Sunnudagur, 5. nóvember 2006
Nýr mánuður með kulda og magaverkjum
Þá er nóvembermánuður genginn í garð með sinn ógnarlega kulda, jólaauglýsingar streyma í póstkassann, súpermarkaðirnir fullir af jóladóti og farið er að hengja upp jólaljós í miðbænum. Ég verð hálfhrædd þegar ég sé allt þetta því þá uppgötva ég að ekki er of langt í jólin og mín fyrstu jól án fjölskyldunnar sem á auðvitað eftir að verða upplifun útaf fyrir sig, góð eða slæm ? ég veit ekki enn.
Seinasta mánudag fór ég í hjólatúr með Claude og Gerhard í fjöllunum, veðrið var frábært og ekkert smá fallegt útsýni. Svona 70% af leiðinni var upp í mótið og hjóluðum við í 2 og 1/2 tíma. Ég var eins og sannur hjólagarpur í hjólabuxunum hennar Claire og á rosa fínu hjóli. Það var alveg að koma nóvember og við á stuttbuxum og stuttermabol, þó ég sé í Frakklandi þá er það ekki alveg eðlilegt fyrir þennan tíma árs. Enda læddist veturinn inn tveimur dögum síðar en þá var hitastigið um 20° minna og Paula upplifði sínar 0°C í fyrsta skipti á ævinni.
Líkaminn minn virðist ekki alveg vera að höndla þessar breytingar og er hann búinn að sýna það með mörgu móti. Allt haustfríið mitt er ég búin að vera með magaverk eftir hverja máltíð og á hverjum degi hugsaði ég, æ þetta hlýtur að lagast en svona gekk þetta í 10 daga og þá var komið nóg. Claire pantaði tíma hjá lækni og læknirinn sagði að ég væri með "irritation intestinical" sem ég held að þýði þarmabólgur og fékk ég einhver lyf við þessu og vona svo sannarlega að þau virki. Skrýtið að líkaminn minn bregðist svona við breytingum vegna þess að það er ekki miklar breytingar fyrir mig, það er enn meiri fyrir Paulu en enn hefur ekkert hrjáð hana fyrir utan aukakíló sökum súkkulaðiáts.
Ég náði nú samt að gera fullt af hlutum í fríinu mínu þrátt fyrir þetta, ég fór út á hverju einasta kvöldi og leyfði mér að versla smá í H&M. Annars er ég að fara að endurtaka hjólatúrinn aftur á eftir og svo þarf ég að læra eitthvað fyrir morgundaginn. Svo mæti ég hress í skólann í fyrramálið, endurnærð eftir gott og langt frí.
Ásbjörg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)