Ítalía

Mér bauðst það svona upp úr þurru að fara með fótboltanum til Ítalíu.  Ég gerði allar ráðstafanir sem til þurfti og skellti mér til Ítalíu á föstudaginn og kom aftur heim í nótt.  Við gerðum svo ótrúlega mikið að mér finnst eins og ég hafi verið í a.m.k viku.  Ferðin byrjaði ansi skemmtilega en við lentum semsagt í því að minirútan sem við fórum með bilaði þegar eftir voru eins og hálfs klst akstur.  Við eyddum semsagt einum degi á bílaverkstæði í Sviss !  Komið var á áfangastað um 7 leytið á laugardagskvöldinu.  Á sunnudeginum var farið til Feneyja og það var alveg magnað að sjá sjóinn þarna inn á milli húsanna og fólkið ferðast á gandólum á milli.  Þar fannst mér hinsvegar aðeins of mikið af fólki (túristum) og ég gæti engan veginn ímyndað mér að búa þar.  Næsta og síðasta daginn fórum við til Mílanó og var það svona túristaheimsókn, þar sem þeir sem á því höfðu áhuga fóru að versla en aðrir skoðuðu dómkirkjuna og sátu á kaffihúsi og drukku góðan ítalskan expresso.  Veðrið lék nú ekki við okkur allan tímann, við fengum nokkra sólargeisla en rigningin var ansi frek.  Þegar keyrt er í 12 tíma er hinsvegar ekki slæmt að sólin sýni sig ekki neitt of mikið.  Við áttum að koma heim kl 11 í gær en vorum svo heppin að lenda í smá umferðarteppu að ég steig út úr bílnum kl 3 í nótt.   Að ítölskum sið voru máltíðirnar byggðar upp á pizzum og pasta en því miður rann enginn ís niður í magann, sökum sólarleysis og kulda.  Ég átti mjög góða helgi en nú tekur alvaran við í eina og hálfa viku. 

Ég tók eftir einu ansi skemmtilegu.  Í Feneyjum sá ég fullt af fólki frá Brasilíu og það gat maður séð vegna þess að þau voru í peysum merktar Brasilíu eða með fánann vafinn utan um sig.  Hver veit nema að ég hafi séð jafn marga Íslendinga, Dani, Englendinga o.s.frv.  Þeir eru alveg ótrúlegir þessir brassar og alveg ótrúlega stoltir af að vera brassar.  

Annars þá er ég búin að setja inn myndir frá Ítalíuferðinni, njótið.   

 


Bloggfærslur 29. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband