Sunnudagur, 12. nóvember 2006
Ásbjörg þarf að komast út !
Þá eru magaverkirnir yfirstaðnir svo ég get tekið gleði mína á ný. Claire hafði margar tilgátur um ástæður magaverkjanna og m.a. orðaði hún það svo skemmtilega að Ásbjörg þyrfti hreinlega að komast út og ég held ég sé bara komin út... En mögulega var þetta eitthvað stress í mér sem gerði það að verkum að maginn var í keng.
Claire var eitthvað að spjalla við Paulu og sagði að þegar sá dagur rynni upp að ég syngi hérna heima þá fyrst geti hún verið viss um að mér líði vel. Ég hafði alltaf fundið mér tíma þegar ég var alein heima til að æfa mig að syngja bæði mér til hags og einnig til þess að vera ekki að ónáða fjölskyldumeðlimi. Jæja í byrjun vikunnar tók ég mig semsagt til og söng hástöfum í herberginu mínu til að sýna Claire að mér liði vel, vona að hún viti það núna.
Helginni er ég svo búin að eyða meira og minna í að læra efnafræði sem er gjörsamlega að gera mig brjálaða vegna þess að engin svona fræðiorð eru til í orðabókinni minni. Mér tókst að komast í gegnum þetta á einhvern hátt sem ég skil ekki ennþá en tók mér hinsvegar tvo daga í það í stað kannski 1 klst hefði þetta verið á íslensku. Komandi vika á eftir að verða erfið að ég held vegna þess að það eru svokölluð "petit bac" eða æfingastúdentspróf sem byrja á miðvikudaginn.
Sökum "kuldans" þurfti ég að finna mér líkamsræktarstöð vegna þess að það fer að verða of erfitt að hlaupa úti. Það gerði ég á eigin spýtur, hringdi út um allt og tók mér svo góðan rúnt um bæinn til að skoða þrjár sem mér leist best á og ræða um verð og þessháttar, ég var svo heppin að þær voru allar á sitthvorum enda bæjarins svo að á endanum var ég búin að taka mér rúmlega 3 tíma göngutúr. Einnig þarf ég að fara að finna mér úlpu en í þeim málum er ég örlítið erfið, ég er búin að leita út um allt en virðist ekki ætla að finna eitthvað sem ég er ánægð með en aftur á móti er Paula ansi einföld í fatamálum, finnur strax það sem hún leitar að, enda gerir hún ekki miklar kröfur.
Þið fáið engar myndir að sjá þessa vikuna, þar sem ég hef ekki gert neitt nógu merkilegt til að fá að festast á filmu.
Ásbjörg sem er komin út !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)