Fimmtudagur, 18. september 2008
Allir vegir færir ?
Það var annað sem kom mér skemmtilega á óvart síðustu daga, það varðar móðurmálið og tilfinningar. Þannig er mál með vexti að Claude (heimilisfaðirinn) er mjög annt um það að ég komist að því hvað mig langi til að gera í framtíðinni. Hann er búinn að bjóðast til að hjálpa mér að vinna að þessu stóra verkefni með því að hitta mig einu sinni í viku, spyrja mig spurninga, láta mig lesa texta og finna það sem snertir mig í þeim. Það mætti líkja þessu við veiðar, það er að segja ég veiði það sem mér finnst áhugavert, það sem hreyfir við mér í textunum/bókunum. Á endanum mun ég sjá að það er alltaf sami fiskurinn sem bítur á hjá mér... Þessir textar og bækur eru að sjálfsögðu á frönsku og eins og við mátti búast þá er ég búin að stilla á frönskuna í huganum. Ég hugsa allt á frönsku, það er að segja ég þýði ekki um leið og ég les. Þegar ég þurfti svo að fara að reyna að finna í textunum það sem hreyfði við mér eða vakti athygli mína þá virkaði það ekki. Ég skil frönskuna bara í huganum en ekki með tilfinningunni, það er að segja þetta eru bara orð og setningar, það kveikir ekki á neinum tilfinningum hjá mér. Þetta olli mér miklum vangaveltingum því ég skildi öll orðin sem skrifuð voru en... allt kom fyrir ekki. Að lokum prufaði ég að lesa einn textann aftur og í þetta skipti með því að hugsa allt á íslensku um leið og búmm þá kviknaði allt! Það er samt miklu erfiðara, meira þreytandi... Það er eins og tilfinningarnar tali bara móðurmálinu, allavega hjá mér.
Ég held ég sé virkilega í góðum höndum, því ég er á góðri leið með að finna veginn... það er víst einhver sem er að leiða mig um í huga mínum. Ég hef strax fengið svar við fullt af spurningum og nú þegar eru sumir vegir ekki lengur áhugaverðir, það eru samt ennþá allir vegir færir. Þeim fækkar næstum með degi hverjum svo það verður alltaf auðveldara og auðveldara að rata. Talandi um að rata þá á ég mjög erfitt með að rata hérna um á bíl, það er allt annað en í strætó, lest eða gangandi. Mér skilst að eftir óveðrið mikla heima séu ekki allir vegir færir eins og er... Annars er farið að kólna mjög hérna og öllu líkast að veturinn sé að ganga í garð, sem er ekki mjög eðlilegt fyrir þennan tíma árs hérna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 12. september 2008
Tími til að drekkja sér í þönkum
Á einni viku er ég búin að upplifa svo mikið nýtt að mér finnst eins og ég sé þegar búin að vera hérna í heilan mánuð. Við skulum byrja á því að staðfesta ástæðu dvalar minnar hérna fram að jólum. Hún er ekki til að safna mér pening, flýja vini, fjölskyldu eða lífið í Súluhöfðanum. Fyrst og fremst er ég hérna til að líta í kringum mig, hugsa, grafa djúpt í vitund mína og vonandi á endanum kemst ég til botns, þá finn ég jafnvel svarið við þessari alengur spurningu; hvað ætla ég að verða þegar ég verð stór ? Auk þess er ég að undirbúa mig fyrir miðstigspróf í píanóinu og fara í söngtíma til kúbversku söngkonunnar í París, það geri ég til að fá nýjar víddir í þessum efnum og til að læra meira. Píanókennarinn sem ég fann upp á með hjálp söngkennarans er víst einn sá besti á svæðinu og er einnig að kenna í tónlistarháskólanum hérna, ég hef þó enn ekki farið í píanótíma...
