við Paula svo heim til Delphina sem er trúnaðarmaðurinn minn og gerðum crepes að frönskum sið. Á eftir æfingu á föstudaginn fórum við nokkrar stelpur úr fótboltanum heim til Angel og borðuðum fondue einnig að frönskum sið og að sjálfsögðu var skálað í hvítvíni.
Helgin var annars bara róleg en rosalega fín, fórum í gær enn og aftur á kaffihús með nokkrum krökkum úr skólanum og ég tek það fram að þegar við förum á kaffihús þá förum við alltaf á sama kaffihúsið, þetta er svona kaffihús skólans, allir í skólanum fara á þetta kaffihús. Á eftir voru svo keyptir ýmsir nauðsynjahlutir. Áttum svo rólegt laugardagskvöld heima yfir Dancer in the dark.
Í dag mun ég spila fyrsta leikinn minn með stelpunum og er svolítið stressuð en einnig spennt. Ég hef ekkert sofið út síðan ég kom hingað, það lengsta sem ég hef sofið er til 9:30 og það einu sinni. En það er kannski ekki þörf fyrir það þar sem það er farið svo snemma að sofa.
Ég er búin að setja inn fullt af myndum en fleiri eru væntanlegar.
Ásbjörg
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)