Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
Sunnudagur, 15. júlí 2007
Leyndarmál perlanna...
Perlur er ekki auðvelt að finna... þær finnast þó einstaka sinnum, þegar heppnin er með manni. Yfirleitt er hægt að þekkja þér á þeirri hamingju sem þær veita þér, hversu fallegar þær eru og best af öllu er að þær láta þér líða eins og einni...
Perla er eitthvað illfinnanlegt, fallegt, verðmætt, mikilvægt og líkurnar á að finna eina eru óendanlega litlar ! Í Frakklandi fann ég perlufjölskyldu ! Þvílík heppni, þvílík tilviljun (ég trúi reyndar ekki á tilviljanir), þvílík paradís!
Þegar nokkrar perlur koma saman gerist eitthvað ólýsanlegt, kraftaverk... Perlum kemur alltaf vel saman og þær geta myndað líf sem alla dreymir um að lifa og sem deyr aldrei. Þær bjuggu til eitthvað saman, fallegt, sem sést alla leið frá himnum. Þær bjuggu til stjörnu sem skín svo skært, sem mun aldrei dofna, aldrei slokkna.
Þegar kemur að kveðjustund perlanna mun kraftur ljóssins lifa að eilífu og hver perla mun hafa lært eitthvað af þessum kynnum. Þær munu án efa geyma perluna í sjálfri sér í hjarta sér þar sem allir fallegu hlutirnir eru geymdir. Ég lærði að ég er líka perla...
Ég þakka perlunum fyrir mig en Guði þakka ég fyrir perlurnar...
Það hefur ekki enn verið varpað ljósi á það besta. Ég hef heyrt að á Íslandi finnist af og til demantar, þá er víst ennþá erfiðara að finna heldur en perlur. Í Súluhöfða 16 bíður mín víst gersemd ein... Þann 17.júlí mun ég vonandi finna þá aðstandendur og vini sem eru mér næst og þá sem láta mér líða eins og mikilvægasta demantinum.
Þá er komið að lokum þessa frábæra ævintýris, eftir 3 tíma mun ég skilja aðstandendur héðan eftir með tárin í augunum á brautarpallinum. Síðasta nóttin í rúminu mínu liðin, síðasta máltíðin að ganga í garð, síðustu kossarnir í kjölfarið, tárin rata fljótt niður kinnarnar og ég segi bless og takk fyrir mig! En heilsa á ný, þriðjudaginn þann 17. júlí, kl 15:45 á Keflavíkurflugvelli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Sunnudagur, 8. júlí 2007
Hver mínúta frátekin!
8 tíma lestarferð afstaðin, Munich - Metz! Ég steig út úr lestinni uppgefin og mín hinsta ósk var rúmið mitt, en áfram hélt prógrammið... Það er ekki ein mínúta frí í lífi mínu þessa dagana! Þegar heim var komið hélt ég í afmæli söngkennarans minns, það var hins vegar þess virði og vel það.
Ferðast með 5 brössum... ég veit ekki hvort ég muni gera það aftur. Það var ansi átakanlegt, fyrst og fremst þá virðast flestir hafa ansi gaman af því að tala, allir voru með mismunandi hugmyndir um það sem gera skyldi... stundum var ég bara fegin að skilja ekki það sem þau voru að tala um. Tíminn fór mikið í það að keyra á milli staða, leita að hóteli, leita að veitingastað o.s.frv., þau vildu helst sjá allt en það endaði með því að við sáum ekki mikið... Það sem er fyrir öllu er að við vorum saman, ég fékk að kynnast foreldrum Paulu og tíminn leið ansi hratt!
Komandi viku bíður með ferðatösku sem þarf að fylla, fólki sem þarf að hitta, hlutum sem þarf að redda, það er að segja hún bíður eftir mér þegar fullhlaðin og mun þar af leiðandi virkilega fljúga á ógnarhraða. Á þessari stundu að viku liðinni mun ég vera með annan fótinn uppi í lestinni á leiðinni til Parísar þar sem ég mun dvelja með öllum hinum skiptinemum Frakklands þangað til ég kem heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 3. júlí 2007
Tilfinningar eiga engin orð en orðin eiga tilfinningarnar!
Línur, strik og tákn sem vilja segja svo margt, svart á hvítu. Stafir sem mynda orð, orð sem mynda setningar sem einnig vilja segja svo margt. Ótrúlegt hvað eitt orð sem myndað er með nokkrum stöfum getur haft mikla merkingu og hvað það getur sagt mikið. Með öllum sínum kröftum eru þessi fyrirbæri sem skrifuð eru svart á hvítt eða mynduð með krafti raddbandanna, lögun og beitingu þess og munnsins fær um allt sem þau vilja. Þeim var gefin merking sem í tímans rás getur þó breyst. Sum hafa það mikinn kraft að þeim tekst að þvinga tárakirtlana til að spýta tárum út úr hverju einasta auga sem það sér. Þau hafa alla þá krafta sem við mennirnir gáfum þeim. Við gáfum þeirra merkingu, þeirra krafta, allt sem þau þráðu og höfðu þörf fyrir til að geta lifað góðu lífi.
Á hverjum degi gefur hver manneskja milljónum orða líf. Það besta er að gefa þeim orðum líf sem tekst að gefa öðrum eitthvað gott, til dæmis þau sem skella upp litlu brosi á varirnar og litlum stjörnum í augun. Við tölum ekki um þau sem hafa sömu áhrif og lítill sólargeisli sem stingst alla leið inn til hjartans og yljar um hjartarætur. Eins mikinn mátt og þau geta haft öll þau orð sem til eru í heiminum eins erfitt getur verið að setja orð í stað fyrir tilfinningar. Þó svo orðin geti kallað fram tilfinningar geta tilfinningar ekki kallað fram orð. Það er nánast ógerlegt og í því samhengi eru orðin fyrir þær ekki til og hafa nánast enga merkingu. Maður gæti alveg eins sagt vatn í stað þess að segja ég elska þig. Þar sem vatn er eitthvað sem er rosalega mikilvægt öllu lífi, þá ætti það að geta lýst mikilvægi þeirrar manneskju sem maður elskar. Í stað þess að segja ástin mín gæti maður jafnvel sagt blómið mitt og svoleiðis mætti áfram telja...
Tilfinningar eru eitthvað sem maður getur sýnt á svo margan annan hátt en með orðum. Orð eru mikilvæg en djúpt í augunum getur maður lesið orð af annarri gerð sem geta sagt mun meira en penni getur skrifað á autt blað.
Nú er ég að leggja í hann, stefnan er tekin á Þýskaland og dvalið verður ásamt Paulu og foreldrum hennar þar í tæplega viku. Ég ákvað að skella inn einu bloggi svo ég skilji ykkur ekki eftir í óvissunni... Núna vitið þið allt sem hefur þotið um hausinn á mér síðustu daga og vonandi að það skemmti ykkur eða nýtist ykkur.
Ég gef ykkur allt mitt vatn blómin mín !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)