Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Óskasteinar

Óskasteinar

 

"Fann ég á fjalli fallega steina.

Faldi þá alla, vildi þeim leyna.

Huldi þar í hellisskúta

heillasteina,

Alla mína unaðslegu óskasteina."

 

Einhverra hluta vegna kom þetta lag upp í hendurnar á mér síðustu daga.  Ég man að ég söng þetta þegar ég var lítil og var þetta eitt af mínum uppáhalds lögum.  Ég fékk svo staðfestingu á því og mamma sagði: "Já þegar þú varst ekki nema þriggja ára þá söngstu þetta lag daginn út og daginn inn".  Kannski langaði mig til að vera sá sem týndi þessa steina, sá draumur rættist! Ég gerðist steinasafnari - það var starfsheiti mitt á mínum yngri árum.  Þessa vikuna hefur eitthvað atvik, umræðuefni og/eða minning komið upp á hverjum degi sem tengist steinum á einn eða annan hátt.  Fyrir manneskju sem ekki trúir á tilviljanir er þetta aðalumhugsunarefni, jafnvel áhyggjuefni.  Hvað er verið að reyna að segja mér, benda mér á ?  Ég pæli fram og til baka, hvað getur steinn táknað ?  Ég reyni svo að svara sjálfri mér með því að segja að það þýði ekkert að leita of mikið því þá finnur maður ekki neitt.  Ég verð bara að halda áfram að ganga og það hlýtur einn eða annan daginn að verða á vegi mínum, það getur verið eftir 10 ár en ef heppnin er með mér þá rekst ég á það á morgun.  Ég er að sjálfsögðu búin að túlka þetta á ýmsa vegu en ég vil meina að þar sé ímyndunaraflið að ráða ferðinni.  Ein túlkunin var á þennan veginn:  Ég er víst stödd hérna meðal annars til að komast að því sem ég ætla að gera í framhaldinu.  Ég er ekki búin að taka ákvörðun um það ennþá og veit ekki hvort ég verði búin að því þegar ég kem heim.  Þá finnst mér eins og þessi steinasaga sé að minna mig á að ég er bara hérna til að safna að mér steinum.  Þegar heim verður komið get ég svo valið þann besta úr.  Með öðrum orðum er ég að sanka að mér upplýsingum og kemst eflaust að einhverjum hlutum, loka jafnvel fyrir einhverjar leiðir en ég vel ekki og vinn ekki úr þessum upplýsingum fyrr en ég kem heim.  Tíminn leiðir víst allt í ljós. 

Þessa vikuna og þá næstu er frí í tónlistarskólanum og Claire er líka í fríi.  Stundaskráin mín hefur því verið örlítið frábrugðin því sem vanalegt er.  Ég er m.a. búin að gera sultu með Claire, kaupa gleraugu þar sem hún týndi sínum í íslenskri jökulá og svo skelltum við okkur til Þýskalands yfir helgina.  Ég var ofboðslega heppin og fékk hvorki meira né minna en lyklana af tónlistarskólanum mínum meðan á vetrarfríinu stendur.  Ég get því farið og spilað þar á rosalega góð píanó hvenær sem er, þvílíkt lúxuslíf!  Mér finnst nefnilega voðalega gott að skipta um umhverfi svona af og til, því ef ég er heima allan daginn, hvað þá í sama herberginu þá finnst mér eins og ég hafi ekki gert neitt yfir daginn.  Dagarnir mínir líða því á ógnarhraða með píanótónum, ljúfum söngtónum, lestri, púli og svefni.  Hér er komin mandarínutíð og jólabæklingaflóð svo ég get ekki komist hjá því að fara að hlakka til heimkomu og jólanna.

Lítil saga til að deila með ykkur svona undir lokin.  Ég komst að því í gær að ég er orðinn algjör frakki í mér.  Ég var að hjóla heim úr tónlistarskólanum og ákvað þegar ég stoppaði á ljósum að snýta mér í staðinn fyrir að sjúga upp í nefið.  Mér fannst þetta svolítið skondið atvik því ég er alveg viss um að heima hefði ég ekki hugsað mig tvisvar um áður en ég einfaldlega sýg upp í nefið.  Núna hugsa ég mig tvisvar um og ákveð að snýta mér frekar. 


