Sunnudagur, 22. október 2006
Frakkar ekki hrifnir af hvalveiðum !
Þessa dagana fæ ég ekki mikið lof í lófa fyrir að vera Íslendingur. Eins og þið væntanlega vitið var á dögunum hvalveiði leyfð í atvinnuskyni. Frakkarnir eru jafnframt ekki mjög hrifnir af þessu eins og margar aðrar þjóðir. En ég hef ekkert með þetta að gera, núna er ég frakki, þetta árið. Þó að pabbi minn sé forseti Íslands eins og stelpunum í fótboltanum tókst svo vel að misskilja þá fæ ég engu ráðið.
Annars var vikan bara fín, borðaði með stelpunum í fótboltanum á þriðjudaginn eins og svo oft áður og enn sem áður var það mjög fínt og skemmtilegt. Svo gerðist ég sniðug og keypti mér málfræðibók fyrir 11 ára krakka til að æfa mig aðeins, því mér gengur ekki vel að ná þessum sirka 10 tíðum sem við höfum í frönskunni, en þetta er allt að koma.
Fyrir þá sem vilja vita um leikinn sem ég spilaði síðastliðinn sunnudag þá gekk það bara hreint ágætlega, þótt mér reyndist erfitt að skilja hvar þjálfarinn vildi að ég væri á vellinum vegna þess að fótboltaorð eru eitthvað sem eru ekki í mínum orðaforða, en eftir leikinn tókst mér að skýra fyrir honum að ég spilaði yfirleitt hægri kant, eða hefði gert það í sumar. Svo að næsti leikur verður mun betri, en hann er næsta sunnudag.
Um helgina fór ég ásamt fósturfjölskyldu minn til Belgíu til að heimsækja bróður Claudes og fjsk. hans. Við lögðum af stað fljótlega eftir skóla í gær og vorum rétt að renna í hlaðið heim aftur núna. Í gær afrekaði ég það að vera í Frakklandi, Lúxemborg og Belgíu sem ég tel ekki slæmt. Mér leið samt ekki eins og ég væri í öðru landi, þarna er líka töluð franska og við vorum bara á heimili þeirra nánast allan tímann fyrir utan smá göngutúr úti í náttúrunni, sem var ansi fallegt. Við fengum ekkert öðruvísi mat þarna enda eru þau frönsk og búa bara í Belgíu. Mér skilst samt að maturinn í Belgíu byggist að mörgu leyti upp á frönskum með majonesi og jú þeir eru þekktir fyrir gott súkkulaði líka. En ekkert af þessu rataði ofan í magann minn þessa helgina, en hugsa að ég myndi varla orka það að vera skiptinemi hjá belgískri fjsk. Vinkona hennar Paulu sem er skiptinemi í Belgíu kom svo og heimsótti okkur í dag og komumst við að því að á hennar heimili er víst ekta belgískur matur.
Þau hjónin í Belgíu eiga þrjú börn sem við áttum góðar stundir með og gátum lært mikið af. Einn strákur og tvær stelpur 3,4 og 5. Strákurinn hafði mikinn áhuga á okkur og var að skoða hvar við ættum heima og svona og þegar hann sá Ísland sagði hann : þetta er nú pínulítið land, býrðu bara ein þarna eða ? hugsa að þetta hafi verið kaldhæðni en það sem við mættum líta á er það að Belgía er líklega svona 10X minni. Svo spurði hann Paulu hvaðan hún væri og hún sagðist jú vera frá Brasilíu og þá sagði hann : já það hlaut eitthvað að vera, þess vegna tala ég miklu betri frönsku en þú.
Smá fróðleikur svona í lokin. Ég var að komast að því að það eru til um 350 tegundir af frönskum ostum ! hvorki meira né minna. Fyrir glöggar manneskjur eins og mig áttaði ég mig á því að ég ætti að geta borðað eina tegund á dag allt árið um kring.
Á miðvikudaginn byrja ég svo í tveggja vikna haustfríi svo litla stelpan í Frakklandi hoppar glöð inn í næstu viku.
En hún kveður að sinni,
Ásbjörg
Bloggar | Breytt 23.10.2006 kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)