Til að afla mér smá aur til að geta keypt mér kaffi og til að borga eitthvað af náminu er ég komin með smá vinnu, einn dag í viku mun ég vera au pair hjá bróður Claudes. Einnig er ég búin að rölta út um allan bæ í leit að vinnu á veitingastað eða kaffihúsi, það reyndist ekkert of auðvelt. Til að byrja með er enginn með email, svo ég gat ekki sent starfserilskrána heldur þurfti ég að fara aðra ferð að dreifa henni út um allan bæ, frakkar eru ekki jafn tölvuvæddir og við á Íslandi... sem kom mér mjög á óvart. Á endanum fékk ég að koma í tvo daga í starfsreynslu á einum flottasta veitingastaðnum í Metz, franskur gastró staður. Þetta voru tveir frábærir dagar, ég var að vinna frá 9-15:30 og svo frá 16- 23:30, varla ein mínúta til að borða, ég hafði ekki einu sinni tíma til að pissa. Allir tóku frábærlega á móti mér og ég lærði alveg heilan helling. Ég var sem aðstoðarkokkur í eldhúsinu og fékk að gera allt, var ekki bara send að skera lauk eða skola salatið. Mér tókst ekki að brenna mig né skera á þessum tveimur dögum, sem betur fer, allt gekk eins og í sögu hvað varðaði frammistöðu mína. Að lokum komst ég að því að eigandinn vildi bara láta mig læra hjá sér og fara svo í kokkaskóla eina viku í senn á tveggja vikna fresti. Ég hélt nú ekki! Launin voru heldur ekki til að tala um fyrir svona mikla vinnu og með þessu áframhaldi væri ég komin á kolranga braut, miðað við mín plön. Ég reyni nú alltaf að vera bjartsýn svo ég fann fullt af björtum hliðum við þetta. Til að byrja með þá hafði ég nóg að gera í tvo daga sem mér finnst alls ekki slæmt, ég lærði fullt af hlutum sem ég kunni ekki, ég fékk að upplifa hvernig það er að vinna á veitingastað og get því lagt þau plön á hilluna, síðast en ekki síst þá eignaðist ég frábæra vinkonu sem er einn af kokkunum þarna.
Nú er ég búin að ákveða að ég ætla að láta mér duga að vinna sem au pair, æfa mig á píanóið, syngja, hlaupa, læra tónfræði, lesa, fara í tónlistarskólann og hitta vini mína. Ég ætla að prufa svona í eitt skipti fyrir öll að hafa ekki allt of mikið fyrir stafni, reyna að láta mér leiðast aðeins. Ég efast ekki um að ég hafi gott af því að vera mikið ein með sjálfri mér, leyfa öllum hugsunum að komast á yfirborðið, slæmum og góðum. Ef ég myndi drekkja mér í vinnu eða hinum ýmsu tómstundum og engan dauðan tíma hafa þá myndi ekki bóla á neinum íhugunum. Það er líka svolítil áskorun að vakna á morgnana án þess að þurfa að mæta á einhvern ákveðinn stað, heldur bara vakna og vera einn heima og finna sér eitthvað að gera. Ég hef lagt það í vana minn að vakna með þeim kl 7 og borða með þeim, það er fínt.
Ég hef allt of mikið af fréttum, ég vona að þið séuð ekki þegar dottin út... þetta fer að klárast. Mig langaði bara til að deila með ykkur að ég er með bíl til umráða, Renault Twingo. Í gær tók ég mig til að þrífa hann og í einu orði sagt þá var hann viðbjóðslegur! Það voru kóngulóarvefir inni í honum og ég held fari ekkert nánar í það því ég held það nægi að segja að hann hefur ekki verið þrifinn í 9 ár. Þetta tók góða 4 tíma.
Næst fáið þið kannski eitthvert afkvæmi hugsana minna þar sem ég mun drekkja mér í þeim næstu dagana. Ég er líka að lesa Veröld Soffíu á frönsku og Birtíng á íslensku, með þeim lestri efast ég ekki um að það kvikni fullt af spurningum um lífið og tilveruna.
Þar til næst þá sendi ég ykkar koss á sitthvora kinnina, á franskan máta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 4. september 2008
Einhversstaðar, einhverntímann aftur...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 10. ágúst 2007
Annarsamir dagar í sumarlok..