Nóg af spurningum en eitthvað minna af svörum

Það er farið að kólna í veðri, himnarnir búa okkur undir rigningu með sínum gráa lit og af og til er eins og hellt sé úr fötu, þá verður himininn aðeins minna grár.  Þetta veðurfar veldur því að maður sér ekki mikið annað en svartar regnhlífar og öfug bros.  Það gerir ekkert til því ég á hvorugt, ég hjóla bara um með hjálminn minn í appelsínugulu úlpunni sem veldur því að ég er frekar áberandi meðal allra regnhlífanna.  Núna sit ég enn og aftur á krúttlega kaffihúsinu mínu með afskaplega góðan espresso bolla sem yljar mér um hjartarætur í þessu haustveðri, hér er ekki sála svo í dag á ég ekki von á mörgum brosum.  Þau voru líklegast bara neyðarúrræði síðustu viku þar sem allt var á leið norður og niður.  Nú þarf ég ekki lengur á neyðarúrræðum að halda, það er nóg framundan.  Ég er nú þegar búin að fá að vita hvenær tónleikarnir verða þar sem ég mun flytja allt prógrammið mitt auk þess að syngja örfá jólalög.  Tónleikarnir verða semsagt þann 4.desember og að þeim loknum er ég tilbúin að koma heim.  Ég ákvað að vera ekkert að draga þetta svo ég flýg frá Frankfurt daginn eftir, fann flug á mjög góðu verði svo ég var afskaplega ánægð með það.  Ég finn ákveðið öryggi í því að vera þegar búin að bóka þetta og vita nákvæmlega hvenær ég kem heim, núna er miklu auðveldara að horfa fram á við.  Dvölin er líka farin að síga á annan endann sem hvetur mann bara ennþá meira til að vera duglegur og nýta tímann vel.

Ýmis atvik hafa sett spurningamerki upp í huga mínum ?  Það olli eftirfarandi hugleiðingum:  Þegar maður var lítill lærði maður heilmikið á því að herma eftir þeim sem eldri voru og maður sóttist alltaf eftir því að gleðja eða þóknast öðrum.  Síðast en ekki síst sóttist maður eftir því að vera viðurkenndur, fá hrós fyrir það sem maður gerði vel.  Svo líður tíminn, við hættum að herma og sækjumst eftir að vera við sjálf en ekki spegilmynd einhvers sem við lítum upp til.  Ég velti því fyrir mér hvort við séum samt ekki öll áfram í því fari að vilja fá hrós fyrir það sem við gerum, við sækjumst eftir því að vera viðurkennd, finna að við skiptum máli.  Þó svo ég fari mínar eigin leiðir, geri það sem mig langar til og pæli oftast ekki mikið í því hvað öðrum finnst um það þá hef ég samt tilhneigingu til að gera ýmsa hluti einungis til að þóknast einhverjum, gleðja einhvern, stundum líka bara til að tekið sé eftir mér og til þess að fá hrós.  Ég myndi ekki ákveða að verða verkfræðingur til að þóknast pabba mínum eða félagsráðgjafi til að gleðja mömmu mína.  Síður en svo, ég ætla að gera það sem mig langar til að gera og ég veit líka að það mun gleðja þau bæði mest.  Ég er samt sem áður alveg vís til þess að fara í spinning og gjörsamlega fara út fyrir öll takmörk, fara yfir línuna bara til þess að kennarinn hrósi mér.  Þetta á annars við margt sem ég geri og getur orðið ansi flókið því til að halda áfram að fá hrós þá þarf ég að gera betur heldur en síðast.  Til viðbótar kemur að ég á erfitt með að taka gangrýni og forðast því eins og heitan eldinn að gera mistök eða gera ekki vel.  Ég á erfitt með að átta mig á því hvort þetta sé vegna þess að svona er minn persónuleiki og mun alltaf verða eða hvort þetta séu "leifar" barnslegrar hegðunar, það er að þóknast einhverjum eða fá viðurkenningu.  Enn og aftur koma upp spurningar:  Á maður að taka þátt í keppni til að vinna hana eða bara til að vera með ?  Á maður ekki alltaf að gera að minnsta kosti sitt besta ? Kannski er þetta bara hluti af mér sem enn er óþroskaður þrátt fyrir að maður telji sig vera orðinn fullorðinn og búinn að þroskast á öllum sviðum.  Það er líka nokkuð ljóst að það er ekkert grín að þroskast og stækka, maður þjáist á báðum leiðum af "vaxtaverkjum".  Vaxtaverkir þess að þroskast í huga og hjarta eru faldir í togstreitu þess gamla og nýja, við viljum ekkert verða "stór", við viljum bara halda áfram að vera barn.  Þetta er eins og að missa tönn, barnatönnin þarf að fara til að fullorðinstönnin hafi pláss.  Barnatönnin dettur, það er ekkert voðalega þægilegt, stundum þarf að juðast í henni þar til hún loksins er tilbúin að fara.  Þá setjum við hana undir koddann og tannálfurinn kemur okkur á óvart, við setjum barnslegu hegðunina reyndar ekki undir koddann en hún fer allavega burt, þá er pláss fyrir fullorðinshegðunina.  Stundum gerist það svo að fullorðinstönnin kemur áður en barnatönnin er farin og þá berjast þær um plássið og það er líklegast ekkert svo þægilegt heldur.  Þá er fyrirlestri mínum um persónuleika minn (tanngarðinn) lokið og ég vona þið hafið notið vel.  Takk fyrir.


