Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Tilvistin og Mallorca...

Eftir ekki svo marga klukkutíma hitti ég mikilvægasta fólkið í lífi mínu = fjölskylduna mína.  Langþráð páskafríið er þegar komið og ekki annað en gleði á bæ.  

Segið mér ekki að þið hafið aldrei sagt við foreldra ykkar að þið hafið ekki beðið um að fæðast, heldur voru það þau sem gáfu þér líf það er að segja þegar þau eða þú eruð ekki nógu ánægð með ykkur.  Ég held að flestir ættu að kannast við þetta.  En að sjálfsögðu á góðum dögum erum við ekkert annað en þakklát fyrir að fá að vera til.  Við vorum sköpuð eins og við erum en höfum alla möguleika til að þroskast, þróast, breytast og gera betur.  Hinsvegar við, mannveran sköpum aðra dauða hluti, sem ekkert fá að segja um tilveruna sína og hafa enga möguleika til að verða eitthvað annað heldur en þeir eru.  Erum við ekki bara doldið heppin að fá að vera til, eiga stað í tilverunni.  Eða eins og vinur minn hann Jean - Paul Sartre (heimspekingur - tilvistarstefnunnar) orðar svo skemmtilega að okkur sér bara hent út í tilveruna án nokkurra spurninga.  Ég sætti mig allavega við að hafa verið hent í þennan heim, hann er ekki svo slæmur eftir allt saman.  

Ég óska ykkur bara gleðilegra páska og ég er farin að skemmta mér á Mallorca.   


Frelsi ?

Líðandi helgi velti upp ýmsum hugsunum.  Það var semsagt AFS helgi, þar sem hver og einn var tekinn og spurður spjörunum úr til að kanna hvort allt gangi ekki vel.  Orðið beindist að því að hafa frelsi eða ekki...  Ég og Paula teljum okkur til dæmis hafa frekar mikið frelsi og er það þá dæmt í því hvort við megum fara út á kvöldin og þess háttar.  Svo voru sumir sem fá jafnvel aldrei að fara neitt út og þar af leiðandi ekki með þetta svokallaða frelsi.  Þá í allt öðru samhengi var ég svona að velta fyrir mér hvað frelsi væri í raun og veru.  Er frelsið þegar þú hefur um endalausa möguleika að velja eða þegar þú hefur valið einn möguleikanna ?  Flestir myndu svara því að það væri þegar þú hefur alla möguleikana en er ekki meira frelsi í því að þurfa ekki að vera í þeirri stöðu að vita ekki hvað eigi að velja heldur vera viss um hvað þú vilt  ? þetta er spurning ?  

Skellum okkur þá í aðra og skemmtilegri sálma.  Hún Paula hefur þann skemmtilega eiginleika að vera alveg einstaklega óheppin.  Henni tekst að skemma alla mögulega hluti heimilisins, týna öllu og svoleiðis mætti áfram halda.  Henni tókst meira að segja næstum því að kveikja í húsinu.  Þegar ég kom heim úr ræktinni einn daginn ákváðum við í flýti að fara að sjá einhverja danssýningu það sama kvöld.  Ég hendi mér þar af leiðandi í sturtu og hún tekur að sér að elda matinn á meðan.  Ég er þarna í rólegheitum mínum í sturtunni þegar rafmagnið fer skyndilega af og heyri ég ekki Paulu öskra og æpa á Claude og hlaupa um allt.  Ég skil náttúrulega ekkert í þessum kjána, hvað hún er að kippa sér upp við það að rafmagnið fari af í smá stund og Claude greinilega hugsaði það sama þar sem hann brást varla við öskrum hennar og æpum.  Það næsta sem ég sé út um gluggann er bara eldur... þegar ég svo kem úr sturtunni fæ ég skýringar á öllum látunum.  Þá hafði hún semsagt kveikt í djúpsteikingarpottinum sem var ofan á eldavélinni og svo óheppilega vildi til að hún hafði kveikt á vitlausri hellu og þar af leiðandi kviknaði í...  Claude reddaði svo málunum með því að henda vélinni út um gluggann.  

Svo bara minna ykkur á að það skiptir öllu máli að vera jákvæður, það breytir öllu.  Maður getur engu tapað á því að vera jákvæður en með neikvæðni þá tapar maður öllu.  Finnst ekki öllum best að vinna og verst að tapa.  Einfalt þetta líf !  Spurning um bjartsýni og jákvæðni, velja það góða eða vonda.   


Gamlar hliðar skjótast upp

Allt er svo eymdarlegt án þín hér, án þín ei sólin lengur skín hér... og ÞÚ eruð þið sem saknið mín.  Og satt er það að sólin ei lengur skín hér heldur ákvað einhver þarna uppi að henda litlum hvítum kúlum á okkur í dag.  Skrapp sólin kannski í heimsókn til ykkar í dag ?  Vilduð þið kannski vera svo væn að skila henni aftur á morgun. 

Um helgina sýndi ég víst á mér hliðar sem hefðu betur mátt sleppa að sjást.  Ég kom heim uppgefin eftir frábæra afmælishelgi hjá Örnu Láru og beið mín ekki svo innilega skemmtilegur heimalærdómur í sögu.  Þráðurinn var því ansi stuttur hjá mér og bræddi fljótt upp í minni þegar ekki tókst eins vel til og hefði viljað.  Ég sýndi semsagt á mér freku, dramatísku, barnalegu, pirruðu, þrjósku hliðina sem ég hélt að ég hefði skilið eftir heima en hún var einhverstaðar þarna falin og fékk aðeins að sýna sig.  En það var ekki slæmt þar sem við gátum vel skemmt okkur eftir á og hlógum dátt af hegðun minni.  Og þar með sannaðist að það er víst oft ansi stutt á milli hláturs og gráturs, gleði og sorgar.   

