Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
Föstudagur, 27. apríl 2007
Frönsk menning drukkin í sig
Tónleikar voru haldnir í Salle Europa þann 25. apríl 2007. Meðal annarra kom fram Asbjörg JÖNDOTTIR og söng hún lagið Meo Per eftir Bubba Morthers. Ekki hafði verið vel æft fyrir tónleikana þar sem söngkennarinn er ansi óskipulögð, það endaði með því að hún spilaði sjálf með eftir að hafa séð lagið einu sinni. Fröken JÖNDOTTIR lét það ekki trufla sig og stóð sig með prýði enda með tvo stuðningsmenn sendar með einkaflugi frá Íslandi ; Unnur og Vallý. Að sjálfsögðu var pantað gott veður fyrir Íslendingana sem komu úr vonda veðrinu. Góða veðrið leyfði sólböð á daginn og spjall fram á nótt úti á palli. Kom mér þó á óvart að Íslendingarnir versluðu ekki mikið en völdu frekar að drekka í sig menninguna. Þær lifðu mínu franska lífi, með minni frábæru fjsk., á kaffihúsum bæjarins eða í söng og danstímum. Svefntíminn var þó frekar íslenskur og óskynsamlegur en því sér maður að sjálfsögðu ekki eftir. Á meðan ég þurfti að vakna eldhress og fara í skólann fóru þær og fengu sér ekta franskan morgunmat ; croissante og kók (hefði reyndar þurft að vera kaffi til að vera ekta franskt). Eftir hádegi leyfðum við svo sólargeislunum að kitla nefin okkar á meðan við röltum um þennan fallega bæ; Metz, þar sem ég held við höfum kynnst hverju einasta horni og skúmaskoti. Að mínu mati kynntumst við kaffihúsunum best þar sem við gátum setið, ég með kaffibolla og Íslendingarnir með kók (þær eru ekki orðnar jafn franskar og ég strax, enda hef ég 7 mánaða forskot).
Ég sendi ykkur sólarkveðjur og biðst innilegar afsökunar á bloggleysi síðustu vikuna en ég hef mínar ástæður. Aðdáendurnir tóku allan minn tíma...( það er að segja ég týmdi ekki að eyða tíma mínum með aðdáendum mínum í að blogga)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 13. apríl 2007
Mallorcaveðrið ekki á Mallorca...
Þá er páskafríið að taka enda og get ég ekki annað sagt en að það hafi verið alveg æðislegt. Ég hafði í fyrsta skiptið á ævi minni tvær mömmur og tvo pabba til að passa upp á mig. Það er alltaf gott þó svo maður sé orðinn sjálfráða og stór stelpa. Sólin var í einhverjum feluleik og vildi ekki mikið sýna sig en hún varð víst eftir í Frakklandi og beið okkar þegar heim var komið. Okkur fannst hins vegar ekki skemmtilegt þegar við heyrðum að bæði á Íslandi og í Frakklandi væri 20° og yfir meðan við höfðum ýmist 11° og rigningu. Þrátt fyrir það tókst okkur að fara einn daginn á ströndina og busla aðeins í sjónum. Annars naut ég þess að vera með báðum fjölskyldum mínum og ekki þarf maður meira en það til þess að skemmta sér.
Eins og ég sagði er komið vor í loft í Frakklandi og veðrið alveg æðislegt. Núna sit ég úti með tölvuna mína í 27° C og klukkan að renna í 6. Framundan eru góðir tímar, 3 mánuðir af góðu veðri þar sem lundin er léttari á manni hverjum og lífið litríkara. Næstu vikur og mánuði mun ég án efa stunda hjólatúra í fjöllum og fallegri nátturu í 30 mín fjarlægð auk þess sem ég mun drekka kaffi á verönd kaffihúsanna og spjalla um lífið og tilveruna. Þó viðurkennist að ég hlakka ekki til að sitja inni í skólastofu í óþolanlegum hita og læra.
Ég ætla að vona að þið hafið haft það gott í páskafríinu jafnvel þó svo þið hafið ekki haft tvenna foreldra og besta litla bróður í heimi. Þið áttuð það kannski eftir allt rétt á sólinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)