"Ég sé lífsins tré...og ég hugsa með mér, þetta er yndislegt líf."

Dieuze-Metz

Þoka framundan en sól í hjarta í þessum óbærilega léttleika tilverunnar

Það er þoka framundan, ég sé ekki nógu vel fram fyrir mig til að geta keyrt á hæsta leyfilega hraða. Ég fer hægt um og veit ekki almennilega hvað bíður mín handan þokunnar. Það er einhvern veginn svona sem mér líður í dag, ég get ekki sagt að mér líði illa innst inni, það er bara eitthvað svo mikið að gerast í kringum mann um þessar mundir að maður fyllist ótta um það sem koma skal. Ég er ný stigin út úr ástarfleyinu þar sem allt virtist ganga upp, allt var æðislegt, allt var gaman, lífið var og er líklegast ennþá yndislegt. Ég á hins vegar svolítið erfitt með að setjast aftur um borð í hversdagsleikann, rútínuna, koma mér í gang ein með sjálfri mér. Það munar öllu að vakna á morgnana og fá koss, ljúft augnaráð, stórt knús, bara smá “spark í rassinn” til að koma sér á fætur og rjúka af stað í daginn fullur af orku og gleði. Ég þarf að finna aðrar leiðir til þess eftir þessa yndislegu nærveru í þessari annars erfiðu fjarveru Ásmundar Pálssonar.
Allt þetta brask, þessi ólgandi sjór, þessi áföll, þessar hörmungar sem eiga sér stað um þessar mundir í landinu okkar bæta bara rigningu og leiðinda veðri við þokuna framundan. Alls ekki síst á tímum sem þessum þarf maður innilega á að halda að hafa sól í hjarta, bros á vör (þó það reynist þungt að skella upp á andlitið), gott fólk í kringum sig, ást og umhyggju, frelsi til að tala og tjá tilfinningar sínar og gott eyra sem hlustar. Nú er um að gera að láta allt hið jákvæða sem á sér stað verða mun umfangsmeira heldur en hið slæma og nýta sér það til þess að komast áfram, þó svo allt virðist standa í stað. Þrátt fyrir þennan ólgusjó í tilfinningum sem og umhverfi mínu/okkar breytir það því ekki að nú eru um 60 km hjólaðir, nokkur hundruð skref tekin, einhver tár runnin niður kinnarnar, 50 bls lesnar, einhverjir peningar foknir, nokkrar máltíðir borðaðar, einhverjum kaloríum brennt, nokkur fiðrildi flogin um magann, hitt og þetta flogið gegnum hugann, margar samræður hafa átt sér stað, margt fólk hitt fyrir, blóðið í æðum mínum hefur farið allmarga hringi, góðar og slæmar tilfinningar hafa farið um líkama minn og ég held áfram að reyna að finna leiðir til að njóta lífsins. Ef ég tek allt þetta saman og velti fyrir mér aðstæðum get ég verið viss um það að ég hlýt að vera komin vel á veg þó svo ég sjái ekki nákvæmlega hvar ég er stödd í þessum óbærilega léttleika tilverunnar. Ef allt þetta hefur gerst síðan ég bloggaði síðast þá get ég verið sannfærð um það að ég silast áfram og mun eflaust halda áfram að gera það sama hvar í tilfinningarússíbananum ég er stödd. Nú er bara spurning um að nýta þennan tíma vel sem hefur sinn vanagang og líður og líður, ekki leyfa honum bara að líða án þess að nota hann. Hann hlýtur að vera okkur gefinn til að nota hann og því ætla ég að gera það eftir bestu getu.
Nú sit ég á litlu krúttlegu kaffihúsi eins og ég var búin að gera ykkur vart við að myndi koma til. Ég held eg hafi fengið einn besta expressobollann minn í þessu “ferðalagi”, nema ég sé nú svo uppfull af jákvæðu viðhorfi eftir þetta skrifaða blogg að allt virðist gott, jafnvel vondur expresso – hver veit ? Ekki spillir það fyrir að ég held ég sé búin að fá svona 10 bros síðan ég settist hérna niður, ég brosi að sjálfsögðu á móti og nú held ég það fari bara alveg að límast á andlitið mitt og dugi þar til ég sofna í kvöld. Ég hlýt svo að finna ástæðu eða innri gleði til að skella upp nýju í fyrramálið. Annars er dagurinn á morgun alveg troðfullur og nóg um að vera sem gæfi mér ástæðu til að halda áfram að brosa framan í heiminn. Meðal annars er ég að fara að kenna tveimur krökkum ensku og hef þar með efni á hinum yndislega kaffibolla sem var að renna ofan í maga.
Mér finnst orðið aðeins léttara yfir, ég sé nú þegar fram á annað kvöld... það er að segja ég er þegar með plan þangað til þá. Ég byrja allavega á því að stíga léttum skrefum út af kaffihúsinu sem voru mun þyngri er ég steig inn, ég verð einni og hálfri evru fátækari, einum kaffibolla ríkari, 2 klst fátækari og síðast en ekki síst einu stóru brosi ríkari!