Þá eru liðnar rúmar þrjár vikur síðan ég kom heim og ég hef varla ennþá áttað mig á því. Það er rosalega gott að vera komin heim og gaman að hitta alla sem maður hefur saknað í heilt ár! Þessa dagana lifir maður lífi flestra námsmanna og vinnur nóttanna á milli og gerir vart annað, það þarf víst að eiga peninga í þessum harða heimi þar sem ekkert er ókeypis! Það er margt sem maður áttar sig á eftir eins árs fjarveru, eins og til dæmis það hvað þessi eyja sem við búum á er einstaklega sérkennileg og alveg ofboðslega falleg. Fyrstu helgina mína hér á landi lifði ég hálfgerðu ferðamannna lífi, ég fór að skoða landið og sá það með allt öðrum augum en áður. Mér fannst í fyrsta skipti tími til kominn að líta aðeins í kringum mig og gefa hinum ýmsu stöðum annað tækifæri og jafnvel það fyrsta. Maður gefur sér aldrei tíma til að skoða landið vegna þess að maður hugsar alltaf að maður hafi allan tímann í heiminum til að skoða sitt eigið land og leitar því einungis að sólinni sem sýnir sig yfirleitt á hinum hluta jarðarinnar. Nú í sumar hefur hún þó eitthvað verið áttavillt og óvenju mikið haldið sig hérna hjá okkur og yljaði okkur svo um munaði. Mér finnst alveg fáránlegt að hafa þurft að vera stödd erlendis í heilt ár til að fyllast áhuga á eigin landi og átta mig á því hvað við erum einstaklega heppin.
Nú styttist óðum í það að skólinn hefji sína göngu og hlakkar mikið í sumum þegar að því líður. Þá fer löngu vinnusumri að ljúka og kólna fer í veðri. Í sumarlok fannst mér tilvalið að skella mér til London og fá þar með smá spark í rassinn fyrir langa og stranga skólagöngu með öllum sínum göllum en jafnframt kostum. En haldið verður af stað þann 16. ágúst í 6 manna frábærum stúlknahóp.
Ég hef ekki gefið það upp á bátinn að raka saman hinum ýmsu hugleiðingum og leyfa þeim að komast á blað. Nú hef ég stofnað nýtt blogg þar sem ævintýri hins forna lands munu eiga sinn stað og verða lesefni fyrir gesti og gangandi. Þar mun ég rita niður ýmist bull eða vitleysu og slóðin er eftirfarandi : http://www.asbjorg.blog.is
Sjáumst hress og kát á nýrri síðu!
Bloggar | Breytt 11.8.2007 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 15. júlí 2007
Leyndarmál perlanna...
Perlur er ekki auðvelt að finna... þær finnast þó einstaka sinnum, þegar heppnin er með manni. Yfirleitt er hægt að þekkja þér á þeirri hamingju sem þær veita þér, hversu fallegar þær eru og best af öllu er að þær láta þér líða eins og einni...
Perla er eitthvað illfinnanlegt, fallegt, verðmætt, mikilvægt og líkurnar á að finna eina eru óendanlega litlar ! Í Frakklandi fann ég perlufjölskyldu ! Þvílík heppni, þvílík tilviljun (ég trúi reyndar ekki á tilviljanir), þvílík paradís!
Þegar nokkrar perlur koma saman gerist eitthvað ólýsanlegt, kraftaverk... Perlum kemur alltaf vel saman og þær geta myndað líf sem alla dreymir um að lifa og sem deyr aldrei. Þær bjuggu til eitthvað saman, fallegt, sem sést alla leið frá himnum. Þær bjuggu til stjörnu sem skín svo skært, sem mun aldrei dofna, aldrei slokkna.
Þegar kemur að kveðjustund perlanna mun kraftur ljóssins lifa að eilífu og hver perla mun hafa lært eitthvað af þessum kynnum. Þær munu án efa geyma perluna í sjálfri sér í hjarta sér þar sem allir fallegu hlutirnir eru geymdir. Ég lærði að ég er líka perla...
Ég þakka perlunum fyrir mig en Guði þakka ég fyrir perlurnar...
Það hefur ekki enn verið varpað ljósi á það besta. Ég hef heyrt að á Íslandi finnist af og til demantar, þá er víst ennþá erfiðara að finna heldur en perlur. Í Súluhöfða 16 bíður mín víst gersemd ein... Þann 17.júlí mun ég vonandi finna þá aðstandendur og vini sem eru mér næst og þá sem láta mér líða eins og mikilvægasta demantinum.
Þá er komið að lokum þessa frábæra ævintýris, eftir 3 tíma mun ég skilja aðstandendur héðan eftir með tárin í augunum á brautarpallinum. Síðasta nóttin í rúminu mínu liðin, síðasta máltíðin að ganga í garð, síðustu kossarnir í kjölfarið, tárin rata fljótt niður kinnarnar og ég segi bless og takk fyrir mig! En heilsa á ný, þriðjudaginn þann 17. júlí, kl 15:45 á Keflavíkurflugvelli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Sunnudagur, 8. júlí 2007
Hver mínúta frátekin!
