Mánudagur, 6. október 2008
"En stóll er steig ég stóð tæpt svo hann valt."
Steinninn sem ég stóð á rann undan fótum mér og ég datt. Hvað gera menn þá, jú það er einfalt! Ég þarf að finna nýjan og stöðugan stein. Mig vantar eitthvað til að styðja mig við á meðan ég leita að nýjum steini til að standa á. Allir þurfa eitthvað til að tryggja það að þeir detti ekki, alveg eins og húsin þurfa sökkul til að geta staðið. Við þurfum líka okkur sökkul, sama hvað við köllum það, hvort það er vinnan, fastar innkomur, fjölskyldan, makinn... eitthvað sem gerir okkur kleift að halda áfram, halda jafnvægi... Eins og er þá er ég svolítið í lausu lofti, ég er búin að missa “vinnuna” mína, sem áður gerði mér kleift að borga tónlistarskólann og kaupa það fáa sem mig vantaði. Ég stólaði á þessa vinnu en svo kemur einhver og tekur það frá mér og ég stend með auðar hendur. Þetta kennir manni einfaldlega það að það er ekki allt undir okkur sjálfum komið. Jafnvel hvað varðar þennan sökkul sem við oft höfum sjálf valið og teljum vera traustan, góðan, stöðugan og áreiðanlegan. Ég missti ekki vinnuna vegna þess að ég stóð mig ekki vel eða vegna þess að mér kom ekki vel saman við samstarfsaðilana, yfirmanninn eða eitthvað slíkt. Staðan mín er ekki lengur til, hún var þurrkuð út. Mamma barnanna sem ég var að passa var sem sagt að vinna einn dag í viku og þá sá ég um börnin. Henni líkaði ekki vinnan, yfirmaðurinn var alveg ofboðslega erfiður og hún bara þoldi það ekki, þar af leiðandi vantar hana ekki lengur barnapíu. Ekki bætir það heldur úr skák að krónan sé ekki besta vinkona okkar þessa dagana. Eins og við erum þó gjörn að segja, “þetta reddast”! Koma tímar, koma ráð... ótrúlegt en satt þá veldur þetta mér ekki neinum svakalegum áhyggjum enn sem komið er. Ég tek þessu eins og hverju öðru vandamáli, mistökum, ójafnvægi og reyni að læra sem mest af þessu. Maður á að nýta sér alla visku sem manni er borin. Eitt er allavega víst að ég fer ávallt að sofa minna heimsk heldur en þegar ég vaknaði, það er þegar alls ekki slæmt. Ég vil heldur ekki trúa því að eitthvað gerist fyrir tilviljun. Ég trúi því að allt eigi sér einhverja ástæðu... nú bíð ég því spennt að sjá af hverju þetta gerðist. Ef maður er svo nógu hugmyndaríkur þá finnur maður alltaf einhverja ástæðu. Svo lengi sem við förum ekki út fyrir “lúxusvandamálin” þá ræð ég við aðstæðurnar. Næsta mál á dagskrá er því að fylla út í stundaskrána þennan eina dag. Það getur ekki verið neitt ofboðslega erfitt fyrir svona skipulagsfrík eins og mig. Ég get t.d. bókað fund með tölvunni minni alla þriðjudaga á einhverju krúttlegu kaffihúsi og fengið mér einn góðan kaffibolla (ef ég hef efni á honum) og skrifað til ykkar þarna heima í formi bloggs. Sko, ég er allavega strax komin með hugmyndir :) Hvað varðar peningamál þá væntanlega er ég að fara að kenna 13 ára stelpu ensku. Með þeim vasapeningi ætti ég að hafa efni á að borga tónlistarskólann og jafnvel nokkra kaffibolla. Annars þá líkar mér ansi vel þetta “einfalda líf”, þar sem maður þarf ekki öll þessi efnislegu gæði. Þetta ljúfa líf þar sem maður finnur að maður er sjálfum sér nægur. Einu sinni hræddist ég meira en allt annað það að þurfa að vera ein með sjálfri mér, þeir tímar eru liðnir! Eftir allt saman þá líkar mér bara þó nokkuð vel við þessa Ásbjörgu. Það er nú líka einu sinni þannig að maður þarf að læra að elska sjálfan sig áður en maður getur verið elskaður af öðrum. Eins og með annað þá er þó allt best í hófi. Ætli ég "sjái" ykkur svo ekki næst á þriðjudaginn kemur.
Athugasemdir
Jii.. þetta peningatal er að gera útaf við Íslendinga! Frystikystur eru víst uppseldar vegna þess að fólk er að byrgja sig upp fyrir svaka kreppu.. Bónus er troðfullt af óðu fólki sem verslar og verslar.. það endar með því að búðirnar standa tómar á sunnudögum eftir annasama helgi.
Ég á nú enn eftir að borga þér hljómborðið! Þannig að þú ættir að geta keypt þér þónokkra kaffibolla með þeim peningi. Legg inn á þig um leið og Ásmundur sendir mér reikningsnúmerið þitt;)
Katrín systir Ása (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 13:33
Æ en leiðinlegt með vinnuna.. en svona getur komið fyrir og þá leitar maður annarra ráða. Gott ef þú getur farið að kenna, hvernig fékkstu það? Ég elska þegar ég fæ tíma bara með sjálfri mér, það mætti gerast oftar ;) Var ekki æðislegt hjá ykkur um helgina? kossar og knúúús!! :o)
Karitas (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 10:40
Þetta reddast alltaf! Það er ráð undir hverju rifi :) Hef engar áhyggjur af því! Það sem ég hef áhyggjur af um þessar mundir er þjóðin okkar! Mér finnst svolítið erfitt að vera svona langt í burtu og geta þess vegna ekki alveg áttað mig á aðstæðum... en á sama tíma er ég fegin að vera laus við þetta. Helgin var alveg hreint æðisleg! Ég vil helst ekki að hún sé á enda... mig langar bara að hafa hann hérna hjá mér þangað til ég kem heim. Það mun taka smá tíma að komast aftur inn í rútínuna hérna og án hans. Hvernig er annars í skólanum hjá þér ?
Knús og kossar til allra.
P.S. Ég blogga aftur þegar ég fæ fleiri athugasemdir svo ég viti af ykkur :)
Ásbjörg (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 11:51
Í sambandi við þessa liðnu helgi að þá var hún með þeim betri á minni lífsleið, auðvitað hefði maður viljað vera þarna mikið mikið lengur en maður hefur mörgum skyldum að gegna hérna heima líka svo það var ekkert annað í boði:S
Lenti líka í mörgu skemmtilegu á lestarrúntinum út á flugvöll í gær....reiðir frakkar út í útlending sem kann bara ensku:D
Knús og kram,
Ási Páls
Ásmundur (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 09:03
æj.. þetta ástand er hræðilegt! Ekki það að ég finni þannig séð fyrir þessu peningalega séð en að heyra af öllum sem eru búnir að missa nánast aleiguna og af þeim námsmönnum sem eru erlendis og fá ekki peninga.. þetta er hræðilegt! Svo er mannorð Íslands gjörsamlega komið í skítinn, fyrir tveimur vikum var maður gífurlega stoltur af því að vera Íslendingur en núna er ekki laust við það að maður hreinlega skammist sín! þetta hélt ég að ég myndi sko aldrei nokkurn tímann segja... en svona er þetta :( úff, ég trúi því að það hafi verið erfitt að kveðja.. núna eru, hvað, tveir mánuðir í næsta fund? Heyrðu skólinn er fínn.. brjálað að gera! Ég er komin í ritnefnd Sálublaðsins, man ekki hvort ég var búin að segja þér það. Þannig að ég verð bara að skipuleggja mig vel.. ekki málið :)
Karitas (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 19:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.