Þoka framundan en sól í hjarta í þessum óbærilega léttleika tilverunnar

Það er þoka framundan, ég sé ekki nógu vel fram fyrir mig til að geta keyrt á hæsta leyfilega hraða. Ég fer hægt um og veit ekki almennilega hvað bíður mín handan þokunnar. Það er einhvern veginn svona sem mér líður í dag, ég get ekki sagt að mér líði illa innst inni, það er bara eitthvað svo mikið að gerast í kringum mann um þessar mundir að maður fyllist ótta um það sem koma skal. Ég er ný stigin út úr ástarfleyinu þar sem allt virtist ganga upp, allt var æðislegt, allt var gaman, lífið var og er líklegast ennþá yndislegt. Ég á hins vegar svolítið erfitt með að setjast aftur um borð í hversdagsleikann, rútínuna, koma mér í gang ein með sjálfri mér. Það munar öllu að vakna á morgnana og fá koss, ljúft augnaráð, stórt knús, bara smá “spark í rassinn” til að koma sér á fætur og rjúka af stað í daginn fullur af orku og gleði. Ég þarf að finna aðrar leiðir til þess eftir þessa yndislegu nærveru í þessari annars erfiðu fjarveru Ásmundar Pálssonar.
Allt þetta brask, þessi ólgandi sjór, þessi áföll, þessar hörmungar sem eiga sér stað um þessar mundir í landinu okkar bæta bara rigningu og leiðinda veðri við þokuna framundan. Alls ekki síst á tímum sem þessum þarf maður innilega á að halda að hafa sól í hjarta, bros á vör (þó það reynist þungt að skella upp á andlitið), gott fólk í kringum sig, ást og umhyggju, frelsi til að tala og tjá tilfinningar sínar og gott eyra sem hlustar. Nú er um að gera að láta allt hið jákvæða sem á sér stað verða mun umfangsmeira heldur en hið slæma og nýta sér það til þess að komast áfram, þó svo allt virðist standa í stað. Þrátt fyrir þennan ólgusjó í tilfinningum sem og umhverfi mínu/okkar breytir það því ekki að nú eru um 60 km hjólaðir, nokkur hundruð skref tekin, einhver tár runnin niður kinnarnar, 50 bls lesnar, einhverjir peningar foknir, nokkrar máltíðir borðaðar, einhverjum kaloríum brennt, nokkur fiðrildi flogin um magann, hitt og þetta flogið gegnum hugann, margar samræður hafa átt sér stað, margt fólk hitt fyrir, blóðið í æðum mínum hefur farið allmarga hringi, góðar og slæmar tilfinningar hafa farið um líkama minn og ég held áfram að reyna að finna leiðir til að njóta lífsins. Ef ég tek allt þetta saman og velti fyrir mér aðstæðum get ég verið viss um það að ég hlýt að vera komin vel á veg þó svo ég sjái ekki nákvæmlega hvar ég er stödd í þessum óbærilega léttleika tilverunnar. Ef allt þetta hefur gerst síðan ég bloggaði síðast þá get ég verið sannfærð um það að ég silast áfram og mun eflaust halda áfram að gera það sama hvar í tilfinningarússíbananum ég er stödd. Nú er bara spurning um að nýta þennan tíma vel sem hefur sinn vanagang og líður og líður, ekki leyfa honum bara að líða án þess að nota hann. Hann hlýtur að vera okkur gefinn til að nota hann og því ætla ég að gera það eftir bestu getu.
Nú sit ég á litlu krúttlegu kaffihúsi eins og ég var búin að gera ykkur vart við að myndi koma til. Ég held eg hafi fengið einn besta expressobollann minn í þessu “ferðalagi”, nema ég sé nú svo uppfull af jákvæðu viðhorfi eftir þetta skrifaða blogg að allt virðist gott, jafnvel vondur expresso – hver veit ? Ekki spillir það fyrir að ég held ég sé búin að fá svona 10 bros síðan ég settist hérna niður, ég brosi að sjálfsögðu á móti og nú held ég það fari bara alveg að límast á andlitið mitt og dugi þar til ég sofna í kvöld. Ég hlýt svo að finna ástæðu eða innri gleði til að skella upp nýju í fyrramálið. Annars er dagurinn á morgun alveg troðfullur og nóg um að vera sem gæfi mér ástæðu til að halda áfram að brosa framan í heiminn. Meðal annars er ég að fara að kenna tveimur krökkum ensku og hef þar með efni á hinum yndislega kaffibolla sem var að renna ofan í maga.
Mér finnst orðið aðeins léttara yfir, ég sé nú þegar fram á annað kvöld... það er að segja ég er þegar með plan þangað til þá. Ég byrja allavega á því að stíga léttum skrefum út af kaffihúsinu sem voru mun þyngri er ég steig inn, ég verð einni og hálfri evru fátækari, einum kaffibolla ríkari, 2 klst fátækari og síðast en ekki síst einu stóru brosi ríkari!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá segi ég bara, þessir textar hjá þér eru algert gull....