8 tíma lestarferð afstaðin, Munich - Metz! Ég steig út úr lestinni uppgefin og mín hinsta ósk var rúmið mitt, en áfram hélt prógrammið... Það er ekki ein mínúta frí í lífi mínu þessa dagana! Þegar heim var komið hélt ég í afmæli söngkennarans minns, það var hins vegar þess virði og vel það.
Ferðast með 5 brössum... ég veit ekki hvort ég muni gera það aftur. Það var ansi átakanlegt, fyrst og fremst þá virðast flestir hafa ansi gaman af því að tala, allir voru með mismunandi hugmyndir um það sem gera skyldi... stundum var ég bara fegin að skilja ekki það sem þau voru að tala um. Tíminn fór mikið í það að keyra á milli staða, leita að hóteli, leita að veitingastað o.s.frv., þau vildu helst sjá allt en það endaði með því að við sáum ekki mikið... Það sem er fyrir öllu er að við vorum saman, ég fékk að kynnast foreldrum Paulu og tíminn leið ansi hratt!
Komandi viku bíður með ferðatösku sem þarf að fylla, fólki sem þarf að hitta, hlutum sem þarf að redda, það er að segja hún bíður eftir mér þegar fullhlaðin og mun þar af leiðandi virkilega fljúga á ógnarhraða. Á þessari stundu að viku liðinni mun ég vera með annan fótinn uppi í lestinni á leiðinni til Parísar þar sem ég mun dvelja með öllum hinum skiptinemum Frakklands þangað til ég kem heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 3. júlí 2007
Tilfinningar eiga engin orð en orðin eiga tilfinningarnar!
Línur, strik og tákn sem vilja segja svo margt, svart á hvítu. Stafir sem mynda orð, orð sem mynda setningar sem einnig vilja segja svo margt. Ótrúlegt hvað eitt orð sem myndað er með nokkrum stöfum getur haft mikla merkingu og hvað það getur sagt mikið. Með öllum sínum kröftum eru þessi fyrirbæri sem skrifuð eru svart á hvítt eða mynduð með krafti raddbandanna, lögun og beitingu þess og munnsins fær um allt sem þau vilja. Þeim var gefin merking sem í tímans rás getur þó breyst. Sum hafa það mikinn kraft að þeim tekst að þvinga tárakirtlana til að spýta tárum út úr hverju einasta auga sem það sér. Þau hafa alla þá krafta sem við mennirnir gáfum þeim. Við gáfum þeirra merkingu, þeirra krafta, allt sem þau þráðu og höfðu þörf fyrir til að geta lifað góðu lífi.
Á hverjum degi gefur hver manneskja milljónum orða líf. Það besta er að gefa þeim orðum líf sem tekst að gefa öðrum eitthvað gott, til dæmis þau sem skella upp litlu brosi á varirnar og litlum stjörnum í augun. Við tölum ekki um þau sem hafa sömu áhrif og lítill sólargeisli sem stingst alla leið inn til hjartans og yljar um hjartarætur. Eins mikinn mátt og þau geta haft öll þau orð sem til eru í heiminum eins erfitt getur verið að setja orð í stað fyrir tilfinningar. Þó svo orðin geti kallað fram tilfinningar geta tilfinningar ekki kallað fram orð. Það er nánast ógerlegt og í því samhengi eru orðin fyrir þær ekki til og hafa nánast enga merkingu. Maður gæti alveg eins sagt vatn í stað þess að segja ég elska þig. Þar sem vatn er eitthvað sem er rosalega mikilvægt öllu lífi, þá ætti það að geta lýst mikilvægi þeirrar manneskju sem maður elskar. Í stað þess að segja ástin mín gæti maður jafnvel sagt blómið mitt og svoleiðis mætti áfram telja...
Tilfinningar eru eitthvað sem maður getur sýnt á svo margan annan hátt en með orðum. Orð eru mikilvæg en djúpt í augunum getur maður lesið orð af annarri gerð sem geta sagt mun meira en penni getur skrifað á autt blað.
Nú er ég að leggja í hann, stefnan er tekin á Þýskaland og dvalið verður ásamt Paulu og foreldrum hennar þar í tæplega viku. Ég ákvað að skella inn einu bloggi svo ég skilji ykkur ekki eftir í óvissunni... Núna vitið þið allt sem hefur þotið um hausinn á mér síðustu daga og vonandi að það skemmti ykkur eða nýtist ykkur.
Ég gef ykkur allt mitt vatn blómin mín !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 29. júní 2007
Útkeyrð og dreymin...
Eins og vaninn er hjá AFS (Another Fat Student) komum við öll heim með nokkur vel valin aukakíló. Flest fljúga víst í burtu jafnskjótt og þau komu. Að sjálfsögðu fylgi ég straumnum, en ákvað hinsvegar að vera svolítið frumleg og birta mín aukakíló í öðru formi. Þau eru öll staðsett í hausnum á mér og mun eflaust losna við nokkur þegar heim er komið... Form þeirra er ansi margvíslegt, þau geta fundist í góðum minningum, fullt af sögum, örlítið af þroska, einnig í smá meiri þekkingu en áður var, fullt af íhugunum, spurningum og svörum. Þar má einnig finna heilt tungumál og svolitla menningu og siði. Ég vona að mér verði fært að létta aðeins á mér með nokkrum góðum eyrum ég efast reyndar ekki um það að einhver vilji hlusta... ég býst við að eiga marga góða að.
Þessa dagana hef ég ansi litla orku, ég er að njóta síðustu viknanna hérna upp að því marki að ég sef varla á nóttinni. Ég er alveg uppgefin en mér finnst samt alveg æðislegt að hafa meira en nóg að gera jafnvel þó að eftir á verði ég alveg útkeyrð. Þegar ég kem heim verður þá rúmið mitt kannski uppáhaldsstaðurinn minn. Síðustu nætur er mig búið að vera að dreyma heimkomu mína í ýmis konar búningum. Sú versta var að það kom enginn að sækja mig! Og það sem verra var að ég hafði ekki neinn áhuga á því að hitta fólk og það fyrsta sem ég gerði var að spila á píanóið...
Bloggar | Breytt 30.6.2007 kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 24. júní 2007
Hótel Jörð
Lífið - kapphlaup við tímann. Í dag er þegar á morgun. Í gær er flogið langt í burtu og kemur aldrei aftur. Á morgun er bara á morgun og kemur jafn skjótt og það flýgur aftur í burt.
Ánægja skemmtun og vellíðan er besta og dýrasta eldsneytið en verst er að það er illfinnanlegt. Það þýtur yfir daga og vikur á ógnarhraða og eina leiðin til að stöðva það er að detta niður í leiðindi, vanlíðan og óskemmtilegheit... Hvað ætlast maður eigilega til af þessum tíma, þessu lífi ?
Við viljum helst ekki að tíminn líði en ætlumst samt sem áður til að þess að hafa mest megnis af lífinu gaman... Manni er nú ekki allt fært. Við erum þegar bókuð á Hótel Jörð sem er það besta í alheiminum, fáum gefins dvölina og það í allnokkur ár, eins lengi og við öndum að okkur loftinu. Eitt af dóttufyrirtæki Hótel Jarðar, Hótel Ísland bauð mér pláss frá og með 17. júlí 2007 og fram að síðasta andardrætti mínum. Ég hef heyrt að það sé eitt að þeim bestu í heiminum. Þangað er heldur ekki hverjum sem er boðið, það eru víst bara 300.000 gestir svo nóg er plássið. Mér skilst af öllu að þar sé rosalega fallegt... Ég hef ákveðið að taka tilboðinu !
Þetta einstaklega flókna mál, íslenska eins og það er kallað hefur runnið út úr munninum á mér síðustu daga. Þannig er mál með vexti að hingað er komin Ragga (íslenskur skiptinemi) og reyni ég af bestu getu að hafa ofan af fyrir henni. Fête de la musique eða tónistarhátið Frakklands var haldin hátíðlega þann 21. júní þar sem ég söng einnig á þessu forna máli, því var mikið lofað og allt gekk rosalega vel. Síðan var haldið í sveitina þar sem hittur var fyrir annar Íslendinur, Arna Lára er hún nefnd. Þar rötuðu fleiri íslensk orð í loftið ásamt frönskum slettum. Við skemmtum okkur konunglega ! Þessa síðustu daga hef ég hinsvega ekki haft heppnina með mér en við glímdum við ýmis lestarvesen sem hins vegar leystist allt að lokum. Þrátt fyrir óheppni hefur hlátur og gleði ratað inn um dyrnar mínar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 15. júní 2007
Tónlist heimsins !
Hvað var í upphafi áður en heimurinn varð til ? Hvaðan kemur þessi stóri listamaður sem bjó til þetta glæsilega listaverk ? Við vitum ekkert og erum ekkert... Við erum á jörðinni sem er ein af plánetum okkar vetrarbrautar sem er ein af milljörðum í alheiminum. Við getum komið með hinar ýmsu getgátur um hitt og þetta en aldrei neitt vitað fyrir víst, það er svolítið óþægileg tilfinning... Getgáturnar geta verið réttar þar til eitthvað annað kemur í ljós...
Heimurinn er eitt risastórt tónverk sem þessi listamaður samdi, það fallegasta sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Ég og þú erum nótur sem hljóma ekki eins. Ég er heldur ekki alltaf eins, það fer eftir því hvernig ég er spiluð... Stundum er ég spiluð löng, stundum stutt, stundum á píanó og í enn annað skipti á fiðlu...o.s.frv. Stundum finnst mér ég hljóma vel en oft kemur fyrir að mér finnst ég örlítið fölsk. En í þessu risastóra tónverki er ein nóta ekkert ofboðslega mikilvæg en allar voru settar á blaðið af einhverri ástæðu. Sumar voru settar til að breyta einum kafla aðrar einungis til að hljóma en engu breyta en allar saman breyta tónverkinu; heiminum... Það erum við sem þurfum að átta okkur á því hvernig við gerum mest gagn...hvernig getum við látið þetta tónverk verða ennþá fallegra en það er ? Ef við spyrjum okkur engra spurninga fáum við engin svör. Það er enginn hérna fyrir tilviljun en því miður eru sumir sem halda það og bíða allt lífið á krossgötum... sá fær aldrei nein svör og hljómar ekki sterkt í tónverkinu, jafnvel heyrist ekki. Tónverkið mun halda áfram að eilífu og fyrstu nóturnar sem skrifaðar voru á tómt blaðið í upphafi eru þegar þagnaðar og hvíla sig til að gefa öðrum nótum tækifæri til að taka þátt í tónverkinu, aðrar eru farnar að dofna en gera þó gæfumuninn og geta ef til vill kennt þeim nýju hvernig best er að spila úr því sem við höfum. Við erum hérna til að spila tónlist heimsins...Saman!
Stundum líður mér ekki vel og er ekki örugg með mig, þá er ég fölsk og hljóma ekki vel. Það veltur yfirleitt á nótunum sem í kringum mig eru... og jafnvel blaðsíðunni sem ég er á; umhverfið. Til að ég hljómi vel og til að mér líði vel þarf ég að vera á réttri blaðsíðu og meðal réttra nótna og það þarf ég að finna... Sumar nótur geta hljómað vel hvar sem er og eru óháðar umhverfinu...eða sýnast óháðar en þá oft er það ekki sú rétta nóta heldur annað hlutverk sem sýnir sig. Það hlýtur að vera erfitt að þurfa alltaf að þykjast vera önnur nóta en maður er! Ég vel að velja mér umhverfið og þegar ég er meðal nótna sem mér líður ekki vel með er ég ekki spiluð rétt og þær nótur fá ekki að kynnast mér eins og ég er... En hinar fá hins vegar að kynnast mér rosalega vel og kunna þá betur að meta það sem ég er, hvernig ég er spiluð...
Ykkur finnst ég kannski spyrja mig of margra spurninga...en svörin fylgja spurningunum jafnvel þó bíða þurfi eða leita vel, það er svona sem mér mun takast að velja réttu molana!
Nú ætti ég að þekkja París betur en lófann á mér, söfn voru vel heimsótt, búðir fengu ekki mikla athygli og fæturnir fengu vel að þreytast og kynnast hverfum Parísar... Ég féll kylliflöt fyrir ákveðnum hverfum og við komumst að því að París er ekkert svo stór allavega ekki þegar metro er vel notað. Þessu fylgja að sjálfsögðu myndir sem eru inni á myndasíðunni minni.
Í dag er mánuður þangað til að ég yfirgef heimilið mitt, fjsk og vini...en finn þó gamalt heimili, gamla fjsk og gamla vini sem mun þó mér virðast nýtt eftir eins árs fjarveru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)