Laugardagur, 16. desember 2006
Chaque jour il faut se coucher moins bete !
Þessi vika er búin að vera ansi skrýtin þar sem er búið að skiptast á skin og skúrir. Annaðhvort er þetta ótrúlega erfitt og leiðilegt og ég veit ekki hvað eða þvílík gleði ! Þessa dagana þarf samt alls ekki mikið til að gleðja mig. Ég gladdist t.d. mikið yfir einkunn úr skilaverkefni í eðlis-og efnafræði sem var 19/20. Ég tek það fram að í þetta verkefni var mikið lagt og á meðan á því stóð féllu nokkur tár. Þið sem þekkið mig kannist eflaust við þessi reiðistár jafnt og gleðitárin mín frægu. Þau hafa líka nokkur fallið þessa vikuna, sem betur fer.
Það er alveg ótrúlegt hvað það getur gefið mikið að hjálpa öðrum. Það er ein stelpa í bekknum okkar Paulu sem á voðalega bágt. Á miðvikudaginn fórum við Paula með henni í bæinn og áttum ótrúlega góðar stundir með henni og hún var svo þakklát og sendi okkur þakklætisskilaboð um kvöldið, þennan dag fór ég ótrúlega glöð að sofa og vaknaði með bros á vör.
Aðventan hérna er ansi frábrugðin og á Íslandi. Ég veit ekki hvað það er en mér finnst bara engan veginn eins og það séu að koma jól, ég heyri engin jólalög nema einstaka sinnum þegar ég hlusta á það sem ég á í tölvunni minni. Þetta er einhvernveginn ekki jafn hátíðlegt hérna, það bjargaði mér hinsvegar alveg að ég fékk sendar íslenskar smákökur, það gerði alveg gæfumuninn. Ég var hinsvegar aðeins að átta mig betur á komu jólanna áðan þegar við fórum með Claire að kaupa jólatréð. Keyptum rosa flott og stórt jólatré sem við erum búin að setja upp en það er í okkar höndum, mínum og Paulu að skreyta það.
Heilræði mitt hérna í fyrisögninni er ansi góð setning sem ég ætla hreinlega að fara eftir. Þetta þýðir að á hverjum degi þurfi maður að fara í rúmið minna heimskur. Þegar mér var kennd þessi setning var ég einmitt spurð hvort ég ætlaði að deyja heimsk. Þessar umræður fjölluðu um að smakka nýjan mat þar sem ég er erfið í þeim málum. Það eru bara hlutir sem mig langar bara alls ekki til að smakka, eins og ostrur, hrogn og ef til vill fleira. En þessar umræður áttu sér stað í súpermarkaðnum með Claire áðan og enduðu með því að hún keypti snigla sem ég samþykkti að smakka. Ég er nú þegar búin að smakka allan fjandann, afsakið orðbragðið.
Sniglaveisla og hananú !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)