Sunnudagur, 25. mars 2007
Frelsi ?
Líðandi helgi velti upp ýmsum hugsunum. Það var semsagt AFS helgi, þar sem hver og einn var tekinn og spurður spjörunum úr til að kanna hvort allt gangi ekki vel. Orðið beindist að því að hafa frelsi eða ekki... Ég og Paula teljum okkur til dæmis hafa frekar mikið frelsi og er það þá dæmt í því hvort við megum fara út á kvöldin og þess háttar. Svo voru sumir sem fá jafnvel aldrei að fara neitt út og þar af leiðandi ekki með þetta svokallaða frelsi. Þá í allt öðru samhengi var ég svona að velta fyrir mér hvað frelsi væri í raun og veru. Er frelsið þegar þú hefur um endalausa möguleika að velja eða þegar þú hefur valið einn möguleikanna ? Flestir myndu svara því að það væri þegar þú hefur alla möguleikana en er ekki meira frelsi í því að þurfa ekki að vera í þeirri stöðu að vita ekki hvað eigi að velja heldur vera viss um hvað þú vilt ? þetta er spurning ?
Skellum okkur þá í aðra og skemmtilegri sálma. Hún Paula hefur þann skemmtilega eiginleika að vera alveg einstaklega óheppin. Henni tekst að skemma alla mögulega hluti heimilisins, týna öllu og svoleiðis mætti áfram halda. Henni tókst meira að segja næstum því að kveikja í húsinu. Þegar ég kom heim úr ræktinni einn daginn ákváðum við í flýti að fara að sjá einhverja danssýningu það sama kvöld. Ég hendi mér þar af leiðandi í sturtu og hún tekur að sér að elda matinn á meðan. Ég er þarna í rólegheitum mínum í sturtunni þegar rafmagnið fer skyndilega af og heyri ég ekki Paulu öskra og æpa á Claude og hlaupa um allt. Ég skil náttúrulega ekkert í þessum kjána, hvað hún er að kippa sér upp við það að rafmagnið fari af í smá stund og Claude greinilega hugsaði það sama þar sem hann brást varla við öskrum hennar og æpum. Það næsta sem ég sé út um gluggann er bara eldur... þegar ég svo kem úr sturtunni fæ ég skýringar á öllum látunum. Þá hafði hún semsagt kveikt í djúpsteikingarpottinum sem var ofan á eldavélinni og svo óheppilega vildi til að hún hafði kveikt á vitlausri hellu og þar af leiðandi kviknaði í... Claude reddaði svo málunum með því að henda vélinni út um gluggann.
Svo bara minna ykkur á að það skiptir öllu máli að vera jákvæður, það breytir öllu. Maður getur engu tapað á því að vera jákvæður en með neikvæðni þá tapar maður öllu. Finnst ekki öllum best að vinna og verst að tapa. Einfalt þetta líf ! Spurning um bjartsýni og jákvæðni, velja það góða eða vonda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)