Svo hef ég sett myndir frá afmælinu inn á myndasíðuna.  Myndirnar held ég að tali sínu máli. 


Sól, sól skín á mig. Ský, ský burt með þig.

Það er alveg ótrúlegt hvað veðrið getur haft mikil áhrif á skapið í manni.  Að vakna með sólskini og 10-15 stiga hita er alveg ómetanlegt.  Þetta gula fyrirbæri sem við sjáum stundum hátt á himnum á mikinn þátt í að gera lífið ennþá yndislegra en það er og ylja manni um hjartarætur.  Rigningin dregur hins vegar úr manni allan kjark og löngun til að "vera", allir fela sig undir reglhlífunum sínum sem þeir draga upp úr töskum og vösum um leið og einn dropi fellur, hlaupa um göturnar og gefa sér ekki tíma til að gefa næsta manni eitt lítið bros.  Dagurinn í dag er hins vegar dagur til að brosa. 

Í nótt dreymdi mig að ég væri á Íslandi og skemmti ég mér við það að synda í kalda sjónum þar, svo heppilega vildi til að ég var í öllum fötunum og að auki með skólatöskuna og íþróttatöskuna.  Þegar ég hafði lokið sundspretti mínum uppgötvaði ég að skóla- og íþróttataskan voru ekki lengur á sínum stað.  Ég var að sjálfsögðu ekki sátt með það en í því vaknaði ég...  Svo datt mér í hug ansi skemmtileg túlkun á draum þessum.  Kannski er þetta merki um að ég eigi aðeins að taka því rólega í rætkinni og skólanum, það er að segja vera ekki að leyfa þessum hlutum að valda mér áhyggjum.  Því eins og er, eiga þessir tveir hlutir hug minn allann.  En þó tel ég ekki skrýtið að mig hafi dreymt þetta þar sem öllum í kringum mig þykir ég fara of oft í ræktina og taki skólanum of alvarlega. 

Nú finnst mér tíminn líða of hratt og ég hef varla tíma til að stoppa og líta á kringum mig.  Ég hef það á tilfinningunni að hann hlaupi á ógnarhraða eða eins og skrattinn sé á eftir honum.  En hvorugt af þessu getur reynst rétt, heldur hlýtur bara að vera svona ofboðslega gaman hjá mér að ég hef þessa óþægilegu tilfinningu. 


Draumur eða veruleiki ?

Nýklipptar Það er eitt svo skrýtið í þessu lífi.  Ég var svona að velta lífinu fyrir mér eins og svo oft áður og var þá hugsað til dvalar minnar hérna í Frakklandi.  Þegar ég var ennþá heima á Íslandi semsagt áður en ég fór var ég oft að ímynda mér hvernig það yrði hérna o.s.frv. og þá var mér þetta nær óhugsanlegur draumur og að sjálfsögðu í huga mér alveg geðveikt.  Svo núna er ég loksins kominn á þennan stað og verð að viðurkenna að þetta er ekki eins og í draumi mínum.  Eitt get ég líka lofað ykkur að þegar þessu verður lokið þá mun þetta eflaust verða í svipuðum dúr og þessi draumur.  Þ.e.a.s. alveg frábært.  Er þetta þá ekki alveg frábært ?  En það sem þetta er í raun og veru, er eins og lífið er í dag og gær og jafvel fyrir mánuði síðan, það er raunveruleikinn.  Að sjálfsögðu á þetta ekki einungis við dvöl mína hérna heldur yfirleitt alla atburði, þeir eiga sér svona stað í huga mér.  Ætti ég ekki bara að vera ánægð að vera a.m.k. komin hingað nánast áfallalaust.  Getur veruleikinn ekki bara orðið jafn góður og draumurinn.  Ég ætla að reyna að trúa því, en stundum reynist það erfitt, einkum þegar illa gengur.  Ég held ég byrji bara að lifa í draumi, það virðist skemmtilegra.  Það er jú satt að draumaheimurinn er eitthvað sem er ekki raunverulegt en getum við ekki bara gert hann að veruleikanum og þá verður lífið yndislegt.  Þó reyndar sé lífið yndislegt nú þegar.  Og auðvitað þurfum við á slæmum hlutum og dögum að halda til að gera okkur grein fyrir því góða í lífinu, það er að segja yndisleika lífsins. 

Smá raunveruleikaupplýsingar að lokum, ég tek fram að þetta er ekki draumur :  Ég er orðin krulluhaus, var komin með ógeð af mínu rennislétta hári og vantaði breytingu.  Sumir vilja þó halda því fram að þetta hafi verið gert til að reyna að líkjast Paulu meira, það er að segja vera meira eins og "systur".  En svo skemmtilega vildi til að hún klippti hárið á sér næstum á sama tíma og það sem meira er við höfðum hvorug sagt frá því heldur birtumst bara einn daginn svona, án þess að segja nokkrum manni frá því.  Ég get nú samt sagt að við líkjumst aðeins meira en áður, þó eru þegar ýmsir hlutir í hegðun okkar sem líkist þar sem jú við erum saman alla daga, alltaf. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband