Föstudagur, 15. júní 2007
Tónlist heimsins !
Hvað var í upphafi áður en heimurinn varð til ? Hvaðan kemur þessi stóri listamaður sem bjó til þetta glæsilega listaverk ? Við vitum ekkert og erum ekkert... Við erum á jörðinni sem er ein af plánetum okkar vetrarbrautar sem er ein af milljörðum í alheiminum. Við getum komið með hinar ýmsu getgátur um hitt og þetta en aldrei neitt vitað fyrir víst, það er svolítið óþægileg tilfinning... Getgáturnar geta verið réttar þar til eitthvað annað kemur í ljós...
Heimurinn er eitt risastórt tónverk sem þessi listamaður samdi, það fallegasta sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Ég og þú erum nótur sem hljóma ekki eins. Ég er heldur ekki alltaf eins, það fer eftir því hvernig ég er spiluð... Stundum er ég spiluð löng, stundum stutt, stundum á píanó og í enn annað skipti á fiðlu...o.s.frv. Stundum finnst mér ég hljóma vel en oft kemur fyrir að mér finnst ég örlítið fölsk. En í þessu risastóra tónverki er ein nóta ekkert ofboðslega mikilvæg en allar voru settar á blaðið af einhverri ástæðu. Sumar voru settar til að breyta einum kafla aðrar einungis til að hljóma en engu breyta en allar saman breyta tónverkinu; heiminum... Það erum við sem þurfum að átta okkur á því hvernig við gerum mest gagn...hvernig getum við látið þetta tónverk verða ennþá fallegra en það er ? Ef við spyrjum okkur engra spurninga fáum við engin svör. Það er enginn hérna fyrir tilviljun en því miður eru sumir sem halda það og bíða allt lífið á krossgötum... sá fær aldrei nein svör og hljómar ekki sterkt í tónverkinu, jafnvel heyrist ekki. Tónverkið mun halda áfram að eilífu og fyrstu nóturnar sem skrifaðar voru á tómt blaðið í upphafi eru þegar þagnaðar og hvíla sig til að gefa öðrum nótum tækifæri til að taka þátt í tónverkinu, aðrar eru farnar að dofna en gera þó gæfumuninn og geta ef til vill kennt þeim nýju hvernig best er að spila úr því sem við höfum. Við erum hérna til að spila tónlist heimsins...Saman!
Stundum líður mér ekki vel og er ekki örugg með mig, þá er ég fölsk og hljóma ekki vel. Það veltur yfirleitt á nótunum sem í kringum mig eru... og jafnvel blaðsíðunni sem ég er á; umhverfið. Til að ég hljómi vel og til að mér líði vel þarf ég að vera á réttri blaðsíðu og meðal réttra nótna og það þarf ég að finna... Sumar nótur geta hljómað vel hvar sem er og eru óháðar umhverfinu...eða sýnast óháðar en þá oft er það ekki sú rétta nóta heldur annað hlutverk sem sýnir sig. Það hlýtur að vera erfitt að þurfa alltaf að þykjast vera önnur nóta en maður er! Ég vel að velja mér umhverfið og þegar ég er meðal nótna sem mér líður ekki vel með er ég ekki spiluð rétt og þær nótur fá ekki að kynnast mér eins og ég er... En hinar fá hins vegar að kynnast mér rosalega vel og kunna þá betur að meta það sem ég er, hvernig ég er spiluð...
Ykkur finnst ég kannski spyrja mig of margra spurninga...en svörin fylgja spurningunum jafnvel þó bíða þurfi eða leita vel, það er svona sem mér mun takast að velja réttu molana!
Nú ætti ég að þekkja París betur en lófann á mér, söfn voru vel heimsótt, búðir fengu ekki mikla athygli og fæturnir fengu vel að þreytast og kynnast hverfum Parísar... Ég féll kylliflöt fyrir ákveðnum hverfum og við komumst að því að París er ekkert svo stór allavega ekki þegar metro er vel notað. Þessu fylgja að sjálfsögðu myndir sem eru inni á myndasíðunni minni.
Í dag er mánuður þangað til að ég yfirgef heimilið mitt, fjsk og vini...en finn þó gamalt heimili, gamla fjsk og gamla vini sem mun þó mér virðast nýtt eftir eins árs fjarveru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)