Ég vildi að ég hefði þennan hæfileika í mér sjálfum. En ég hef hann í hluta af mér og það verður vísta að duga í bili, eða þangað til að ég uppgötva hann í sjálfum mér. Sagði ekki eitthver fræðimaðurinn að allir fæddust jafnir, með jafna hæfileika? Það er bara undir hverjum og einum að uppgötva þá.
Ef svo er að þá er bara spurning um að uppgötva þá í manni sjálfum:P
(vona að ég sé ekki að bulla með þennan fræðimann:P)

Þúsund kossar frá Íslandi,

Ásmundur

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 17:17

2 identicon

Halló Ásbjörg mín :-)

Þakka þér fyrir þess frábæru texta.  Þeir eru miklu skemmtilegri og jákvæðari en það sem maður les í dagblöðunum.  Ég er viss um að þú átt eftir að verða skáld ;-)  

Vona þú skemmtir þér vel og njótir tímanns þarna úti, þó að hinn helmingurinn sé hér hjá mér.  

Kveðjur Hulda Margrét

Hulda, mamma Ásmundar (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 17:56

3 identicon

Þakka ykkur fyrir góðar viðtökur :)  Maður þarf á þeim að halda líka til að halda áfram og til að hafa löngun til að skrifa, þannig það er líka undir ykkur komið hvort bloggið er skemmtilegt :P  Þegar ég sé að það eru rosa margir búnir að kommenta eða ótrúlega margir búnir að skoða síðuna þá gefur það mér spark í rassinn og löngun til að gera jafn vel eða ennþá betur og þá getur alveg dottið eitthvað skemmtilegt upp í kollinn á mér! 

Hulda, þú passar bara hinn helminginn vel fyrir mig á meðan ég er ekki heima, ég treysti þér nú heldur betur til þess annars :)  

Bið svo bara kærlega að heilsa öllum og vona einnig að öllum heilsist vel í ástandi sem þessu.  Þetta er doldið mikill tímaþjófur frá mér því ég vil helst kíkja á mbl.is á hverri mínútu, gengið á seðlabankanum á hverri klst og svo framvegis.  

Knús og kossar til allra!  

Ásbjörg (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 18:20

4 identicon

já við brosum bara í gegnum tárin Ásbjörg mín! Það skiptir svo miklu að láta þetta ekki buga sig.. sem þú ert greinilega ekki að gera! :) úff hvað það hlýtur að hafa verið æðislegt að fá hann Ása í heimsókn! Er komin dagssetning á hvenær þú kemur á klakann? Hafðu það gott og haltu áfram að vera svona frábær :o)

Karitas (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 19:30

5 identicon

Enn er ekki komin dagsetning á klakaferðina en það verður um miðjan desember.  Ég þarf nefnilega að vita hvenar ég á að spila á tónleikum áður en ég kaupi mér miða.  Það þarf allavega að vera fyrir útskriftina hans Ása sem er vanalega í kringum 20. desember.  Ég skal halda áfram að vera svona frábær ef þú lofar líka að halda því áfram :P 

Ásbjörg (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 18:30

6 identicon

Sæl Ásbjörg mín!

Albert og Árni nefndu það um síðustu helgi að þeir óskuðu þess að þú kæmir í heimsókn til að tala frönsku! Við söknum þín öll og alla hlakkar til að hitta þig þegar þú kemur heim um jólin.

Nú er tími til að hugsa sinn gang í þessu fárviðri sem gengið hefur yfir landið síðustu daga og vikur, hlúa að sínum nánustu og hugsa málin í friði og ró. Farðu vel með þig kæra vinkona, við hugsum til þín í franska landinu góða sem við söknum líka,

 Þínir vinir,

Albert, Árni, Ágúst, Lilja og Ari Páll

Lilja (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 20:49

7 identicon

Þú ert hreint út sagt yndisleg elsku Ásbjörg mín og textarnir og hugleiðingar þínar um lífið minna mann virkilega á tilgang lífsins og það hversu yndilsegt það er.  Það þarf ekki að vinna sér inn margar Evrur til þess að eiga fyrir kaffibolla og fá tíma til svona ritstarfa.  Þetta, ásamt öllu havaríinu hér og í fjármálaheiminum öllum kennir manni hvað það er sem máli skiptir í lífinu og að "margur verður af aurum api".

Kær kveðja,

ÞInn pabbi

Jón Pálsson (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 15:08

8 identicon

Sko sjáið bara hver er æðislegur, yndislegur, frábær og bestur!  Það eruð þið!  Það eruð þið sem hvetjið mig áfram, sem gefið mér ástæðu til að halda áfram, til að gera vel, til að njóta lífsins, allt sem til þarf!  Ég er sko enginn api en ég tel mig samt vera með þeim ríkustu og þið eruð hluti af ríkidæmi mínu :)

Ásbjörg (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband