Sunnudagur, 5. nóvember 2006
Nýr mánuður með kulda og magaverkjum
Þá er nóvembermánuður genginn í garð með sinn ógnarlega kulda, jólaauglýsingar streyma í póstkassann, súpermarkaðirnir fullir af jóladóti og farið er að hengja upp jólaljós í miðbænum. Ég verð hálfhrædd þegar ég sé allt þetta því þá uppgötva ég að ekki er of langt í jólin og mín fyrstu jól án fjölskyldunnar sem á auðvitað eftir að verða upplifun útaf fyrir sig, góð eða slæm ? ég veit ekki enn.
Seinasta mánudag fór ég í hjólatúr með Claude og Gerhard í fjöllunum, veðrið var frábært og ekkert smá fallegt útsýni. Svona 70% af leiðinni var upp í mótið og hjóluðum við í 2 og 1/2 tíma. Ég var eins og sannur hjólagarpur í hjólabuxunum hennar Claire og á rosa fínu hjóli. Það var alveg að koma nóvember og við á stuttbuxum og stuttermabol, þó ég sé í Frakklandi þá er það ekki alveg eðlilegt fyrir þennan tíma árs. Enda læddist veturinn inn tveimur dögum síðar en þá var hitastigið um 20° minna og Paula upplifði sínar 0°C í fyrsta skipti á ævinni.
Líkaminn minn virðist ekki alveg vera að höndla þessar breytingar og er hann búinn að sýna það með mörgu móti. Allt haustfríið mitt er ég búin að vera með magaverk eftir hverja máltíð og á hverjum degi hugsaði ég, æ þetta hlýtur að lagast en svona gekk þetta í 10 daga og þá var komið nóg. Claire pantaði tíma hjá lækni og læknirinn sagði að ég væri með "irritation intestinical" sem ég held að þýði þarmabólgur og fékk ég einhver lyf við þessu og vona svo sannarlega að þau virki. Skrýtið að líkaminn minn bregðist svona við breytingum vegna þess að það er ekki miklar breytingar fyrir mig, það er enn meiri fyrir Paulu en enn hefur ekkert hrjáð hana fyrir utan aukakíló sökum súkkulaðiáts.
Ég náði nú samt að gera fullt af hlutum í fríinu mínu þrátt fyrir þetta, ég fór út á hverju einasta kvöldi og leyfði mér að versla smá í H&M. Annars er ég að fara að endurtaka hjólatúrinn aftur á eftir og svo þarf ég að læra eitthvað fyrir morgundaginn. Svo mæti ég hress í skólann í fyrramálið, endurnærð eftir gott og langt frí.
Ásbjörg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 29. október 2006
Vænlegt haustfrí !
Þessa vikuna hef ég haft meira en nóg að gera. Á miðvikudaginn var byrjaði ég semsagt í nærri því tveggja vikna haustfríi, sem er rosalega notalegt. Og þann sama dag var ball skipulagt af einhverjum öðrum skóla en við Paula skelltum okkur með einni stelpu úr bekknum okkar. Það var rosalega gaman, ég dansaði eins og ég ætti lífið að leysa. Þetta er örlítið ólíkt heima á Íslandi, þarna voru krakkar frá 15-18 ára og allir að drekka á ballinu, það er "leyfilegt" hérna. Svo er dansað uppi á borðum og stólum og verulega sveitt andrúmsloft og já öðruvísi tónlist. En fyrir öllu er að ég skemmti mér mjög vel og við komum ekki heim fyrr en um 5 leytið. Daginn eftir var svo engin pása, fórum í matarboð til konu sem vinnur með Claire og eyddum öllum deginum þar. Á föstudaginn hittum við svo aðra skiptinema sem eru með Rotary Club og eyddum öllum deginum einnig með þeim, borðuðum, fórum í bíó og á kaffihús.
Á mánudaginn birtist óvæntur gestur á heimilið, eða það er að segja fósturbróðir minn Thomas. Hann mun eyða fríinu sínu hérna. Hann er rosalega skemmtilegur og erum búin að fara í eitt partý með honum sem var líka rosa fínt, sungið og spjallað. Það er víst eitthvað sem er sameiginlegt með flestöllum löndum. Á miðvikudaginn fengum við svo annan óvæntan gest en það er strákur frá Austurríki, Gerhard sem er að fara að skipta um fjsk. og dvelur hérna þangað til nýja fjsk. tekur á móti honum eða í viku.
Helgin hefur svo farið í það að spila fótbolta svo ekki sé meira sagt.
Í nótt græddi ég einn klukkutíma vegna þess að við skiptum úr sumartímanum.
Annars hef ég það bara gott þó svo að suma daga sé þetta örlítið erfitt, en þegar dagarnir eru svona troðfullir hefur maður engan tíma til að hugsa um erfiðleikana en þegar ekkert er að gera þá hefur maður tíma til að hugsa og allt er svo tómlegt. Það er samt ekkert nema eðlilegt og ég reyni bara að njóta lífsins.
Ásbjörg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 22. október 2006
Frakkar ekki hrifnir af hvalveiðum !
Þessa dagana fæ ég ekki mikið lof í lófa fyrir að vera Íslendingur. Eins og þið væntanlega vitið var á dögunum hvalveiði leyfð í atvinnuskyni. Frakkarnir eru jafnframt ekki mjög hrifnir af þessu eins og margar aðrar þjóðir. En ég hef ekkert með þetta að gera, núna er ég frakki, þetta árið. Þó að pabbi minn sé forseti Íslands eins og stelpunum í fótboltanum tókst svo vel að misskilja þá fæ ég engu ráðið.
Annars var vikan bara fín, borðaði með stelpunum í fótboltanum á þriðjudaginn eins og svo oft áður og enn sem áður var það mjög fínt og skemmtilegt. Svo gerðist ég sniðug og keypti mér málfræðibók fyrir 11 ára krakka til að æfa mig aðeins, því mér gengur ekki vel að ná þessum sirka 10 tíðum sem við höfum í frönskunni, en þetta er allt að koma.
Fyrir þá sem vilja vita um leikinn sem ég spilaði síðastliðinn sunnudag þá gekk það bara hreint ágætlega, þótt mér reyndist erfitt að skilja hvar þjálfarinn vildi að ég væri á vellinum vegna þess að fótboltaorð eru eitthvað sem eru ekki í mínum orðaforða, en eftir leikinn tókst mér að skýra fyrir honum að ég spilaði yfirleitt hægri kant, eða hefði gert það í sumar. Svo að næsti leikur verður mun betri, en hann er næsta sunnudag.
Um helgina fór ég ásamt fósturfjölskyldu minn til Belgíu til að heimsækja bróður Claudes og fjsk. hans. Við lögðum af stað fljótlega eftir skóla í gær og vorum rétt að renna í hlaðið heim aftur núna. Í gær afrekaði ég það að vera í Frakklandi, Lúxemborg og Belgíu sem ég tel ekki slæmt. Mér leið samt ekki eins og ég væri í öðru landi, þarna er líka töluð franska og við vorum bara á heimili þeirra nánast allan tímann fyrir utan smá göngutúr úti í náttúrunni, sem var ansi fallegt. Við fengum ekkert öðruvísi mat þarna enda eru þau frönsk og búa bara í Belgíu. Mér skilst samt að maturinn í Belgíu byggist að mörgu leyti upp á frönskum með majonesi og jú þeir eru þekktir fyrir gott súkkulaði líka. En ekkert af þessu rataði ofan í magann minn þessa helgina, en hugsa að ég myndi varla orka það að vera skiptinemi hjá belgískri fjsk. Vinkona hennar Paulu sem er skiptinemi í Belgíu kom svo og heimsótti okkur í dag og komumst við að því að á hennar heimili er víst ekta belgískur matur.
Þau hjónin í Belgíu eiga þrjú börn sem við áttum góðar stundir með og gátum lært mikið af. Einn strákur og tvær stelpur 3,4 og 5. Strákurinn hafði mikinn áhuga á okkur og var að skoða hvar við ættum heima og svona og þegar hann sá Ísland sagði hann : þetta er nú pínulítið land, býrðu bara ein þarna eða ? hugsa að þetta hafi verið kaldhæðni en það sem við mættum líta á er það að Belgía er líklega svona 10X minni. Svo spurði hann Paulu hvaðan hún væri og hún sagðist jú vera frá Brasilíu og þá sagði hann : já það hlaut eitthvað að vera, þess vegna tala ég miklu betri frönsku en þú.
Smá fróðleikur svona í lokin. Ég var að komast að því að það eru til um 350 tegundir af frönskum ostum ! hvorki meira né minna. Fyrir glöggar manneskjur eins og mig áttaði ég mig á því að ég ætti að geta borðað eina tegund á dag allt árið um kring.
Á miðvikudaginn byrja ég svo í tveggja vikna haustfríi svo litla stelpan í Frakklandi hoppar glöð inn í næstu viku.
En hún kveður að sinni,
Ásbjörg
Bloggar | Breytt 23.10.2006 kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sunnudagur, 15. október 2006
Nýt lífsins í Frakklandi !
Þess vikuna var fullt að gera og það finnst mér hreint ekki slæmt, þá gleymir maður sér og nýtur lífsins í botn. Það voru próf, fótboltaæfingar, verslað, matarboð og margt fleira.
Ég fór í stærðfræðipróf á miðvikudaginn og kom heim með þær slæmu fréttir að ég hefði gjörsamlega klúðrað því. Þetta voru bara orðadæmi svo allur tíminn fór í að reyna að skilja uppl. og síðan sp. en þegar það tókst var bara stæ eftir sem fyrir mig var ekki mikið mál. Ég náði ekki að klára prófið, kláraði svona 1/3 af því. Svo leið sá dagur að við fengum út úr prófinu og viti menn ég og Paula vorum hæstar í bekknum með prýðiseinkunn. Svo var líka sögupróf sem ég stóð mig alveg prýðilega í en á eftir að fá út úr því.
Á miðvikudaginn fór ég í bæinn að versla með stelpu úr bekknum mínum og það gerðust undarlegir hlutir, fyrsta flíkin var keypt. Ég keypti mér rosalega flottar Levi's buxur, en mig var virkilega farið að vanta buxur. Á fimmtudagskvöldið fórum við Paula svo heim til Delphina sem er trúnaðarmaðurinn minn og gerðum crepes að frönskum sið. Á eftir æfingu á föstudaginn fórum við nokkrar stelpur úr fótboltanum heim til Angel og borðuðum fondue einnig að frönskum sið og að sjálfsögðu var skálað í hvítvíni.
Helgin var annars bara róleg en rosalega fín, fórum í gær enn og aftur á kaffihús með nokkrum krökkum úr skólanum og ég tek það fram að þegar við förum á kaffihús þá förum við alltaf á sama kaffihúsið, þetta er svona kaffihús skólans, allir í skólanum fara á þetta kaffihús. Á eftir voru svo keyptir ýmsir nauðsynjahlutir. Áttum svo rólegt laugardagskvöld heima yfir Dancer in the dark.
Í dag mun ég spila fyrsta leikinn minn með stelpunum og er svolítið stressuð en einnig spennt. Ég hef ekkert sofið út síðan ég kom hingað, það lengsta sem ég hef sofið er til 9:30 og það einu sinni. En það er kannski ekki þörf fyrir það þar sem það er farið svo snemma að sofa.
Ég er búin að setja inn fullt af myndum en fleiri eru væntanlegar.
Ásbjörg
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Sunnudagur, 8. október 2006
Kólnandi veður í Frakklandi !
Það kemur víst líka vetur í Frakklandi eins og á Íslandi. Hitinn er frá 10-15 °C en virðist vera enn kaldara vegna rakans. Í kjölfar kuldans veiktist ég í vikunni og það var skal ég ykkur segja ekki gaman. Það var rosalega skrýtið að vera veikur í Frakklandi, ekki heima hjá sér en þar sem dvölin er tæpt ár þá ætti maður varla að komast af án þess að veikjast smá. Ég var samt fljót að ná mér þar sem hjúkrunarfræðingurinn Claire dældi í mig ýmsum tegundum af lyfjum. Svo í vikunni var ekki spilaður neinn fótbolti og lítið gert, engin kaffihús þessa vikuna.
Hinsvegar var helgin alveg hreint frábær. Beint eftir skóla í gær keyrðum við upp í sveit til að fara í AFS camp ásamt skiptinemunum sem eru hérna í nágrenninu. Þar mátti finna fólk frá hinum ýmsu löndum svo sem Íslandi, USA, Austurríki, Brasilíu, Ítalíu, Guatamala og Costa Rica. Þetta var hin besta skemmtun og hreint frábært að hitta Örnu Láru. Það var kannski töluð of mikil íslenska að sumra mati en það var alveg frábært. Við fórum í gamla prentsmiðju í Epinal og dvöldum svo í sumarbústað einnar fósturfjölskyldunnar þar sem var borðað, talað mikið, setið við varðeld og sofið í svefnpoka og kuldinn á við íslenska útilegu. Vaknað og borðað meira og svo var ekkert annað að gera en að undirbúa næstu máltíð og enn var borðað. Nánast allt snerist um að borða. Síðan var brunað heim í tómleikann, það er svo skrýtið að koma svona heim og hafa ekker fyrir stafni nema aðra 6 daga skólaviku eftir svona skemmtilega helgi. Ég kannast meira að segja líka við þetta heima á Íslandi.
Það gat ein stelpa borið fram nafnið mitt RÉTT - hún er frönsk en hún var skiptinemi í Finnlandi. Það vakti mikla lukku.
En að vana bruna ég af stað inn í næstu viku með bros á vör. Ekki annað hægt
Væntanlegar skemmtilegar myndir frá franskri útilegu og fleiru.
Kveð í bili,
Ásbjörg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Sunnudagur, 1. október 2006
Skelltum okkur til Brasilíu !
Líðandi vika var að vana bara góð, ég er farin að venjast lífinu hérna. Ég er hætt að halda að ég sé heima í Súluhöfða þegar ég vakna á morgnana. Mér finnst skrýtið að hugsa til þess að þetta muni vera heimilið mitt næstu 10 mánuði. En þá rann það upp fyrir mér að nú þegar er ég búin að vera hér í mánuð og 9 - 10 svona í viðbót ættu ekki að skaða.
Frakkland og Ísland eru ekki svo ólíkir menningarheimar. Það er þó önnur saga að segja um Brasilíu og Ísland og sömuleiðis Frakkland og Brasilíu. Það koma dæmi um það daglega. Nefni hér nokkur dæmi bara til gamans. Paula hendir alltaf klósettpappírnum (eftir að hún hefur skeint sér) í ruslatunnuna en ekki í klósettið ; hún hefur aldrei ryksugað og ég þurfti að kenna henni það ; hún hefur aldrei séð heyrúllu ( vegna þess að það kemur ekki vetur í Brasilíu ) ; hún hefur aldrei séð snjó. Svona gæti ég endalaust haldið áfram.
Ég er byrjuð að læra söng hérna hjá stelpu sem er 25-30 ára og er frá Kúbu. Er í tónlistarskólanum hérna í Metz og er að fara að læra jazz söng. Það er ekki það sama og ég er að læra heima - en ég spurði sjálfa mig bara : er ég hérna til að gera nákvæmlega það sama og heima ? og komst að þeirri niðurstöðu að svo er ekki. Mér líst rosalega vel á þetta, er þó bara búin að fara í einn tíma enn sem komið er.
Mér hefur ekki enn tekist að komast í kaupæðið mitt eins og mér tekst svo furðuvel annars staðar. Paulu hefur hins vegar tekist mjög vel til. Ég er ekki búin að kaup eina einustu flík síðan ég kom hingað og kem ég nánast sjálfri mér á óvart. Mig er meira að segja farið að vanta ýmsa hluti vegna þess að mér tókst ekki að troða nógu mikið af fötum með mér og ég er bara með eina skó til að vera í svona dags-daglega. Fyrir manneskju eins og mig sem hef ekki tölu á pörunum sem ég á heima, þá gengur það ekki alveg upp.
Í gær fór ég með stelpunum úr fótboltanum og einnig fylgdu með makar á handboltaleik, Metz á móti einhverju liði frá Luxemborg og leitt að segja þá tapaði Metz með fjórum mörkum ; þetta var mjög spennandi leikur. Eftir leikinn fórum við heim til einnar stelpunnar að borða og það var borðað eitthvað sem kallast moul frites og komst ég að því að það er kræklingur og franskar. Þetta þótti mér ekki gott en skemmti mér að vísu mjög vel. Kom svo heim kl að verða 2 og svo var vaknað kl 7 í morgun til að keyra upp í sveit - eins og svo oft áður. Í þetta skipti var það fjsk. Claudes sem kom saman og borðaði í hádeginu. Í bænum þarna var einhver landa hátíð og skelltum við okkur þar með til Brasilíu - sem vakti mikla lukku hjá sumum.
Væntanlegar eru myndir frá liðnum atburðum.
Ásbjörg
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Laugardagur, 23. september 2006
Á fleygiferð !
Líðandi vika flaug fram hjá mér ansi hratt sem má bæði telja gott og slæmt. Það var bara mánudagur og skyndilega koma föstudagur....
Svona til gamans að geta þá var mín 5 mann fjölskylda dreifð um 4 lönd síðastliðna viku, sem mér þykir ansi spes ! Einnig má geta þess að ég er í 25 mann bekk og það eru einungis 4 strákar og leitt að segja þá er enginn þeirra sætur
Það verður víst að viðurkennast að ég er aldursforseti bekkjarins, flestir eru tveimur árum yngri en ég en inni á milli leynast fallistar sem já eru þá einu ári yngri en ég - ég spyr : ætti mér þá að líða eins og tvöföldum fallista ?
Skólinn gengur vel að vana, fótboltinn einnig og mér líður vel.
Í gær fór ég á fótboltaæfingu og eftir æfinguna fór ég ásamt stelpunum að borða og eftir á kaffihús og skemmti ég mér alveg konunglega. Það var rosa gott að vera án Paulu vegna þess að þá var ég mun duglegri að tala og það var einnig mikið hlegið. Ég kom heim að verða eitt og skóli í morgun kl 8, en maður er nú vanur slíku á klakanum en hérna þykir þetta ekki eðlilegt. Claire segir að nú þurfi ég bara að hvíla mig í allan dag og geti ekki gert neitt næg er nú samt orkan í mér
Á morgun erum við að fara eitthvað út á land að hitta fjölskyldu Claire og lagt verður af stað kl 9, takk fyrir ! Svo á þessu heimili verður farið að sofa ekki seinna en 10-11. Paula er að fara að gera eitthvað ásamt kirkjukrökkunum í kvöld svo ætli ég taki mér ekki Friends og reyni að læra svolítið af því, það er ansi gott fyrir mig að hérna er allt sjónvarpsefni, þættir og bíómyndir með frönsku tali... svo þegar horft er á sjónvarpið þarf maður ekki að hafa samviskubit yfir að vera ekki að læra frönsku
Síðasta sunnudag fór ég ásamt Paulu til Nancy sem er dálítið stærri bær en Metz og margt flott að sjá þar. Setti inn myndir frá því. Fleiri myndir væntanlegar, í næstu viku.
Ég bið að heilsa öllum heima, sakna allra.
Kveðja frá Frakklandi(úr hitanum)
Ásbjörg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Sunnudagur, 17. september 2006
Skóli lífsins !
Já, hér lærir maður margt nýtt ! Menningin er svo ólík en samt svo gaman að kynnast nýrri menningu. Ég held ég hafi aldrei verið jafn reglusöm og eftir að ég kom hingað, herbergið mitt er alltaf í röð og reglu því hér eru gerðar kröfur um það og farið að sofa ekki seinna en 10, TAKK ! Svo ég fæ minn 9-10 tíma svefn- sem mér veitir reyndar ekki af því maður verður ekkert smá þreyttur á að hlusta á frönsku allan daginn og reyna að skilja og reyna að tala.
Ég er búin að stunda kaffihús OF mikið en það er ansi franskt svo við skulum segja að það sé ekkert svo slæmt og þar sem ég drekk ekki kaffi þá kemur þetta ekki á minn kostnað. Mig langar reyndar að kaupa ALLT í búðunum hérna, rosalega mikið af flottum vörum - en maður leyfir sér ekki að lifa eins og einhver túristi, kaupi bara nauðsynjar (ennþá).
Ég er farin að tala alveg helling frönsku og gengur bara rosa vel, fyrir utan að ég er með minn fallega íslenska hreim og á ansi erfitt með að bera fram sum orð. En til þess að æfa það er ég að lesa bók fyrir Claire - tvær bls á dag og geri svo útdrátt mér líður eiginlega eins og ég sé í 6 ára bekk
en enginn sagði að þetta yrði auðvelt.
Helgin, ef hægt að er að kalla helgi þegar skólinn er á laugardögum, þá er nú ekki ansi löng helgi. Allavega var hún góð. Eftir skóla í gær fórum við Paula niður í miðbæ að VERSLA en ekki hvað keypti eins og ég segi, nauðsynjar, nærföt og fótbolta. Kíktum svo á kaffihús með stelpu sem heitir Eludie og er rosa fín og á kaffihúsinu voru fullt af krökkum úr skólanum.... og svo var haldið áfram að versla og strætó tekinn heim. Þegar heim var komið var brunað upp í sveit til mömmu og pabba Claudes í matarboð. Þar var nú borðað mikið - forréttur, aðalréttur, ostar og eftirréttur....úfff
Og hver haldiði að hafi grillað, það var sko amman sem grillaði, ansi svöl
afinn gerði ekki NEITT
Ætli þetta sé ekki gott í bili,
Kveðjur frá Frakklandi
Ásbjörg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Sunnudagur, 10. september 2006
Vika búin ............vikur eftir
Þá er ég búin að dvelja viku hjá fóstur - fjölskyldunni minni og dvölin hefur vægast sagt verið mjög góð. Mér líður eins og ég sé búin að vera hér miklu lengur en viku, en svo er ekki. Það er frá mörgu að segja þessa fyrstu viku.
Skólinn: Skólinn hér er mjög fínn, margir skemmtilegir krakkar og allir eru mjög næs við okkur. Það er þó önnur saga tímarnir þar sem kennarinn blaðrar á 100 km hraða á frönsku - þá bara skil ég hvorki upp né niður en tek þó eftir framförum því í byrjun vikunnar skildi ég ekki eitt orð en nú er ég farin að ná einu og einu orði inn á milli. Já skóli á laugardögum - það er þó ekkert svo slæmt það er bara leikfimi frá kl 10-12 og mér þykir leikfimi ekki leiðileg svo þetta kemur út á sama og éf ég færi að hlaupa....
Fótbolti: Ég er komin í fótboltalið hérna sem er um 20 km akstur að heiman. Þjálfarinn sækir mig alltaf heim. Skólastjórinn reddaði þessu einhvernveginn og þjálfarinn kom bara að tala við mig fyrsta skóladaginn. Liðið heitir ESAP og er ansi sterkt, það eru um 20 stelpur að æfa, misgóðar. Við æfum tvisvar í viku á mið og fös. Ef stelpur hafa gaman af íþróttum þá eru þær bara STRÁKAR, eins og hálft liðið er - þær klæða sig eins og strákar, eru með stutt hár og haga sér bara eins og strákar á alla vegu.
Helgin: Var mjög fín, í gær var skóli og eftir skóla fórum við ásamt Claude upp í sveit til afa og ömmu Fannyar sem er kærasta Xaviers og þau búa einnig þar, vorum að vinna í garðinum og veðrið var frábært, vorum til 8 og ég var enn á hlýrabolnum þá og mér var heitt. Keyrðum heim og borðuðum kvöldmat sem Claire hafði undirbúið. Spjölluðum og höfðum það kósý, hér er farið mun fyrr að sofa en heima, kl 9-10 þegar skólinn er og einnig um helgar.
Ég er búin að setja inn nokkrar myndir úr Arrival campinu, þær eru undir myndaalbúm - arrival camp.
Ætla ekki að hafa þetta lengra í bili.
Ásbjörg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Mánudagur, 4. september 2006
Komin "heim"
Nu er eg komin til fjolskyldunnar, kom seinni partinn i gaer. Eg er buin ad pakk upp ur toskunni minni og setja inn i skap og er med voda fint og stort herbergi Herna er bara bordad trisvar a dag og MIKID i einu, verd ad venjast tvi.
Eg verd i skolanum fra atta til svona 3-4 nema a mivikudogum ta er ekki skoli eftir hadegi og tad er skoli a LAUGARDOGUM arrg. "Mamma" min aetlar a reyna ad finna stad til ad aefa song og einnig fotbolta, annars aetlar hun ad syna mer hvar eg get farid ad hlaupa.
Vid Paula naum vel saman, sem er gott Nema hvad hun talar alveg fronsku, hun er buin ad vera i timum tar sem hun talar bara, en kennslan heima er ekki tannig, svo eg get litid talad bara skrifad og lesid, vona bara a tad verdi ekki gert upp a milli okkar tess vegna. Framundan er mikid planad, matarbod, fara i heimsoknir, afmaeli osfrv.
Set inn myndir tegar eg hef fengi netkortid mitt sent ;) buin ad taka fullt af teim. Tad er tradlaust net herna i husinu aftvi sonur teirra er med fyrirtaeki i kjallaranum sem er tolvufyrtaeki sem er frabaert
Eg svaradi ollum kommentum sem haegt var ad svara
Kveda fra Frakklandi,
Asa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)