"En stóll er steig ég stóð tæpt svo hann valt."

Steinninn sem ég stóð á rann undan fótum mér og ég datt. Hvað gera menn þá, jú það er einfalt! Ég þarf að finna nýjan og stöðugan stein. Mig vantar eitthvað til að styðja mig við á meðan ég leita að nýjum steini til að standa á. Allir þurfa eitthvað til að tryggja það að þeir detti ekki, alveg eins og húsin þurfa sökkul til að geta staðið. Við þurfum líka okkur sökkul, sama hvað við köllum það, hvort það er vinnan, fastar innkomur, fjölskyldan, makinn... eitthvað sem gerir okkur kleift að halda áfram, halda jafnvægi... Eins og er þá er ég svolítið í lausu lofti, ég er búin að missa “vinnuna” mína, sem áður gerði mér kleift að borga tónlistarskólann og kaupa það fáa sem mig vantaði. Ég stólaði á þessa vinnu en svo kemur einhver og tekur það frá mér og ég stend með auðar hendur. Þetta kennir manni einfaldlega það að það er ekki allt undir okkur sjálfum komið. Jafnvel hvað varðar þennan sökkul sem við oft höfum sjálf valið og teljum vera traustan, góðan, stöðugan og áreiðanlegan. Ég missti ekki vinnuna vegna þess að ég stóð mig ekki vel eða vegna þess að mér kom ekki vel saman við samstarfsaðilana, yfirmanninn eða eitthvað slíkt. Staðan mín er ekki lengur til, hún var þurrkuð út. Mamma barnanna sem ég var að passa var sem sagt að vinna einn dag í viku og þá sá ég um börnin. Henni líkaði ekki vinnan, yfirmaðurinn var alveg ofboðslega erfiður og hún bara þoldi það ekki, þar af leiðandi vantar hana ekki lengur barnapíu. Ekki bætir það heldur úr skák að krónan sé ekki besta vinkona okkar þessa dagana. Eins og við erum þó gjörn að segja, “þetta reddast”! Koma tímar, koma ráð... ótrúlegt en satt þá veldur þetta mér ekki neinum svakalegum áhyggjum enn sem komið er. Ég tek þessu eins og hverju öðru vandamáli, mistökum, ójafnvægi og reyni að læra sem mest af þessu. Maður á að nýta sér alla visku sem manni er borin. Eitt er allavega víst að ég fer ávallt að sofa minna heimsk heldur en þegar ég vaknaði, það er þegar alls ekki slæmt. Ég vil heldur ekki trúa því að eitthvað gerist fyrir tilviljun. Ég trúi því að allt eigi sér einhverja ástæðu... nú bíð ég því spennt að sjá af hverju þetta gerðist. Ef maður er svo nógu hugmyndaríkur þá finnur maður alltaf einhverja ástæðu. Svo lengi sem við förum ekki út fyrir “lúxusvandamálin” þá ræð ég við aðstæðurnar. Næsta mál á dagskrá er því að fylla út í stundaskrána þennan eina dag. Það getur ekki verið neitt ofboðslega erfitt fyrir svona skipulagsfrík eins og mig. Ég get t.d. bókað fund með tölvunni minni alla þriðjudaga á einhverju krúttlegu kaffihúsi og fengið mér einn góðan kaffibolla (ef ég hef efni á honum) og skrifað til ykkar þarna heima í formi bloggs. Sko, ég er allavega strax komin með hugmyndir :) Hvað varðar peningamál þá væntanlega er ég að fara að kenna 13 ára stelpu ensku. Með þeim vasapeningi ætti ég að hafa efni á að borga tónlistarskólann og jafnvel nokkra kaffibolla. Annars þá líkar mér ansi vel þetta “einfalda líf”, þar sem maður þarf ekki öll þessi efnislegu gæði. Þetta ljúfa líf þar sem maður finnur að maður er sjálfum sér nægur. Einu sinni hræddist ég meira en allt annað það að þurfa að vera ein með sjálfri mér, þeir tímar eru liðnir! Eftir allt saman þá líkar mér bara þó nokkuð vel við þessa Ásbjörgu. Það er nú líka einu sinni þannig að maður þarf að læra að elska sjálfan sig áður en maður getur verið elskaður af öðrum. Eins og með annað þá er þó allt best í hófi. Ætli ég "sjái" ykkur svo ekki næst á þriðjudaginn kemur.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband