Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Ferðalagið heldur áfram

Leiðangurinn heldur áfram eftir þröngum og bröttum stígum, inn á milli koma hindranir og enn annars staðar breikkar stígurinn og virðist auðveldur að ráða við. Hindranirnar eru þarna til þess að gera okkur allt sem á eftir kemur mun auðveldar en annars, svo á endanum þegar maður telur sig hafa upplifað það erfiðasta, þá loksins telur maður sig færan í allan sjó. Á vegi mínum hafa ekki komið neinar hindranir sem hafa dregið úr gleði minni eða löngun til að halda áfram. Vikan sem var að klárast var bara heldur betur fullbókuð svo ég hef ekki haft tíma eða gefið mér tíma til að flytja ykkur fréttir um lífið hérna í Metz. Það er víst tími til að gera allt sem hugurinn girnist, það á bara allt sinn tíma í lífinu, við gerum ekki allt á sama tíma. Þegar ég var lítil þá dundaði ég mér ansi oft við það að tína fallega steina og safna þeim saman í kassa og poka. Ég hef aldrei gert neitt við þessa steina, ég veit ekki hvar þeir enduðu en líklega einhvers staðar ásamt öllu dótinu og draslinu sem ég var vön að safna. Núna hef ég endurtekið þessa athöfn á annan hátt, ég safna steinum (upplýsingum, atvikum, upplifunum, minningum) allt um kring og vel svo fallegu steinana úr en hendi hinum í burtu. Það er svo skrýtið að þegar ég hef svona mikinn tíma til að íhuga og pæla í hlutunum þá rifjast upp fyrir mér ýmis konar atburðir frá því ég var lítil eða yngri sem voru áður algjörlega þurrkaðir úr minni mínu. Ég framkvæmi sömu athöfnina í huga mínum, það mætti jafnvel segja að ég sé að taka aðeins til í hausnum á mér, setja til hliðar það sem ég vil geyma og henda í burtu því sem er ónýtanlegt eða vekur upp slæmar tilfinningar. Þetta er svolítið eins og að læra undir próf, maður getur ekki munað allt, maður verður að taka aðalatriðin og leggja þau vel á minnið, setja þau til hliðar. Stundum leggur maður eitthvað á minnið sem er algjörlega óþarft að muna og stelur því plássinu frá mikilvægu hlutunum.
Annars svona til að fræða ykkur um umhverfið hérna og hluti sem tengjast ekki huga mínum á einhvern hátt. Um helgina fékk ég heimsókn frá nokkrum sýklum og er því ekkert allt of hress líkamlega og sef ekki vel á nóttinni, fyrir þá sem þekkja mig þá ættu þeir að vita að það þarf heldur mikið til þess að ég sofi illa. Ég ræðst á þessa sýkla eins og hverja aðra neikvæða hlið í lífinu, með ýmsum ráðum að vopni, te, hálstöflur, hómópata pillur undir tunguna, verkjatöflur o.s.frv. Þeir ættu því brátt að víkja og láta líkama minn eins og sál vera hressan.
Hér er ekta haustveður, kalt á morgnana, sól á daginn en einnig kalt, laufin eru farin að roðna og falla hvert af öðru til jarðar. Við sleppum hins vegar alveg við rigningu og rok svo ég kvarta ekki. Helgin var heldur betur eftirminnileg, ég fór í 3 klst mótorhjólatúr með “bróður” mínum, dansaði svo með trjánum eins og þeir kalla það hérna, það er að segja ég fór í svona ævintýragarð þar sem maður klifrar í trjánum með svona belti og keðju eins og þegar maður klifrar. Einnig átti ég mjög góða máltíð, ekta franska á veitingastaðnum sem ég “vann” á, sú máltíð entist heilt kvöld yfir ljúfum tónum kúbverska söngkennarans sem spilaði life tónlist þetta kvöld. Ég held nú af stað inn í nýja og ferska viku með fullt af farangri, það er að segja fullbókaða en rólega samt sem áður. Þetta er yndislegt líf!

Allir vegir færir ?

Þetta er svo skrýtin tilfinning. Þessi tilfinning sem lætur fiðrildin fljúga um í maganum sem lyftir manni örlítið frá jörðinni, lætur blóðið streyma hraðar, hjartað slá örar, lætur einkum góðar hugsanir seytla upp í hugann, gerir tilveruna mun bærilegri en aðra daga og hjá flestum sú tilfinnig sem lyftir munnvikunum upp að eyrum. Þessi tilfinning er víst eitthvað sem maður kallar í daglegu tali gleði eða hamingja. Oftar en ekki hefur þessi tilfinning eitthvað með umhverfið að gera, fólkið sem maður umgengst, óvenjulega eða sjaldgjæfa atburði og svo framvegis. Það skrýtna er að ekkert að þessu hefur með mína líðan að gera, mér er búið að líða nákvæmlega svona síðustu daga en ég er búin að vera mest ein með sjálfri mér... þess vegna finnst mér þetta svo furðulegt. Hvað gerir það að verkum að einn daginn vakna ég bara með bros á vör án þess að nokkuð kveiki eða laði fram þetta bros. Það eru þessir óskiljanlegu vegir sálarinnar, þetta er svo djúpt að ég næ aldrei að komast til bonts í þessu. Ég ætla ekki að vera neitt að kvarta eða ergja mig á þessu, langaði bara til að deila þessu með ykkur.
Það var annað sem kom mér skemmtilega á óvart síðustu daga, það varðar móðurmálið og tilfinningar. Þannig er mál með vexti að Claude (heimilisfaðirinn) er mjög annt um það að ég komist að því hvað mig langi til að gera í framtíðinni. Hann er búinn að bjóðast til að hjálpa mér að vinna að þessu stóra verkefni með því að hitta mig einu sinni í viku, spyrja mig spurninga, láta mig lesa texta og finna það sem snertir mig í þeim. Það mætti líkja þessu við veiðar, það er að segja ég veiði það sem mér finnst áhugavert, það sem hreyfir við mér í textunum/bókunum. Á endanum mun ég sjá að það er alltaf sami fiskurinn sem bítur á hjá mér... Þessir textar og bækur eru að sjálfsögðu á frönsku og eins og við mátti búast þá er ég búin að stilla á frönskuna í huganum. Ég hugsa allt á frönsku, það er að segja ég þýði ekki um leið og ég les. Þegar ég þurfti svo að fara að reyna að finna í textunum það sem hreyfði við mér eða vakti athygli mína þá virkaði það ekki. Ég skil frönskuna bara í huganum en ekki með tilfinningunni, það er að segja þetta eru bara orð og setningar, það kveikir ekki á neinum tilfinningum hjá mér. Þetta olli mér miklum vangaveltingum því ég skildi öll orðin sem skrifuð voru en... allt kom fyrir ekki. Að lokum prufaði ég að lesa einn textann aftur og í þetta skipti með því að hugsa allt á íslensku um leið og “búmm” þá kviknaði allt! Það er samt miklu erfiðara, meira þreytandi... Það er eins og tilfinningarnar tali bara móðurmálinu, allavega hjá mér.
Ég held ég sé virkilega í góðum höndum, því ég er á góðri leið með að finna veginn... það er víst einhver sem er að leiða mig um í huga mínum. Ég hef strax fengið svar við fullt af spurningum og nú þegar eru sumir vegir ekki lengur áhugaverðir, það eru samt ennþá allir vegir færir. Þeim fækkar næstum með degi hverjum svo það verður alltaf auðveldara og auðveldara að rata. Talandi um að rata þá á ég mjög erfitt með að rata hérna um á bíl, það er allt annað en í strætó, lest eða gangandi. Mér skilst að eftir óveðrið mikla heima séu ekki allir vegir færir eins og er... Annars er farið að kólna mjög hérna og öllu líkast að veturinn sé að ganga í garð, sem er ekki mjög eðlilegt fyrir þennan tíma árs hérna.

Tími til að drekkja sér í þönkum

Á einni viku er ég búin að upplifa svo mikið nýtt að mér finnst eins og ég sé þegar búin að vera hérna í heilan mánuð. Við skulum byrja á því að staðfesta ástæðu dvalar minnar hérna fram að jólum. Hún er ekki til að safna mér pening, flýja vini, fjölskyldu eða lífið í Súluhöfðanum. Fyrst og fremst er ég hérna til að líta í kringum mig, hugsa, grafa djúpt í vitund mína og vonandi á endanum kemst ég til botns, þá finn ég jafnvel svarið við þessari alengur spurningu; hvað ætla ég að verða þegar ég verð stór ? Auk þess er ég að undirbúa mig fyrir miðstigspróf í píanóinu og fara í söngtíma til kúbversku söngkonunnar í París, það geri ég til að fá nýjar víddir í þessum efnum og til að læra meira. Píanókennarinn sem ég fann upp á með hjálp söngkennarans er víst einn sá besti á svæðinu og er einnig að kenna í tónlistarháskólanum hérna, ég hef þó enn ekki farið í píanótíma...
Til að afla mér smá aur til að geta keypt mér kaffi og til að borga eitthvað af náminu er ég komin með smá vinnu, einn dag í viku mun ég vera “au pair” hjá bróður Claudes. Einnig er ég búin að rölta út um allan bæ í leit að vinnu á veitingastað eða kaffihúsi, það reyndist ekkert of auðvelt. Til að byrja með er enginn með email, svo ég gat ekki sent starfserilskrána heldur þurfti ég að fara aðra ferð að dreifa henni út um allan bæ, frakkar eru ekki jafn tölvuvæddir og við á Íslandi... sem kom mér mjög á óvart. Á endanum fékk ég að koma í tvo daga í starfsreynslu á einum flottasta veitingastaðnum í Metz, franskur gastró staður. Þetta voru tveir frábærir dagar, ég var að vinna frá 9-15:30 og svo frá 16- 23:30, varla ein mínúta til að borða, ég hafði ekki einu sinni tíma til að pissa. Allir tóku frábærlega á móti mér og ég lærði alveg heilan helling. Ég var sem aðstoðarkokkur í eldhúsinu og fékk að gera allt, var ekki bara send að skera lauk eða skola salatið. Mér tókst ekki að brenna mig né skera á þessum tveimur dögum, sem betur fer, allt gekk eins og í sögu hvað varðaði frammistöðu mína. Að lokum komst ég að því að eigandinn vildi bara láta mig læra hjá sér og fara svo í kokkaskóla eina viku í senn á tveggja vikna fresti. Ég hélt nú ekki! Launin voru heldur ekki til að tala um fyrir svona mikla vinnu og með þessu áframhaldi væri ég komin á kolranga braut, miðað við mín plön. Ég reyni nú alltaf að vera bjartsýn svo ég fann fullt af björtum hliðum við þetta. Til að byrja með þá hafði ég nóg að gera í tvo daga sem mér finnst alls ekki slæmt, ég lærði fullt af hlutum sem ég kunni ekki, ég fékk að upplifa hvernig það er að vinna á veitingastað og get því lagt þau plön á hilluna, síðast en ekki síst þá eignaðist ég frábæra vinkonu sem er einn af kokkunum þarna.
Nú er ég búin að ákveða að ég ætla að láta mér duga að vinna sem au pair, æfa mig á píanóið, syngja, hlaupa, læra tónfræði, lesa, fara í tónlistarskólann og hitta vini mína. Ég ætla að prufa svona í eitt skipti fyrir öll að hafa ekki allt of mikið fyrir stafni, reyna að láta mér leiðast aðeins. Ég efast ekki um að ég hafi gott af því að vera mikið ein með sjálfri mér, leyfa öllum hugsunum að komast á yfirborðið, slæmum og góðum. Ef ég myndi drekkja mér í vinnu eða hinum ýmsu tómstundum og engan dauðan tíma hafa þá myndi ekki bóla á neinum íhugunum. Það er líka svolítil áskorun að vakna á morgnana án þess að þurfa að mæta á einhvern ákveðinn stað, heldur bara vakna og vera einn heima og finna sér eitthvað að gera. Ég hef lagt það í vana minn að vakna með þeim kl 7 og borða með þeim, það er fínt.
Ég hef allt of mikið af fréttum, ég vona að þið séuð ekki þegar dottin út... þetta fer að klárast. Mig langaði bara til að deila með ykkur að ég er með bíl til umráða, Renault Twingo. Í gær tók ég mig til að þrífa hann og í einu orði sagt þá var hann viðbjóðslegur! Það voru kóngulóarvefir inni í honum og ég held fari ekkert nánar í það því ég held það nægi að segja að hann hefur ekki verið þrifinn í 9 ár. Þetta tók góða 4 tíma.
Næst fáið þið kannski eitthvert afkvæmi hugsana minna þar sem ég mun drekkja mér í þeim næstu dagana. Ég er líka að lesa Veröld Soffíu á frönsku og Birtíng á íslensku, með þeim lestri efast ég ekki um að það kvikni fullt af spurningum um lífið og tilveruna.
Þar til næst þá sendi ég ykkar koss á sitthvora kinnina, á franskan máta.


Einhversstaðar, einhverntímann aftur...

Hver hefði trúað því að ég myndi einhvern tíman aftur búa í Frakklandi á sama heimilinu og með sömu fósturforeldrum ?  Þegar ég fór héðan fyrir rúmlega ári síðan kvaddi ég með það í huga að ég myndi bara koma hingað aftur í stutt frí en ekki til lengri tíma.  Nú eru aðstæður að vísu mjög frábrugðnar því sem áður var, fyrst og fremst ber að nefna það að fjölskyldan mín hefur heldur betur stækkað svo það eru fleiri til að sakna, kærasti og lítill frændi, Paula er ekki hérna í næsta herbergi heldur eins langt í burtu og hún kemst frá mér, þ.e.a.s. í Brasilíu... þessir hlutir hafa vissulega áhrif á líðan mína og tilfinningar.  Á einu plani stend ég hins vegar mun betur að vígi, það er að í þetta skiptið kann ég frönskuna og hef alls ekki miklu gleymt á einu ári.  Já og þess má geta að í þetta skiptið þarf ég ekki að sakna þess að geta spilað á píanóið því ég dröslaðist með rafmagnspíanóið mitt með mér (það var ekkert of auðvelt), það vó um 20 kg auk annarrar  tösku sömu þyngdar með fötunum og handfarangur sem vó um 10 kg, eins gott að vera sterkur!  Þessa dagana hef ég lítið við að hafast, það er allt að komast í gang, skólinn er ekki byrjaður, ég er ekki búin að finna mér vinnu, kaupa mér ræktarkort o.s.frv.  Til dægrastyttingar svona fyrsta daginn ákvað ég að sofa fram að hádegi og svo rauk restin af deginum bara áfram með sinni rigningu, ljúfum píanótónum, lyklaborðstikki, nokkrum flettum blaðsíðum og matseld... Nú er dagur liðinn og kvöldið komið, nóttin hefur lagt sitt af mörkum með því að slökkva á sólinni, tannburstarnir fara þá á stjá og ég held ég skríði bara upp í rúm, spennt fyrir ævintýrum morgundagsins !

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband